Hundarnir á bænum.

 Á bænum eru aldrei færri en tveir tamdir hundar og oftast eitthvað í uppeldi og tamningu.
Þá hefur lítilsháttar ræktun verið í gangi, eitt til tvö got á ári. Nú er stefnt að aukinn ræktun sem  yrði ýmist alin upp og tamin  eða seld með mánaðartamningu síðar.

Anglesey Sweep. 

Sweep var fluttur inn í júlí 2016 fyrst og fremst í ræktuna hjá mér.

Hann er fæddur í júní 2011.  Hér eru 3 myndbömánaðartamningu síðar.nd af honum á mismunandi aldri. Það síðasta  nokkur skot af honum  við ýmis tækifæri hérlendis.

Sweep 17 mán.

Sweep 2 ára

Sweep 5 ára í vinnunni.


Ronja 15 mán. http://youtu.be/ZwUQYUdj9g8



6. okt. 2013

   Korka í eftirleit 2016 . Smella  Hér.

Nú hafa orðið kynslóðarskipti í fjárhundunum og ný lína tekin við.




Korka frá Miðhrauni tekin við sem aðalfjárhundurinn á bænum f. 11 mars 2011.
 Sjá hér neðar á síðunni.
F. Tinni frá Staðarhúsum. 
M. Táta frá Brautartungu.

Korka vann  B. fl. Landskeppninnar með glæsibrag í haust, aðeins tveggja ára gömul.

Hér er hún í braut seinni daginn Þar sem hún hlaut aðeins 6 refsistig sem lýsir feykigóðum eðliskostum hennar vel
.
http://www.youtube.com/watch?v=Jnwyl0J4Yfs


Bróðir hennar Smali úr sama goti sem er hér heimilisfastur  er í eigu tengdasonar míns Halldórs Sigurkarlssonar.
 
Smali er minna taminn en frábær vinnuhundur.

Hann sigraði unghundaflokk landskeppninnar með afgerandi hætti í sumar.

Myndband h
ér.
 http://www.youtube.com/watch?v=qnu1cl7JGUQ

Dáð var seld sumarið 2013.

 Tíkin Dáð frá Móskógum er aðalsmalinn í dag en hún er fædd 15 júní 2008.
Hún er undan innfluttum foreldrum og er á margan hátt skemmtileg í tamningu og vinnu.



 Ég mun nota hana í ræktuninn og horfi m.a. til góðra hunda sem til eru undan Skessu í því sambandi.




Korka frá Miðhrauni. f. mars 2011

Hundar, kennsla og skemmtilegar tilviljanir.

 Ef nokkra skemmtilegar tilviljanir rekast á, fer ekki hjá því að eitthvað skemmtilegt gerist.

Þegar dóttirin birtist óvænt með alvöru myndavél og hitti á snilldar smala vera að temja frábært fjárhundsefni með afbragðs kindum fór ekki hjá því að til yrði fullt af skemmtilegum myndum.(Hlutlaust og óvilhallt mat á myndefninu.)



 Svona er byrjað með hvolpinn. Látinn reka hópinn á eftir manni í hæfilegri fjarlægð og réttum hraða. Stoppaður af eða hægt á honum með skipunum eða flauti.



 Ég er oft spurður að því hvernig í andsk. hægri/vinstri skipanir séu kenndar.
 Svona, kindunum sleppt framhjá( hér til hægri frá Korku séð)  um leið og " Hægri " skipun er gefin og hvolpur með rétt smalagen fer að sjálfsögðu fyrir.(Hvort sem skipunin er gefin eða ekki.).



 Það er þessi áhugi sem við sjáum hér hjá Korku, sem er algjör forsenda þess að ég geti gert eitthvað úr henni.
Umbunin sem hún fær þegar rétt er gert, er að fá að halda áfram að vinna, annars stoppuð..



 Dáð verður að láta sér nægja að fylgjast með og fær að grípa inn í ef eitthvað fer úrskeiðis. Það gerist ekki með þessum nemanda.



 Þarna hafði helv. húsbóndafíflið tafið fyrir henni svo kindurnar sluppu út um hliðið á leið heim. Gaman að sjá  hvernig hún gýtur augunum á hópinn þegar hún tekur góðan sveig framfyrir hann.



 Korka frá Miðhrauni er undan Tinna frá Staðarhúsum og Tátu frá Brautartungu.


