13.07.2009 07:58

Hornstrandaferð dagur 3 og rebbarnir

Það var frekar þungbúið þegar við skriðum úr koju, brottför þennan daginn var ekki fyrr en klukkan 10 og því góður tími til að stússast í mat. Það hafði rignt um nóttina og allt frekar blautt. Stefnan þennan dag var í Bjarnarnesið, stutt labb en hægt að bæta við fyrir þá sem það vildu. Menn voru algallaðir þegar lagt var af stað upp Axarfjallið, en mjög fljótlega var fötum fækkað þrátt fyrir þokuna, enda var logn og hlýtt. Axarfjall heitir eftir berggangi sem er eins og öxi í laginu. Það er gengið í sneiðingum upp fjallið og vafalaust flott útsýni af toppi þess en við sáum lítið af því. Þegar við áðum við vörðuna efst birtist einn rebbinn með fugl í kjaftinum. Guðni sagði að það væri greni í urðinni rétt neðar.
Svona var skyggnið þarna uppi.
Fljótlega gengum við niður úr þokunni og sáum niður í Hrollaugsvíkina og Bjarnarnesið. Þarna er lítil á sem við þurftum að vaða eða fara yfir á drumbabrú. Allir fóru yfir brúna en misfagmannlega.

Sif á brúnni. Hún var í "ekki fimlega" hópnum ásamt mér og fleirum.
Þegar komið er yfir í Bjarnarnesið og horft niður í víkina sést þykkt hraunlag sem hefur runnið yfir mikla drumba. Þegar viðurinn eyddist urðu eftir djúpar holur og í þær verpir teistan. Trúlega nokkuð örugg fyrir svöngum rebba þar.

Hraunið með holunum.

Teistuegg í ca. 50-70 cm langri holu.
Þarna er flottur brimstallur með steinnökkva. Brimstallur verður eftir þegar brimið hefur sorfið bergið niður að sjávarmáli. Þeir sjást víða og einn flottur er við Hornbjargsvita.
Þarna skiptist hópurinn, sumir héldu áfram í næstu vík að skoða flottan foss, en aðrir  ætluðu að dóla sér heim. Við Sif vorum í dólhópnum. Þokan var nærri horfin svo við fengum heldur betra útsýni á heimleiðinni og sáum yfir vitann og umhverfi hans af Axarfjallinu.

Dæmigerður brimstallur.

Það eru ekki bara hrikaleg fjöllin sem gaman er að skoða þarna. Gróðurinn kemur líka á óvart. Þarna eru engir grasbítar og því eru gómsætar plöntur í engri hættu. Hvönnin er víða og afar gróskumikil, en það var burnirótin, sem er þarna alls staðar í stórum breiðum, sem kom mér mest á óvart. Svo eru þarna burknar og fullt af plöntum sem ég hafði bara séð í bókum áður. Og svo eru það blessaðir rebbarnir. Allur úrgangur er flokkaður í Hornbjargsvitaeldhúsinu í:
1.brennanlegt rusl
2. lífrænt
3. dósir og flöskur
4. rebbar.
Í rebbafötuna fer kjöt, bein, álegg og PASTA. Rebbafatan er svo losuð við veðurathugaunarstöðina. Sú stöð er reyndar bara til heimabrúks núorðið.. Veðrið er tekið sjálfvirkt í dag.

Einn af heimarefunum.
Ævar húsráðandi sagði það væri tær snilld að sjá rebba grípa kjaftfylli af spaghettí og rölta svo af stað með það lafandi út um munnvikin. Við sáum a.m.k. 3 refi sem komu reglulega  í mat þarna við vitann.

Velkomin í Hornbjargsvita.
 Í öllum gönguferðunum sáust svo nokkrir. Einn var að skjótast niður í Skófnabergið fyrsta göngudaginn og einn elti okkur nokkurn spöl þann daginn.

Á leið í bergið.

Rétt hjá Hornbæjunum gengum við svo fram á tvo yrðlinga, trúlega við greni. Þeir voru alls óhræddir og héldu áfram að leika sér meðan við gengum fram hjá í nokkurra metra fjarlægð.


Síðasta daginn hittu fóru 5 úr hópnum, Hvannaglannarnir svonefndu, í Rekavíkina og yfir í Hvannadalinn. Á þeirri leið hittu þau svangan rebba sem var hrifinn af harðfiski og var tilbúinn að koma ansi nálægt.

