Færslur: 2013 Janúar

29.01.2013 20:01

Hvolpahittingur í Hestamiðstöðinni.

 Allt um hvolpahittinginn hér.  http://smali.123.is/blog/

Vel sótt námskeið.  fyrir margt löngu.
 

27.01.2013 21:11

Fjárhús- Nýjasta tækni og vísindi.

  Frameftir síðustu öld voru fjárhúsbyggingar með hefðbundnu sniði hér á skerinu.

Það var svona áherslumunur á því hversu haganleg gjafaaðstaða og vinnuaðstaða við rögun var.  Síðan var munur á heyverkunaraðferðum, vothey/þurrhey þar til rúllurnar yfirtóku heyverkunina að mestu.

 En íslenskir bændur eru uppfinningarmenn í eðli sínu og eftir að hafa brotist útúr skápnum eru fjárhúsbyggingar orðnar ótrúlega fjölbreytilegar með allt mögulegt og ómögulegt í innréttingum, gjafaaðferðum og allri rögunaraðstöðu.

 Margir hafa síðan  tekið upp ýmislegt nytsamlegt úr þessari hugmyndaflóru og breytt eldri fjárhúsum til að létta sér lífið í brauðstritinu.

 Aðferðirnar við að koma fóðrinu í féð eru mistæknilegar en helsta gjafatæknin í dag er annarsvegar afrúllari sem rífur niður heyrúllur og losar í gjafavagn sem auðveldar heygjöf verulega.


 
Þessi snyrtilegi gjafavagn er, ef ég man rétt, á Bergstöðum á Vatnsnesi. Og þarna var m.a. gefið stæðuverkað vothey.
 
  Hinsvegar verður sífellt algengara að fóðra í gjafagrindur sem taka eina heyrúllu sem dugar í nokkra daga eftir því hversu stór hópur er við grindina. Margir hafa komið slíkri grind í hefðbundin fjárhús og halda þá jötukerfinu líka t.d. til kjarnfóðurgjafar.

 Og tæknin við að koma rúllum í gjafagrindur er líka margvísleg . Það er gert með traktor, liðlétting(smávél), jafnvel handafli en algengasta aðferðin er trúlega rafmagnsspil með hlaupaketti.

 Ég hef ekki tölu á þeim fjárhúsum sem ég hef skoðað gegnum tíðina og eftir að gömlu góðu fjárhúsunum hér var breytt í úrvalsfjós og ég eignaðist svo stafræna myndavél hef ég komið mér upp miklum heimildum um hin margvíslegustu fjárhús.
 
  

 Hér er verið að gefa í nýjum fjárhúsum Dalsmynnis sf. Komið inn með rúlluna í rúlluhníf og hún skorin að hluta. Rúlluklónni smellt á og gaflarnir skornir frá, til að auðvelda losunina í gjafagrindinni.
  


 Plast og net skorið fast við klóna svo ekki þurfi að bogra undir rúllunni og það síðan tekið undan hinumegin, áður en rúllunni er slakað niður. Þessi sérhannaða læsing ( a. la. Atli Sveinn) til að halda klónni opinni er einstaklega auðveld í meðförum og læsist sjálfkrafa sé klónni lyft lítillega öðru megin áður en henni er lyft frá rúllunni. Hérna megin kemur rest af plasti og neti upp með klónni  en rúllan leggst niður í grindina. Hérna er kjarnfóður ekki í boði fyrir eldra féð svo ég sakna gömlu góðu jatnanna ekkert,
 á neinu stigi mála.

 Gemlingarnir fá þó daglega bygggjöfina sína, frá fengitímalokum þar til þeim er sleppt. Hér er verið að kenna þeim að nota sér þennan munað. Ég er þó ekki alveg sáttur við hönnunina á gjafastokkunum hjá mér og mun skoða það nánar eftir helgina. Og eins og oft hefur komið fram eru þetta taðhús hjá okkur og nái heyið ákveðinni þurrefnisprósentu er hálmun óþörf. Það eykur síðan notagildi taðsins sem áburðar. 

 Það var svo ánægjuleg upplifun að þessi gjafabúnaður sem  hér var verið að lýsa (burðarbiti, hlaupaköttur, rúllukló og önnur gjafagrindin) kostar, utan heimavinnu við smíðar, um 200.000 kall.

 Plús dúkahnífurinn sem notaður er á plastið.
  

23.01.2013 08:27

Blíðan , tamningadýrin og verkefnalisti á hvolfi.

 Þessi janúarblíða setur ýmislegt úr skorðum í sveitinni.

 Planið um að vera duglegur að klára sem mest af framkvæmda/tossalistanum í jan. og fara svo á fullt í tamningar er alveg að fara í vaskinn.

 Hver getur verið að bauka við innidútl í svona veðri. Smali frá Miðhrauni verður tveggja ára í mars og er nánast ótaminn. 

 Hann er úr sama goti og Korka mín og þó þau hafi fengið sitthvort uppeldið og búi að því í upphafi námsins er skemmtilegt að sjá hvað upplagið, þegar kemur í vinnuna er líkt.

 Mér finnst alveg einstaklega skemmtilegt að vinna með þau, þó að sjálfstæðið sé dálítið sterkt.  Vinnulagið og yfirvegunin er þannig að í gamla daga hefði maður bara farið með þau í vinnuna og endað með algjörlega frábæra hunda. Faðirinn Tinni frá Staðarhúsum var nákvæmlega svona, blessuð sé minning hans og meiriháttar að vera kominn með tvo afkomendur hans sem eru eins og snýttir útúr nös á honum. Móðir þeirra Korku og Smala, Táta frá Brautartungu ( á Miðhrauni) hefur ekki verið tamin til vinnu enn, en eitthvað segir mér að það gæti komið eitthvað skemmtilegt út úr því.

 Hún er undan Killebrie Jim í Brautartungu, innfluttum sem hvolpur og eitthvað segir mér líka að hann eigi kannski eftir að skilja eftir sig stærri spor í ræktuninni en margur hugði í upphafi.


 Ofarlega til hægri á myndinni glittir í aðstoðarþjálfara no. 1 hana Dáð, sem fylgist með og vonar að allt fari í klessu hjá nýgræðingnum svo hún fái eitthvað að gera.


 Korka og Smali hafa meðfædda mög góða vinnufjarlægð og bæði hafa þetta öryggi og útgeislun sem er að virka svo vel í vinnunni.

Og kjarkurinn og ákveðnin eru í góðu lagi.


 
Ég var að skoða gamlar myndir af Tinna og Korku í tamningu og vinnu og það skiptir engu máli hvort farið er í albúm af Tinna, Korku eða Smala. Þetta gæti allt verið kópíað hvort af öðru.


Þetta er fyrsta blogg vetrarins þar sem ég kynni hvað er undir í tamningunni.

Þó breiddin í lesendahópnum sé greinilega út um víðan völl, er ljóst á símtölum og póstum sem ég er að fá á ýmsum tímum sólarhringsins að hundaáhugafólk kemur oft í heimsókn hér.
 
Það er frábært ,og rétt að gera eitthvað fyrir það
 
 
Flettingar í dag: 187
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151450
Samtals gestir: 7041
Tölur uppfærðar: 27.11.2022 13:46:41
clockhere