 Alveg eins og snýtt útúr nös á föður sínum í útliti og í tamningarvinnunni.



 Eftir kennslustundina hafði hún enga þolinmæði við fíflalátunum í hálfssystur sinni henni Dívu Tinnadóttir. Stundum hálfþreytandi þessi yngri systkini.



 Svona litu þær systur út eftir að sú litla hafði fengið sína lexíu, sem er nú  ekki eftir þeim mjúku uppeldisfræðum sem margir tileinka sér í dag

 




 Skessa frá Hæl er komin yfir á hinar eilífu smalalendur eftir langan og gifturíkan feril.

 Hún var fædd 28 mars 1998.


 Skessa var gríðarlega öflugt vinnudýr og langskynsamasti hundur sem ég hef kynnst.
Hún var mjög farsæl á keppnisbrautinni enda var yfirvegunin og ákveðnin með eindæmum.

 Vaskur sonur hennar og Garrýs var fæddur 4 maí árið 2000 er einnig farinn að gera góða hluti handan móðunnar miklu..

Þó hann hafi verið allt annar karakter og öllu erfiðari í tamningu og notkun er hann samt hiklaust öflugasti hundur sem ég hef kynnst í harkinu.



 Hann mun vera fyrsti hundur í heimi til að vinna eftir skipunum gegnum talstöð eftir því sem ég kemst næst. Það gekk vel en var hætt þegar hann fór að slípast í vinnunni og þurfti ekki á mikilli tilsögn að halda. Sjá nánar hér. http://smalahundur.123.is/page/25790/

 Síðan var hér  Tinni frá Staðarhúsum. F. 24 júní 2009 Fórst í okt 2011
 

                                                                       Fm. Heiði frá Hæl. ( alsystir Skessu.)

                                 F. Díli frá Hæl.           SFÍ 392/02. (sjá hundaskr SFÍ)

                                                                       Ff.  Garry.       
     . Tinni frá Staðarhúsum.                        
                                                                    
Mmm. Perla frá Vogssósum
                                                                 M
m. Spóla frá Eyrarbakka.                       
                                                                   Mmf.Baukur frá  Eyrarbakka
                                       
                                                                  Mfm.Kristjana Drífa frá Dalsmynni
                          M. Lísa frá Flekkudal    
 Mf. Varsi  frá Flekkudal    
                                                                    Mff. Tígull frá Eyrarl.    


             


                                                                                                                       
                                                .                             

 Tinni er öflugur smali með góða vinnueiginleika og mikla yfirvegun . Það verður látið reyna á ræktunarhæfileikana í fyrirhuguðum ræktunaráformun hér.


Tinni er íslandsmeistari í unghundakeppni 2011.

 

    
Slóð inn á myndband með Tinna og Dáð saman í vinnu.

http://www.youtube.com/watch?v=gDmyndInZKs&feature=share

Tinni. Kominn á hinar eilífu smalalendur. 15 mán. saga sem byrjaði og endaði illa,


 Nei hugsaði ég, nei andsk. ég er steinhættur þessu.

 Ég sat fyrir framan tölvuna og horfði á póst frá dótturinni þar sem hún spurði hvort ég vildi taka ársgamlan hund og vita hvort eitthvað vit væri í honum. Ræktandinn sem var nýbúinn að taka við honum aftur frá kaupandanum (þéttbýlisbúa sem höndlaði hann ekki), hafði ekkert með hundinn að gera en vildi ekki svæfa hann að svo stöddu.
 Ég ákvað þó að spyrja um ættina aðallega vegna þess að ég hafði séð góða hunda hjá ræktendunum, Birnu og Agnari í Staðarhúsum.

 Þegar ég sá að föðurmóðirin var úr sama goti og Skessa mín og afinn Garry sjálfur, ákvað ég þó að skoða málið en það yrði örugglega í síðasta sinn sem ég léti plata mig í svona dæmi.



 Þetta var í júlí 2010 og Tinni var kominn til mín nokkrum dögum seinna.

 Hann virkaði sem frekar kaldlyndur einfari og það náðist ekkert samband við hann til að byrja með.
 Svona eins og hann væri dálítið einn í heiminum. Og á tímabili hélt ég að hann væri mjög alvarlega heyrnaskertur.
 Ég hef hundana umdantekningarlítið lausa og ven þá við að þeirra svæði sé ákveðinn radíus kringum bæinn og þetta gengur yfirleitt mjög vel . Tinni vildi hinsvegar skoða landið talsvert útfyrir ósýnilegu línuna og þar sem honum datt ekki í hug að hlusta á mig kostaði hann mig talsverð heilabrot til að byrja með.