Guðrún, kannski að spá í væntanlegan pels.

Smá viðbót vegna athugasemdar frá Svani.
Ein afleiðingin af þessum rebbaflota er að engir mófuglar sjást eða heyrast á svæðinu. Ekkert dirrindí, eða köll í stelki. Einu sinni heyrðum við samt í hrossagauk. það er líka borin von fyrir mófuglana að koma upp ungum við svona aðstæður. það var hins vegar mikið af sólskríkju og steindepli. Þeirra hreiður eru kannski auðfaldari inni í urðunum eða milli steina.

10.07.2009 22:10

Heyskapur og dótaraunir.

  Þegar ég byrjaði að múga upp, um hádegi á fimmtudag var flatt á um 30 hekt. Það er trúlega Dalsmynnismet í flatneskju.
 

 Þetta er reyndar úrelt mynd síðan í fyrra. Núna er vélinni breytt þannig að hún skilur eftir tvo múga í stað eins vegna sprettunnar.

Ekki nóg með það heldur var heymagnið per ha. með allra mesta móti.

 Þrátt fyrir frekar einkennilegt tíðarfar þessa vikuna, þurrviðri í sunnan og vestanátt með logni allar nætur með tilheyrandi náttfalli ,og  skýjuðu fram eftir morgni var heyið orðið vel þurrt. Það eina sem skyggði á ánægjuna, var að það hafði verið farið að spretta úr sér og hafði legið  of lengi, svo mesti ferskleikinn var horfinn.

 Sem sagt ekki sama úrvalsfóðrið og undanfarin ár.


  Það glaðnaði oftast til að deginu, og þá verður stundum dálítið heitt fyrir suma, þrátt fyrir rólegheit í vinnu og námi.

 Nú er semsagt lokið fyrri slætti fyrir kýrnar og haust og vorfóðrið fyrir féð fer vonandi í plast á morgun. Þessi heyskapur er tekinn hér heima og í Hrútsholti.
 
Næst liggur fyrir að heyja fyrir Hestamiðstöðina, túnin í Hrossholti og Söðulsholti.


  Fyrri slætti lýkur síðan með heyskap fyrir útiganginn og miðsvetrarfóðrið  í féð.  Sá heyskapur er sóttur í Skógarnes og Miklaholtssel og þar er grasið látið spretta " hæfilega" úr sér.

  Það skiptir ekki máli þó dótið sé dýrt og nýlegt, allt getur þetta bilað.

  Keðjuhlekkurinn sem slitnaði í rúlluvélinni í gærkvöldi hefði ekki átt að vera stórmál en einhvernveginn flæktist keðjan í strekkjara og rústaði honum. Sem betur fer, er til bæði lítil og stór sleggja ásamt járnkalli og í höndunum á réttum aðilum eru þetta tæki sem virka stundum vel.

 Hitt var öllu verra að síðan kom í ljós að keðjan hafði tjónast verulega í látunum og var dæmd ónýt af hnípnum bændunum. Það er bæði gott og nauðsynlegt að eiga góða nágranna og hér eru þeir í allar áttir. Það var farið í gamla rúlluvél hjá einum þeirra og þrátt fyrir að hún sé að nálgast tvítugsaldurinn var hún með keðju sem nýttist með smá viðbót úr þeirri löskuðu.

 Yngri bóndinn þverbraut síðan allar reglur í hvíldarákvæðum vinnulöggjafarinnar í nótt, því Kolviðarnesbóndinn var með  vélina bókaða í dag.

  Þó allt væri  brjálað að gera hjá Jötunn Vélum tókst Magga að finna handa mér keðju og lása og koma þeim af stað til mín. Þeir fá prik fyrir það.

Já, svo heyrir maður svona með öðru eyranu að nú sé tilhugalífinu lokið hjá blessaðri ríkisstjórninni.

