08.03.2011 22:59

Týnd vorblíða, rúningur og meðfædd hæverska.

Vorblíðan sem ég lofaði svo mjög fyrir nokkrum bloggum síðan, hvarf á braut eins og við mátti búast á þessum árstíma.
Svona leit þetta út í dag ef horft var til vesturs.


 Og það var líka kominn vetur á ný í hinni áttinni, hjá aðalbloggara þeirra Austurbakkamanna.



  Doddi í Mýrdal kom svo í dag og bjargaði rúningsmálinu þetta vorið.



 Yngsta féð var alrúið en skilið aðeins eftir á hinum fyrir stóra hretið í vor.



 Vegna komandi kuldakasts var yngra féð sett í flatgryfjuna fram yfir helgi því það getur orðið ansi kalt í gömlu fjóshlöðunni sem er þeirra staður.

Dáð sem var í smá  pásu frá hvolpunum og Tinni vinur hennar sáu um að halda fénu frá gjafagrindinni meðan bætt var í hana.
 Af meðfæddri hæversku fer ég ekki nánar út í það.


 Svo er það Geirhnjúkurinn að lokum.
 Svarta skýið á fjallamyndunum er eitthvað heimtilbúið vandamál en ekki fyrirboði innrásar frá Mars.


04.03.2011 23:53

Einföld sál, mjólkurkvóti og hann Jón Bjarnason.

Ég er ákaflega einföld sál.

Einfaldar sálir eru oft góðar í að gera flókna hluti einfalda og ég er dálítið þannig.

Ef ég hef eitthvað á tilfinningunni nógu lengi fer ég að trúa því að þannig sé það bara.

Mjög lengi hef ég haft það á tilfinningunni að ákveðinn hluti stéttarbræðra minna í mjólkurframleiðslunni, sé dálítið áhugasamur um að halda uppi háu verði á mjólkurkvótanum.

Stundum hef ég látið þessa skoðun mína í ljósi og fengið bágt fyrir.

 Ágætt dæmi um aðgerð til að hækka gangverðið á kvótanum var t.d það að lögfesta fyrningar á honum, en rökin fyrir því að fyrna niður kaup á framleiðslurétti/styrk á 5 árum eru vandfundin fyrir einfalda sál. Allavega held ég ekki að þeim sem börðu þetta í gegn hafi fundist trúlegt að keyptur framleiðsluréttur yrði verðlaus eða gengi úr sér á nokkrum árum eins og dótið okkar.

Þessi aðgerð varð til þess að eldri bændurnir létu skattkerfið borga niður kvótakaupin sín meðan ungu bændurnir festust í þrælabúðum bankanna vegna ofurverðs á kvótanum.

Annað gott dæmi og áhrifaríkt til að halda uppi fallandi kvótaverði var að færa kvótaáramótin frá mánaðarmótunum ág./ sept. til áramóta.

 Rökin fyrir því að hafa kvótaáramót í mjólkinni um mánaðarmótin ág. sept. eru öllum mjólkurframleiðendum augljós. Þá er sársaukaminnst að vera með umframmjólk og oft hægt að gelda upp fyrir tímann kýr sem bera fyrripart vetrar o.sv. frv.

 Í des. er hinsvegar mjólkurframleiðslan á fullu og hvorki hægt að slá af í gjöf né annarri meðferð.

Þetta var alveg ótrúleg aðgerð.

Af öllum mönnum var það svo hann Jón Bjarnason sem kom, sá, og gerði eitthvað af viti.

Hann kom á kvótamarkaði.
Hann slátraði fyrningarruglinu.
Hann hlustar ekki á þá félaga mína sem vilja gera hlut kvótaseljenda sem mestan.

 Já, þrátt fyrir allt er honum Jóni Bjarnasyni ekki alls varnað.

Fyrir nokkrum vikum sat ég svona minifund með nokkrum þungavigtarmönnum í fyrirtæki í landbúnaðargeiranum og öðrum úr bankakerfinu.

Aðalgúrúinn í landbúnaðargeiranum var sannfærður um það, að innan tiltölulega skamms tíma yrði verðið á mjólkurkvótanum komið niður í 150 kr./l.

Megi spá hans rætast sem fyrst.emoticon 
 

03.03.2011 20:24

Vorblíðan og vinnugenin.

Vorblíðan í dag var vel þegin þó ekki væri sólfarið til vandræða.

 Það er blautt um og ég uppgötvaði það í vikunni að jörðin er nánast klakalaus sem algjörlega frábært.

 Við Tinni lentum í hálfgerðum vandræðum í aurnum ásamt viðfangsefnum okkar en bættum samt ýmsu í reynslubankann eins og oftast áður.

Það var að vísu enginn aur í þessari kennslustund hér.


 Það lögðu síðan 3 kýr land undir fót/dekk og enduðu för sína í Hvíta Húsinu á Hvammstanga.
Allar með ónýt júgur en það ásamt takmörkuðum mjalta og framleiðsluhæfileikum er helsta dánarorsök  hinna frábæru íslensku landnámskúa.
 
 Nú er farið að huga að áburðaráætlunum enda vorboðarnir, áburðarsalarnir farnir að láta vita af sér.
Spurning hvort áburðarpokarnir verði grænir í ár?


 Bændurnir settust því niður í dag og skipulögðu mykjudreifingu vorsins og  þó margvíslegir óvissuþættir séu í þeirri áætlun verður áburðarpöntunin sniðin að henni.

 Það var svo skipst á skoðunum um hönnun framkvæmda sem hugsanlega verður ráðist í með sumrinu.

 Svona getur vorblíðan haft góð áhrif á þá sem eiga svo mikið undir landinu og tíðarfarinu.emoticon 


 

Flettingar í dag: 300
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 953
Gestir í gær: 86
Samtals flettingar: 435935
Samtals gestir: 40234
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 05:13:22
clockhere