 Þar sem mér leist nú ekki meira en svo á gripinn fór ég fljótt með hann í kindur til að komast að því hvort hann væri þess virði að púkka uppá hann. Þar kom hann mér strax skemmtilega á óvart sýndi mikla yfirvegun og frábært vinnulag. Aldrei áður hafði ég farið með hund í kindur sem safnaði þeim saman  stoppaði hinu megin við þær og kom síðan hæfilega langt á eftir þeim til mín í á hárréttum hraða.  Og rétt að taka fram að á þessum tíma hlýddi hann ekki neinu sem ég bað hann um.

  Það var því umsvifalaust ákveðið að reyna að ná sambandi við malbikshundinn.

 Ég var nú eiginlega enn að velta fyrir mér vænlegum samningsleiðum þegar allt small  í gírinn og Tinni var allt í einu kominn með frábæra heyrn og fljótur að skilja um hvað málin snérust.

 Það fylgdi honum þó alltaf að vera seinn til við skipanir, enda með fádæmum rólegur og yfirvegaður.

Mér hafði  fundist eins og hundirinn stingi aðeins við á framfæti og þegar átti að fara að taka á því við kindavinnuna, fór heltin hratt versnandi svo öll þjálfun var lögð á hilluna í bili.
 Við myndatöku komu í ljós skaddaðar vöðvafestingar í bóg, að öllum líkindum eftir mikið högg framan á bóginn.
 Björgvin dýralæknir vildi ekkert segja um hvort hann myndi ná sér af þessu, en eina vonin væri að taka Tinna á bólgueyðandi lyf og sjá til þess að hann hreyfði sig sem allra minnst meðan meðferðin stæði. Hafður í búri og í bandi við að fara út til að sinna líkamlegu þörfunum.

 Nú fór erfitt tímabil í hönd hjá okkur Tinna og ég veit ekki hvor tók þetta nær sér. Engin batamerki sáust eftir að 15 daga kúrnum lauk og samkv. Björgvin var ekki nema um tvennt að ræða, halda meðferðinni áfram eða heltin héldist.
 Þessum skelfingartíma lauk þó með fullum sigri/bata og seinnipart janúar sl. var sett á fullt í tamningunum.


 Tinni var einstaklega auðtaminn með skemmtilegt meðfætt vinnulag. Hann var mjög ákveðinn og sterk útgeislun ásamt mikilli vinnufjarlægð gerði mjög sjaldgæft að hann lenti í átökum.

 Hann var gæddur þeim dýrmæta eiginleika líkt og Vaskur föðurbróðir hans að sýna mikið öryggi við að stoppa hóp af ,  halda honum saman og koma með hann.
 100 % öryggi í því er ómetanlegt þegar verið er að senda hunda úr augsýn eða kallfæri, oft við erfiðar aðstæður.

  Upphaflega var ég ákveðinn í að láta hann frá mér eftir  grunntamningu, en annarsvegar sjúkrasagan og hinsvegar þessir frábæru vinnuhæfileikar  sló það algjörlega út af borðinu og um miðjan sl. vetur var ljóst að Tinni var kominn til að vera .

 Þetta var dálítið stór ákvörðun því fyrir margt löngu ákvað ég að halda mig eingöngu við tíkur í ræktun og vinnu. Að halda hund með kúlurnar í lagi, þýddi allskonar vandamál en ekki kom til greina að fjarlægja þær í þessu tilviki.

 Haustvinnan byrjaði á því að vinna unghundaflokkinn á Landsmóti fjárhunda  sem var mjög sterkt mót að þessu sinni, ekki síst í unghundunum enda var slagurinn harður þar.

 Síðan tóku leitirnar við og þar mætti Tinni afar öflugur til leiks, orðið mikið taminn.  Með svo ungan og óslípaðan hund er það sérstakt að lenda aldrei í að klúðra neinu í þeim átta alvöruleitum sem hann mætti í.  Í þessum leitum flestum  var ég ekki með hann, heldur  tengdasonurinn sem lýsir enn einum eiginleika hjá Tinna sem er mikils virði.


