02.12.2008 19:38

Í tómu tjóni.




  Það er í kringum burðinn sem íslenska landnámskýrin er í sérstökum áhættuflokki. Ekki er ólíklegt að það gildi líka um ákaflega fjarskylda ættingja hennar á meginlandinu.

  Það eru ótal krankleikar sem dúkka upp, doðaslen getur komið fram hjá ólíklegustu gripum, og ef júgurbólgan hefur komið fram áður er ekki óliklegt að hún endurvekjist. Fastar hildir þekkjast og í framhaldinu  getur síðan súrdoðinn gert vart við sig ef hann er á annað borð undirliggjandi í fjósinu.
  Þegar hún Emilía bar, kom fljótt  í ljós að eitthvað var öðruvísi en það átti að vera. Hún var greinilega ekki með sjálfri sér,  köld á eyrunum og slappleg. Þetta voru doðaeinkenni og var umsvifalaust brugðist við því.


                Emilía var í góðum málum  þegar hún hélt út í sumarið, í vor.

  Þegar sú meðferð bar engan árangur leist gamla bóndanum illa á málið. Lystarlaus, hálfköld á eyrunum og leið greinilega illa. Svo illa leist honum á þetta að Rúnar var ræstur út á sunnudegi til að kíkja á gripinn. Aldrei þessu vant sagði hann fátt, meðhöndlaði kúna, og skyldi eftir lyf fyrir framhaldið. Þau höfðu engin áhrif. Enn kom Rúnar hlustaði og bankaði, skoðaði skítinn og sagði enn minna. Í þriðju heimsókninni kvað hann upp þann úrskurð að trúlega væri um stíflu í meltingarvegi að ræða og batahorfur ekki miklar enda verulega af kúnni dregið á þessum 5 dögum.

  Og þó það væri kominn hörkuvetur á föstudaginn var enn hægt að taka gröfina fyrir hana.

 Þó Emilía hefði nú alltaf haldið sig neðan við búsmeðaltalið í framleiðslunni verður kvígan sem hún skyldi eftir væntanlega sett á. Það er eitt af vandamálunum í þessari " markvissu " ræktun hér, að ekki er hægt að grisja kvígustofninn eins og vert væri, því endurnýjunarþörfin er svo mikil.

  Það er þó hægt að hugga sig við að liturinn er fínn.

        
  
 

 

01.12.2008 09:13

Folaldasýning og reiðhallargólf.


  Nú styttist í að Hrossaræktarsamband Vesturlands haldi árlega folaldasýningu sína. Að þessu sinni verður hún haldin í reiðhöllinni í Söðulsholti en á Miðfossum eru allar helgar bókaðar í námskeið og kennslu.
  Þetta setti auðvitað pressu á Hestamiðstöðvarliðið að taka upp gólfið í höllinni og gera það fínt.
Það er semsé komið á daginn að ef svona gólf á að virka, verður að rífa það reglulega upp, slétta það vel og svo þarf að halda því hæfilega röku.

  Eftir mikil heilabrot tók Dóri alvörugræjur í upprifið og svo þegar kom að fráganginum var tengdapabbinn ræstur út svo hann hefði einhvern til að skipa fyrir í tæknivinnunni.



  Gamli Deutzinn fékk meir að segja vinnu og er kominn með gólfgræjuna á Miðfossum í verkið.
Þetta var nú samt ekki að gera sig fullkomlega, svo gamla flagjöfnunaraðferðin sem virkaði vel um miðja síðustu öld var reynd .



  Reyndar var tengdapabbinn settur upp á grindina og sýndi þar hinar ótrúlegustu fimleikiæfingar, en hann laumaðist nú af til að ná mynd af þessarri tæknibrellu.



  Og þeir sem mæta á folaldasýninguna um helgina geta bókað það að þeir muni sjá gríðarleg tilþrif á þessu rennislétta gólfi, bæði hjá folöldunum og ekki síður eigendum /sýnendum,  þeirra.

 Það verður gott með kaffinu, svo er ekki bara að skella sér?emoticon

30.11.2008 08:52

Árshátíð Laugargerðisskóla.



          Laugargerðisskóla sem þjónar gömlu Hnappadalssýslunni sækja 45 börn samtals ef leikskólinn er talinn með. Þar geta nemendur lokið tíunda bekknum.

   Margir hestamenn þekkja hann sem Hótel Eldborg en þaðan er stutt á fjörurnar og er óhætt að segja að okkur fjöruriddurum Eyjarhreppsins finnst stundum nóg um traffíkina.

  

   Skólastjórinn hún Kristín Guðmundsdóttir setti hátíðina. Hún ræddi m.a. um mannauðinn sem væri ómetanlegur og brýndi okkur nú í að standa vörð um skólann okkar. Ég sá nú ekki betur en hún liti sérstaklega á eina sveitarstjórnarmanninn á svæðinu í þeim töluðu orðum.



  Formaður nemendaráðsins, Karen á Kaldárbakka kom næst. Ég sá að allir tóku vel eftir því .þegar hún sagði okkur frá heimabakstri nemandanna sem lögðu til veisluföngin, sem biðu okkar eftir skemmtiatriðin.  Hún taldi nú samt öruggast að láta þess getið að mömmurnar hefðu nú kannski komið pínu að málinu. Innkoman af árshátíðinni rennur svo  öll í ferðasjóð nemenda.



  Settur hafði verið upp söngleikurinn Frelsi sem saminn er af tveim kennurum á Akranesi.

  Og það er náttúrulega ýmislegt á sveimi hér vestra og fjölbreytni í mannlífsflórunni.



   Já við erum alveg óskaplega rík hér í Laugargerði og eins gott að sveitarstjórnarmennirnir standi vaktina.




   Þetta var fínt hjá krökkunum og veislan á eftir var uppá 10. Hvort sem það var nú þeim að þakka eða mömmunum.

Ég held að það sé engin kreppa í sveitinni.emoticon 

 

Flettingar í dag: 410
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 1149
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 435092
Samtals gestir: 40179
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 12:27:27
clockhere