14.08.2010 21:42

Stressdagur að baki.

Þó ég verði sífellt rólegri með aldrinum og reyni að forðast stressið af alefli koma alltaf slæmir dagar öðruhvoru.

 Gærdagurinn var ekki alslæmur en afleitur á köflum.

 Ég átti tíma í bænum kl. 12.15 og fund á Selfossi kl 2.
Síðan varð ég að ná í BM Vallá í Fornalundi fyrir lokun kl 6, og þetta leit bara allt vel út um morguninn.

 Á leiðinni í bæinn átti ég reyndar að koma við á Skaganum og taka pakka á Selfoss og þá byrjuðu vandræðin.
Þegar til kom þurfti ég að ræsa út mann til að ná pakkanum og þetta tók tíma og það var stress að ná í bæinn kl 12.15.
Þá hafði eitthvað komið uppá þar og ég þurfti að bíða til kl eitt.

Fundartíminn stressaði mig þó ekki mikið því þar gerðist ekkert fyrr en ég og félagi minn, sem fékk far úr bænum, mættum.

 Fundurinn dróst hinsvegar á langinn og í stað þess að enda rúmlega 4 lauk honum ekki fyrr en vel að ganga 6 og nú var þröngt á að ná í Vallá fyrir lokun.

Þar þurfti ég að ná út kantsteinum í hellulögn en miklar planframkvæmdir standa yfir í Dalsmynni.


Ég er orðinn mikill sérfræðingur í hellulögnum en ætla pottþétt ekki að leggja það fyrir mig.

Til stóð að loka því máli um helgina og nokkra viðbótarsteina bráðvantaði til þess.

Þetta stóð glöggt og litlu munaði að rautt ljós á Höfðabakkanum rústaði málinu.

Tvær mín. yfir 6 slapp ég inn í afgreiðsluna og var svo stálheppinn að þarna var alvöru afgreiðslumaður sem seldi mér umsvifalaust 20 kantsteina þrátt fyrir að vera hættur þennan föstudag ( og meira að segja 13. mánaðarins).


Steinarnir komnir á sinn stað og á morgun verður væntanlega fyllt að þeim og hellulagt.
Það verður ekki slæmt mál þegar sést fyrir endann á plandæmunum.

 Einn gutti var eftir á planinu sem reddaði mér steinunum og nú var næsta mál að komast í einhverja búllu til að næra mig.
 En uppistaða í neyslu dagsins síðan morgunmat lauk var svart kaffi.

Og það var enn meiri léttir en vanalega þegar ég var kominn fyrir Kollafjörðinn á leið í stresslausa sveitina.emoticon

Og ein kennslustund með frábært fjárhundsefni kom mér aftur í rétta gírinn.emoticon

08.08.2010 19:59

Fjárhundanámskeið, íslandsmet, gigtartöflur og Wiský frá síðustu öld.

Þó að við Gísli séum ekki vel þokkaðir hvort heldur er sundur eða saman, ætlaði allt úr böndunum þegar kvisaðist um smalahundasnámskeið.

 Þar sem við félagarnir eru með allra jákvæðustu mönnum og eigum oftast erfitt að neita nokkrum hlut hefði getað farið illa.

 Það vildi okkur til happs að fyrirvarinn var stuttur, hestamót o.fl. settu strik í reikninginn en síðast en ekki síst týndist ( trúlega) miði með þó nokkrum símanúmerum  ýmissa áhugasamra um námskeið sem hafa hringt á liðnum misserum.

 Og  ég hef náttúrulega  enga samúð með þeim sem ekki lesa bloggið mitt daglega og missa því af þýðingarmiklum auglýsingum.

 Það mættu síðan 16 hundar og þátttakendur á námskeiðið og sumir voru með áhangendur með sér svo það var mannmargt í Mýrdal um helgina.

Áslaug fékk aldeilis að taka til hendinni með standandi stórveislu alla helgina.



 Frá v. Styrmir og Klonni frá Gufudal. Villi og Terrý f. Hrossholti. Dagbjartur og  Spóla frá Hrísum. Alexander og Pjakkur f.Grundarfirði.Dóri og Píla frá Kvíabekk.Birna og Rós f. Staðarhúsum. Brynjar og Patti f. Ystu görðum.ásbjörn og Bolla f. Móskógum.  Dóra Erla og Snælda f.Snartarstöðum. Gísli staðar og námskeiðshaldari. Dísa og Píla f. Gullberastöðum. Ásberg og Moli f. Tálknafirði. Elín og Knútur ´. Snæbýli. Liggjandi . Bjössi og Lóa f. Hraðastöðum. ( 3 vantar.)