 Hér er hann norður í Bitrufirði ásamt frænku sinni Lukku frá Hurðarbaki að koma kindum í rétt.

  Það er stundum ótrúlegt að upplifa það þegar tilviljanirnar taka völdin hver á fætur annarri með afleiðingum sem engan órar fyrir.

 Tinni sem hafði fyrir löngu hætt  að fara út fyrir sína ósýnilegu línu á hlaðinu fékk skyndilega þá hugdettu á þriðjudagskvöldið að reyna að ná fundi vinkonu sinnar sem hann grunaði að væri á næsta bæ.
 Hún fannst ekki þar, en þetta var hans fyrsta og síðasta ferðalag á eigin vegum því á heimleiðinni var keyrt yfir hann.

 Þrátt fyrir ungan aldur liggja samt eftir kappann 2 got og það bjargar geðheilsunni minni algjörlega að vonandi er Dáð, tík ekki einsömul og ef allt gengur upp kemur eitthvað spennandi þar eftir tæpar 9 vikur eða svo.

 Já þessir 15 mánuðir hjá okkur Tinna voru ekki tilbreytingalausir.
 
Takk fyrir þá.

Maríanna Sagði:

Leiðinlegt að heyra, þú varst búinn að leggja mikla vinnu í þennan hund.
28.Október 2011 23:36 (föstudagur)

Hjalta Sagði:

Maður bara tárast við að lesa þetta....
29.Október 2011 09:35 (laugardagur)

Karlotta Sagði:

Þetta eru góð eftirmæli hjá þér og leitt að svona skyldi fara.
29.Október 2011 11:46 (laugardagur)

Auður Björnsdóttir Sagði:

Hörmulegt að missa hund sem manni líkar og ef búinn að leggja mikla vinnu í. Hef verið í þessum sporum og það er ekki gott. Bestu kveðjur að vestan.
29.Október 2011 16:45 (laugardagur)

svanur Sagði:

Takk fyrir þessi comment.

Þegar þetta gerðist varð manni hugsað til þess hvaða heppni hefur fylgt mér gegnum tíðina með þessi dýr, hesta og hunda sem maður hefur metið mest, að þetta er eiginlega fyrsta stóráfallið í ferlinum.
29.Október 2011 20:07 (laugardagur)

svanur Sagði:

Rétt að vista hér nokkra punkta af fésinu.



Ásgeir Sveinsson.
þetta er voðalega leiðinlegt og skil ég vel missi þinn þótt ég hafi fengið minn hund aftur...en það voru erfiðir 4 dagar sem hún var í óvissu á fjöllum. hann hefur átt að hjálpa til á himnum að ná einhverju óþægðar hillum ;

Áslaug Guðbrandsdóttir .
þeir á Efri Grund hafa þurft að nota hann, það fóru svo margar austurbakkakindur þangað í morgun.....
Í gær klukkan 00:47 ·

Svanur Guðmundsson.

Lykla Péturs fór á fund
fyrstu daga í vetri.
Er við smal á Efri Grund,
öðrum hundum betri.

Smalar þar með þakkargjörð,
þamba úr gleðiskálum.
En austurbakkans ólma hjörð,
er í vondum málum.
Í gær klukkan 08:05
30.Október 2011 08:15 (sunnudagur)

Aðalsteinn H. Hreinsson Sagði:

Sæll Svanur, Ömurlegt að lesa hvernig fór fyrir Tinna.ég þrí las þetta og fékk hnút í magann og Skil mæta vel hvernig þér líður núna. Bót í máli ef Dáð er hvolpafull. Bestu kveðjur úr Öxnadalnum frá Alla og Blondy.

02.Nóvember 2011 22:38 (miðvikudagur)

svanur Sagði:

Takk fyrir þetta. já þetta er vont en það venst.
02.Nóvember 2011 23:28 (miðvikudagur)

Skessa, Vaskur og vondar ákvarðanir.

 Það var haustið 1999 sem ég fór með Skessu í fyrstu leitina.

Það var verið að leita Svínafellið, gengið frá Heydalsveginum niður að Höfða ( og þaðan í Þverárrétt) og ég var næstefstur í sunnanverðu fellinu.