 Þá reynir á vitið, viljann, og skynsemina.emoticon

08.07.2009 09:58

Hornstrandaferð - dagur 2

Þegar risið var úr rekkju um átta leytið var þokan mætt. Hefja átti göngu  stundvíslega (gott á kennarana kl. 9. Menn smurðu nesti, við Sif með allt of mikið eins og vanalega, skelltu aukafötum í dagpokana og vorum, flest, tilbúin á réttum tíma. Stefnan var á Kálfatinda og Hornbjarg, en ef það yrði þoka á Kálfatindum yrði farið í Hornvíkina í staðinn. Þetta var áætluð 8-10 tíma ganga og eins og Guðni gæd sagði" það er bratt upp á Kálfatindana en enginn hefur snúið við" Hm, við Sif ætluðum nú að sjá til þegar nær drægi. Þokan minnkaði þegar gangan upp í Almannaskarðið hófst og menn fækkuðu fötum á leiðinni framhjá Blakkabás, upp Litlubrekku, Stórubrekku og Sigmundarhjalla. (Öll örnefnin eru bara til heiðurs Sif sem hafði enga trú á minninu hjá mér.) Þegar upp í skarðið kom sást að Kálfatindar voru þokulausir og stefnan sett þangað.


Skófnaberg næst, svo Eilífstindur, Kálfatindar fjærst og þar á hæsta tind 534 metrar.

3 konur ætluðu ekki upp og skildu þarna við hópinn og gengu niður í Hornvíkina og ætluðu að bíða okkar þar. Svona rúmlega klukkutíma bið sagði Guðni en varð nú ansi miklu lengra. Leiðin lá meðfram bjargbrúninni, ekki samt skelfilega nálægt, og framhjá Harðviðrisgjá, Skófnabergi, Eilífstindi og meðfram Kálfatindum til norðurs þar sem ganga skyldi upp.

Gengið upp á Kálfatinda.Séð niður í Hornvík, þar vorum við 3. daginn og óðum ósinn. Ansi kalt.

Uppgangan er  brött en ekkert alltof nálægt brún svo þetta slapp allt til þrátt fyrir lofthræðslu. En ég var ekkert að kíkja mikið fram af brúninni. Guðni varaði okkur við að labba ekki fram af eða halla okkur fram á stafina nærri brúninni. Lítil hætta á að ég gerði það!

Töluverður spölur eftir enn og alveg asskoti bratt.
Þegar upp var komið var tekin fyrsta matarpásan og eins gott að missa ekkert því það fór strax á fljúgandi siglingu niður. Þegar við vorum svo að byrja niðurferð sást þokan koma upp með berginu.


Við gengum svo sem leið lá niður að Hornbæjunum. Á leiðinni hittum við Jón landvörð sem hefur aðsetur í Hornvíkinni. Hann hafði skotist þarna upp til að hringja, var orðinn matarlítill.  Hann fræddi okkur um lífið þarna áður fyrr og endaði á smá fyrirlestri um göngustafi sem hann taldi eingöngu nothæfa ef menn ætluðu í svona megrunarátak. Ef við vildum endilega hafa þá ættum við að halda utanum þá miðja og hafa þá fyrir aftan bak og læðast svo um landið líkt og gömlu bændurnir. (þúfnagöngulag). Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur var alsæll með þetta því hann var sá eini sem var ekki með stafi. Fyrirlesturinn hafði greinilega áhrif og fleiri og fleiri fóru að nota Mýramannagöngulagið. Veðrið daginn áður hafði víst verið einstaklega gott þarna í Hornvíkinni því Jón hafði hrært tvær Bettý Crocker kökur, sett plast yfir og grafið í fjörusandinn. Eftir 2 tíma voru þær fullbakaðar! Við pöntuðum umsvifalaust kökur  þegar við kæmum til hans eftir 2 daga.

Jón landvörður áður en stafafyrirlesturinn hófst.
Nú lá leiðin niður Múlann að gömlu bæjunum í Horni. Þar var smá pása áður en lagt var upp á Hornbjarg. Það var mun léttara labb á ská upp hlíðina. Eftir stutt stopp þar var svo gengin sama leið heim og sáu menn heitu sturtuna í hillingum. Þetta endaði sem 10 tíma labb og þegar ég skreiddist úr rúmi næsta morgun voru "framlærisvöðvarnir" stirðir.
Gönguveðrið var fínt, logn, hlýtt en það vantaði sólina svona til að ná sem allra flottustum myndum. Myndirnar  sem hér fylgja eru  mest frá Guðrúnu sem er frá Fáskrúðsfirði. Sif á líka nokkrar. Svo ekki taka mark á þessu Iðunnar vatnsmerki á myndunum. 


Flettingar í dag: 762
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579455
Samtals gestir: 52637
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:09:52
clockhere