 Við Gísli vorum hæstánægðir með útkomuna á þessari frumraun á öllu Íslandi (trúlega) að halda 16 manna smalahundanámskeið með tveim leiðbeinendum.


Týra f. Dalsmynni var eins og ég lofaði kaupendunum, auðveld í tamningu, góð á heimili og notadrjúgur smali en enginn ofurhundur.

 Seinni daginn var boðið uppá 4 hólf með kindum. Þrjú með tömdum kindum og eitt fyrir meira tömdu hundana með hóp af fé úr hlíðinni. Leiðbeinendurnir röltu á milli og þetta svínvirkaði.
(algjörlega hlutlaust álit.emoticon )



 Kominn slaki í liðið seinnipart sunnudags.

Fyrir okkur námskeiðshaldarana var ánægjulegast að sjá breytinguna á ótömdu hundunum  þessa  2 daga og nú verða eigendurnir að standa sig í framhaldinu.



 Huntawayinn( rekstrarhundar) hennar Dóru Erlu, Snælda frá Snartarstöðum var áhugavert eintak sem hafði áhuga á að hringfara féð, harðákveðin en ekki mjög þungt haldin af hlýðnihvötinni. áhugavert smaladýr þegar hún er búin að átta sig á hver á að ráða.



Ásbjörn og Bolla f. Móskógum í lokaæfingunni.


Villi og Terrý ásamt Laxárdalsbændum. Jói fékk sérstakt hraðnámskeið á sunnudagsmorgun nýlentur úr 5 daga reið á Hornströndum með Svaðilfara og þurfti að vera mættur aftur heim um 3 leytið.


Staðar og námskeiðshaldari  í námskeiðslok, þreyttur en hæstánægður með helgina horfir  á lokaæfinguna hjá verðandi stórsmala.

 Og þetta var líka erfitt fyrir okkur gömlu félagana Vask og undirritaðan.

 En þegar Vaskur var kominn með gigtartöfluna sína og ég í pottinn með klassawiskýið frá síðustu öld
brosti lífið við okkur félögunum sem aldrei fyrr. emoticon 

Myndir í abúmi smella  hér

05.08.2010 21:58

Kraftaverkið í bygginu.

Það leit illa út með byggræktina hjá mér í júníbyrjun.

Mér fannst akrarnir vera röndóttir, skellóttir og yfirhöfuð misprottnir og illa sprottnir.

Ég kenndi sjálfum mér um (aldrei þessu vant) því ég hafði breytt verulega útaf hefðbundinni áburðargjöf í þetta sinn.

 Ekki með eina eða tvær spildur heldur allan pakkann rúman 21 hektara.

 Breytingarnar fólust í því að búfjáráburður var borinn á alla akrana  ýmist sauðfjártað/hálmur eða mykja.

 Síðan var einungis köfnunarefnisáburður borinn á og áburðarskammturinn minnkaður talsvert frá fyrri árum eða í um 25 - 49 N á ha. eftir því hvort byggi hafði verið sáð áður í akurinn.



 Hér er akur sem er á fyrsta ári í byggi,  tún sem var plægt upp sl. haust. áburðargjöf 27 N/ha.

Hann leit skelfilega út en hefur tekið alveg rosalega við sér síðan um miðjan júní.



 Þessar tvær spildur hér eru á nýbrotnu landi sem fékk mykju og um 28 N/ha.

Þær litu alveg hörmulega út og ég var búinn að ákveða að auka mykjuskammtinn um helming næsta vor.



 Eitt af því sem ég óttaðist var að arfinn tæki þetta yfir og rústaði ökrunum . Byggið virðist undantekningarlaust hafa skilið hann eftir. Það er helst Lómurinn sem er í erfiðleikum.



 Þetta þurra en sólríka sumar virðist heldur betur hafa losað um köfnunarefnið í mýrarjarðveginum og mér sýnist nokkuð ljóst að þrátt fyrir lága áburðargjöf verði köfnunarefnið til vandræða þegar maður vill að vöxturinn stoppi og jurtin geri sig klára fyrir þreskingu.



 Svona líta þeir akrar hinsvegar út sem eru í sandi eða miklu þurrlendi.



 

 Rigningarnar láta svo algjörlega á sér standa hér,  en trúlega á maður svo eftir að segja eitthvað misjafnt um þær, þegar kemur að þreskingunni og það verður búið að vera úrhelli dögum saman og styttir seint og illa upp.
 Skelfingarnar sem byggræktin virtist stefna í hjá mér er úti,  og útlit fyrir mjög góða uppskeru.

En hún er nú ekki komin í hús.

En það er á svona sumri sem mýrarakrarnir eru inni.emoticon
Flettingar í dag: 793
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579486
Samtals gestir: 52638
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:31:18
clockhere