 Skessa var eins og hálfs árs, mikið tamin en afar lítið reynd í smölun. Reyndar hafði ég haft þann starfa um sumarið að sækja kýrnar í næturhagann og notaði tækifærið og tamdi tíkina enda engar tamningakindur á bænum, yfir sumarið þessi árin.
Við vorum vel hálfnuð vestur hlíðina þegar ég verð var við að smalinn næst fyrir neðan mig var í vandræðum. Hann hafði misst kindahóp afturfyrir og uppfyrir sig og þegar ég sá þetta var hópurinn vel fyrir aftan mig og stefndi hratt upp.


Mér fannst þetta  fulllangt að senda óreynda tíkina ekki síst vegna þess að kindurnar myndu verða komnar í hvarf frá mér áður en hún næði þeim en tók samt sénsinn.

 Skessa fór flott af stað og um það er hún og féð hurfu sjónum var ljóst að hún mynda ná hópnum og koma rétt að honum. Hvernig svo færi var spurningin.

 Það var ólýsanlegur léttir þegar hópurinn birtist aðeins neðar í hlíðinni á hæfilegum hraða beint í áttina til mín. Skessa hélt sig vel fyrir aftan þær og vel neðar í hlíðinni sem sagði mér að þær hefðu ætlað beint niður þegar hún náði þeim.

 Það má segja að þetta hafi verið forsmekkurinn að því hvernig Skessa leysti öll sín verk á starfsævinni.


    Það var sjaldgæft að hún færi keppnisbrautin á undir 70 stigum sem segir nokkuð um tökin á kindavinnunni.
.
Hún er eini hundurinn sem ég hef farið með í fjárhundakeppni án þess að hafa nokkurntímann æft hana sérstaklega til þess sem segir vel til um vinnulagið og þjálnina.

  Hún var 5 ára þegar að hún heltist í nautgripahasar og það háði henni það sem eftir var, en mismikið.

 Ég hafði fyrir löngu ákveðið það að Skessa myndi eiga náðugt ævikvöld meðan að heilsan væri ásættanleg og hún þrifist sæmilega.


                                                                                          Skessa í síðustu leitinni sinni

 Það er langt síðan ég áttaði mig á því að þetta var vond ákvörðun.
bæði fyrir mig og Skessu.

 Það er vont fyrir hund sem hefur átt sinn ótvíræða leiðtogasess í hundahópnum að hrapa jafnt og þétt niður virðingastigann.
Og þegar 8 - 10 vikna hvolpar ganga á lagið vegna þess að hinir hundarnir bíta þá frá sér er niðurlægingin algjör.

 Gamli smalahundurinn veit alveg nákvæmlega hvað stendur til þegar farið er í smölun.
Það er hrikalega erfitt bæði fyrir bóndann og hundinn sem hefur kannski miklu meiri vinnuáhuga  en skrokkurinn er gerður fyrir,  þegar hann er skilinn eftir lokaður inni.

Þá það sé nú kannski eigingirni, er erfitt að horfa upp afburðarhund breytast í  þessa veru og upplifa hann verða undir í hörðum heimi dýranna. 



 Þó maður sé orðinn gamall og skelin þykk var það var ólýsanlega erfiður dagur þegar þessir snillingar voru kvaddir í vikunni. 
Sýna athugasemdir (11)
5.02.2012 13:05

Talandi hundar! Skessa, taka tvö.

Árið var 1998.

 Ég hafði nokkrum árum áður ákveðið að koma mér aftur upp góðum fjárhundi eftir að hafa verið nánast hundlaus í nokkur ár. Það voru árin sem hestum og hundum var lagt en endurehjól, þríhjól og síðar fjórhjól voru óspart tekin til kostanna.

 Fyrsti BC hundurinn minn hann Lubbi frá Hausthúsum( f. 1970) var afbragðs fjárhundur og þannig hélt ég að þessir skosku hundar væru bara.

 Ég var þá, blautur á bak við eyrun og vissi enn minna um BC ræktunina þá en núna, hélt bara að keypti ég hreinræktaðan BC væri tóm hamingja framundan.

 Tík var keypt, hreinræktuð með nokkur þekkt nöfn í ættartölunni. Síðan var farið á námskeið og ég sökkti mér niður í allan þann fróðleik sem ég komst yfir um tamninguna og allt sem henni tilheyrði. Tamningin tókst vel ,tíkin var áhugasöm og ágætlega hlýðin, lærði hægri og vinstri skipanirnar reiprennandi en þegar á reyndi kom í ljós að hún var ákaflega kjarklítil. Svo kjarklítil að það hálfa hefði verið nógu slæmt. Þá rann upp fyrir mér að BC er ekki það sama og BC.

 Nú var ég hinsvegar kominn á bragðið, taldi mig nokkuð öruggan með að geta tamið hund eftir
 " bókinni " og fór að svipast um eftir dýri sem réði við það sem hún væri ræktuð til.

Ég hringdi í Hörpu á Hæl.

 Þekkti hana ekkert, en sagði henni vandkvæði mín og nú væri ég að leita að tík sem ætti að verða mjög ákveðin.

 Harpa átti ekkert handa mér. Átti að vísu tvær tíkur nokkurra mán. sem yrðu trúlega ágætlega ákveðnar en hún ætlaði að eiga þær.

 Það teygðist nokkuð úr þessu samtali og um það er því lauk var það fastmælum bundið að ég fengi aðra tíkina en ég fengi ekki að velja hvora.
 Nokkrum dögum seinna var ég mættur uppeftir og eftir langt hunda og kaffispjall, það fyrsta en ekki það síðasta, var farið í hlöðuna þar sem tíkurnar tvær voru í góðu yfirlæti. Harpa ítrekaði það að hún væri búin að ákveða hvorri hún héldi eftir.
 Annar hvolpurinn kom strax á móti okkur en hinn dró sig til baka.

Mér datt strax í hug að að sú væri ætluð mér og ég fór að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að tala Hörpu til, svo ég fengi þá sem kom á móti okkur.
 Sem betur fór voru það óþarfa áhyggjur og heim fór ég með þá viðtökugóðu sem hlaut nafnið Skessa í fyllingu tímans.
 Til gamans má geta þess að tíkin sem eftir varð, var föðurmóðir Tinna frá Staðarhúsum sem er föstum lesendum síðunnar að góðu kunnur.



 Ég byrjaði að temja hana um veturinn ' 99 og var kominn vel í gang með það, þegar sauðburður brast á og þar með lauk kindavinnu það vor og sumar.

 Þegar kýrnar fóru að liggja úti sá ég ákveðin sóknarfæri í því og það varð hlutskipti okkar Skessu að sækja þær á morgnana. Þarna lærði hún allar helstu skipanirnar ásamt því að aðlaga sig þeim hraða sem hentaði kúnum . Þegar fór að líða á sumarið var ég orðinn óþarfur, hún fór og smalaði kúnum saman , rak þær upp ef á þurfti að halda og kom með þær í rólegheitum, mjög ákveðin ef þurfti  og hélt uppi heraga.


 Skessa sem var skemmtilega ákveðin þó ekki væri til grimmd í henni, komst undantekningarlítið vel frá keppnisbrautinni

 Mér er það minnisstætt þegar hún komst loksins í kindur um miðjan ág. að það var eins og einhverju slægi saman í hausnum á henni. Í stað þess að fara fyrir hópinn eins og hún átti kunna og gera, var rokið beint í hópinn honum splundrað og síðan tætt í algjöru stjórnleysi þar til ég náði að stoppa hana af.
 Eftir smá stund var hún farin að róast og þá var gerð önnur tilraun. Nú kannaðist ég við hana því það var farinn flottur hringur, hópnum sem var tvístraður um allt náð saman af miklu öryggi og smalað til mín. Þannig var það síðan framvegis.

 Skessa var greindasti hundur sem ég hef komist í tæri við. Orðafjöldinn sem hún skildi fullkomlega áður en lauk, skipti tugum . Ég gerði það oft til gamans ef ég var að tala við einhvern að henni áheyrandi að bæta inn í setningu skipun til hennar , án þess að breyta um raddblæ eða áherslu. Þó hún virtist móka sofandi eða hálfsofandi og ég bætti inn í setningu eins og t.d bla, bla, bla e.h.  skessa farðu heim bla, bla e.h.þá spratt hún upp og fór.
 Í smalamennskum eða vinnu var hún send milli manna með því að segja . Skessa farðu til þessa eða hins. Þá var ekki farið til næsta manns heldur þess sem var nefndur.


 Í síðustu smalamennskunni.

 Hún var orðin nokkurra ára þegar nemendur í Laugargerði komu í heimsókn. ´Eg setti út kindur og sýndi hana reka þær frá mér, að mér og til beggja hliða allt með skipunum töluðum á lágu nótunum.
 Í lokin sagði ég saklausum börnunum það að hún Skessa skildi allt sem ég segði. Ég talaði síðan við hana , sagði henni að fara og koma , setjast og standa o.sv. frv.
 Nú lægi bara fyrir að kenna henni að tala í vetur svo við gætum spjallað saman um landsins gagn og nauðsynjar.

 Í skólaslitunum um vorið eftir að búið var að slíta skólanum, sitja hefðbundna veislu og ég var kominn fram í forstofu á útleið var hnippt í jakkann hjá mér.

 Við hliðina á mér stóð lítill feiminn drengur sem spurði mig hikandi.

Ert þú búinn að kenna Skessu að tala ????



 

Lubbi frá Hausthúsum.- Fyrsti alvöruhundurinn minn.

 Það var vorið 1970. 

 Ég var nýsloppinn í sveitina útskrifaður búfræðingur frá Hvanneyri, þegar sveitungi minn og frændi Gísli í Hausthúsum kom og gaf mér nokkurra mánaða hvolp.

 Á þessum tíma voru nokkrir nafnkenndir ræktendur sem ræktuðu  skoska hunda og tókst að halda þeim hreinum. Þessir hundar urðu oft afbragðs fjárhundar hjá þeim sem náðu tökum á þeim, en þá eins og í dag var það ekki öllum gefið og hundarnir eflaust misjafnir þá eins og nú. 

 Oftast blönduðust þessir hundar fljótt út hjá hinum almenna eiganda og uppistaðan í hundastofni landsins á þessum tíma voru allskonar blendingar og bastarðar sem voru vægast sagt misgóðir til þess sem þeir þurftu að gera.

 Hvolpurinn sem ég skírði Lubba var trúlega alveg hreinræktaður skoti eða Border Collie sem þessir skoskur hundar voru.



 Hann var að mig minnir kominn úr ræktun hjá Jóni á Saursstöðum í Haukadal sem var einn af þessum ræktendum sem lítið fór fyrir en vissi hvað hann var að gera.

 Þó að ætti mig lifandi að drepa er mér alveg ómögulegt að rifja upp hvernig staðið var að tamningunni á Lubba.
Á þessum árum var talsvert umleikis í fjárbúskap í Dalsmynni. Söðulsholtið nýtt að hluta undir fé og verið að vinna við kindur nánast alla daga ársins.

 Fénu var beitt miskunnarlaust allan veturinn og gefið fiskimjöl með beitinni, sauðburður fór fram að töluverðu leiti út um hagann og túngirðingar voru með dálítið öðrum hætti en nú.

 Trúlega hefur viljað svo heppileg til að ég hef ekki verið með annan hund á þessum tíma og farið að hafa hvolpinn með þegar hann hafði aldur til.
 Þar hefur síðan einhvernveginn náðst fullur skilningur milli okkar á því hvað mætti gera og hvernig, því Lubbi varð besti fjárhundur sem ég hef eignast hingað til. 
 Ég stjórnaði honum að mestu með bendingum og náði þannig hægri og vinstri skipunum algjörlega og einhvernveginn áttaði ég mig á því að stoppskipun væri nauðsynleg því hann var með hana á hreinu. Ég minnist hans ekki nema með þennan hárrétta vinnuhraða og góða fjarlægð ásamt glerhörku ef á þurfti að halda.

 Munurinn á Lubba og topphundunum mínum í dag var sá að hann gat unnið og vann mikið algjörlega sjálfstætt. Hann gat verið undrafljótur að læra á smalasvæðin eða átta sig á því hvað væri verið að gera og vann þetta síðan meira og minna afskiptalaust.

Og eins og áður segir var vinnulagið slíkt að hann hélt öllum árekstrum í algjöru lágmarki.

Á þessum tíma vorum við með beitarhús/bragga ofan túngirðingar neðan við hlíðina.

Féð lá þar við opið og þegar kom fram í apríl fór það að leita inn á dal.
Eftir því sem leið á fór það að skila sér verr í kvöldgjöfina og kom að því að ég þurfti að smala því heim.
Það var gert þannig að ég fór það langt að sæist um dalinn og síðan var Lubbi sendur inn hlíðina og smalaði hann þá dalinn til baka.
Einhverntíma var ég upptekinn og ákvað að reyna að senda hundinn heimanað og sjá hvernig gengi.
Þetta gekk vel og innan klukkutíma var Lubbi kominn með allt féð.
  Hann fékk því að sjá um þetta en fljótlega kom að því að mér fannst honum dveljast fulllengi við verkið og ákvað að laumast í humáttina eftir honum og vita hvað væri í gangi.

 Lubbi skokkaði inn hlíðina eins og lög gerðu ráð fyrir en kindurnar dreifðust um mestallan dalinn austan árinnar. 
Þegar hann kom að götunni sem lá uppúr dalnum innan klettanna lyktaði hann vel fram og til baka og lagði síðan upp fyrir brúnina.


 Það leið drykklöng stund þar til hann kom með nokkrar kindur niður götuna, kom þeim vel niður í hlíðina og hélt síðan áfram inneftir. Þar hvarf hann aftur úr augsýn og kom nokkru seinna með annan hóp og síðan tók hann við að stugga fénu á dalnum heim á leið.

 Það rann uppfyrir mér að í þessari smalamennsku sinni hafði Lubbi tekið upp á því að fara fyrir allar slóðir sem lágu útaf leitarsvæðinu og ná því fé sem þær áttu.

  Lubbi var þó ekki gallalaus frekar en aðrir hundar og stærsti gallinn var sá að hann gat verið grimmur við fólk. Það þótti reyndar ekki tiltökumál þó til væru grimmir hundar á þessum tíma en þó maður liti framhjá því að hann nartaði í grannana, þótti mér skelfilegt að ekki var hægt að treysta honum gagnvart börnum.


 Það urðu til margar sögur af Lubba á þessum árum sem kannski rata hér inn síðar, en hann varð 14 ára gamall og fékk hægt andlát trúlega í svefni  sem hæfði þessum höfðingja.

Ég reyndi mikið að fá nothæfan hund undan honum en það tókst aldrei. Trúlega vegna þess að ekki var hreinræktuðum tíkum til að dreifa á svæðinu og ekki síður hinu að þegar ég náði upp hvolpum undan honum, fór ég að vinna með þá með föður sínum í þeirri trú að þeir myndu læra listirnar af .þeim gamla.

Svona var maður vitlaus þá.emoticon
 

Dagbjartur Sagði:

Þessir gömlu skotar virtust margir hugsa meira í vinnunni en algengast er núna. Að vísu eru aðstæðurnar nokkuð mikið öðruvísi en samt. Það væri gama að reyna að safna saman upplýsingum um þá meðan það er enn hægt.
27.Mars 2011 13:18 (sunnudagur)

svanur Sagði:

Já. Þetta var nú reyndar sá eini sem ég kynntist.
Þú leggst bara yfir þetta kallinn minn.
27.Mars 2011 20:54 (sunnudagur)

Guðbrandur Sverrisson Sagði:

Einn gamall frændi minn sem nú er löngu látinn Þórður Franklínsson í Litla Fjarðarhorni í Kollafirði átti nokkuð góðann skoskan hund hvort hann var hreinræktaður veit ég ekki en hann lét hundinn sækja féð á kvöldin þegar beitt var og ef vantaði þá sendi hann hundinn
aftur en ekki held ég hann hafi gengið fyrir allar slóðir eins og Lubbi en sá galli ef galli kallast var að hann rak alt ókunnugt fé frá, fé nágrannanna var ekki velkomið að Litla Fjarðarhorni taldi seppi og hélt því nokkuð til streitu

Kveðja
Guðbr Sverriss
27.Mars 2011 21:12 (sunnudagur)

svanur Sagði:

Kannski hefur frændi þinn notað hann til að stugga frá aðkomurollum, það hefur dugað honum sem veganesti í harkinu.

Voru strandamenn ekkert að sækja sér hunda að Kleifum á þessum tíma?

Hugmyndin um að safna saman sögum af þessum skosku hundum á fyrriparti síðustu aldar og frameftir henni er góð og ef menn sendu mér slíkar sögur á póstfangið mitt myndi ég setja upp hliðarsíðu fyrir þær.

27.Mars 2011 22:46 (sunnudagur)

Dagbjartur Sagði:

Voru ekki til hundar af þessum stofni á Ljúfustöðum á tímabili. Mig minnir að hundar sem komu hérna suðureftir hafi verið settir eitthvað í samband við Ljúfustaði en það var um fjárskiptin.
28.Mars 2011 19:46 (mánudagur)
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581568
Samtals gestir: 52774
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:52:34
clockhere