22.01.2011 22:58

Rússnesk rúlletta og " Þurrablót".

  Það var niðaþoka á Hellisheiðinni um hálffimmleytið í gær þar sem ég dólaði í bílalest á leið í bæinn á 80 - 90 km hraða.

 ég rétt grillti í næsta bíl á undan og lofaði máttarvöldin fyrir hálkuleysið.

Náunginn á einhverri smá sardínudós sem var að berjast framúr mér á háheiðinni hefur hinsvegar verið algjör fíkill í rússneska rúllettu.

Verri en ég í gamla daga.

 Gærkvöldið endaði svo í svokölluðu þurrablóti en þá er íbúum hreppsins boðið í þorramat á vegum sveitarfélagsins.

 Þetta er gamall siður sem verið er að endurvekja eftir að hafa legið niðri, trúlega síðan 2003.
 Það var fín mæting af sveitungunum allt  frá rúmlega 6 mán. til ???


  Nú voru menn grand á því og fengu Veisluþjónustuna á Vegamótum til að sjá um matinn en áður var búin til nefnd sem sá um þetta.

 Þurrablótsnafnið gefur ákveðna vísbendingu um að þessi blót voru framin með talsvert öðrum hætti en þorrablótin.
En allt er í heiminum hverfult og þó þurrablótið sé nú" næstum " skraufaþurrt miðað við alvöru blót, þá náttúrulega átta menn sig á því að það er algjört stílbrot að renna þorramatnum niður með kóki eða appelsín.
 Þó þetta sé nú bara matur og spjall, lét yngsta kynslóðin það ekki aftra sér frá að taka nokkur spor.


 Kolbrún Katla og Halldór Gísli fengu sér snúnig en Aron Sölva vantaði hinsvegar  dansfélaga.



Kolbrún Katla vissi hvað hún söng þegar hún gaf sig ekki með að fara í senjórítukjólnum á fyrsta þorrablótið sitt enda féll Halldór Gísli alveg fyrir því, nýkominn úr danaveldi.



 Fín æfing fyrir komandi átök á Þorranum.

18.01.2011 22:40

Rebbinn.Takmarkaður eða?? Myndir- ALLS EKKI fyrir viðkvæma.

 Allt frá því að norskir skattsvikarar tóku saman föggur sínar og fluttu til Íslands í upphafi, hafa staðið yfir ýfingar við frumbyggjana, rebbana.

 Þau samskipti hafa svo þróast með margvíslegum hætti gegnum aldirnar og harðnað eftir því  sem samkeppnin jókst um lífsbjörgina.
 Nú eru að verða vatnaskil í þessu stríði því rebbinn sem átt hefur formælendur fáa í gegnum aldirnar á nú orðið vini á ýmsum stöðum og allt upp í æðstu embættismenn þjóðarinnar.

 Sumir eru sannir vinir vegna einhverrar dularfullrar hugmyndafræði um náttúruvernd, en aðrir eru ósviknir afkomendur þeirra sem nefndir voru í upphafi.Þeim  finnst fjármunum illa varið sem settir eru í að halda stofninum í jafnvægi við þann veruleika sem við búum við eftir að hafa þraukað á skerinu í þessi 1200 ár.


 Skiptir það okkur nokkru máli hvor ósnortnar flóavíðátturnar í suðurhluta Miklaholtshreppsins séu iðandi af fuglalífi með rjúpnahreiður á hverju holti eða nánast líflausar með um km. milli refagrenja??

 Nú er staðan sú að sífellt fleiri sveitarfélög kippa að sér hendinni við grenjavinnsluna sem þýðir aukinn kostnað þeirra sem telja rétt að hafa þessi hluti í lagi.
 Þar sem skipulegri refaveiði er hætt eða stórminnkuð er hinsvegar óljóst hvað muni gerast.
Það er þó ljóst að víða verða það afkomumöguleikar refsins sem ákvarða stofnstærðina á þessum svæðum .
 Þetta þýðir verulega fjölgun fyrst í stað og síðan verða það harðskeyttustu dýrin sem verða ríkjandi og munu þá taka það sem þau ráða við, til að lifa af.


                                                                                                      Mynd. Keran Stueland.

 Þetta mun verða mun  algengari sjón en áður og jafnframt mun það fuglalíf sem sumum  þykir mikils virði að hafa í kringum okkur láta  verulega á sjá.

                                                                                                   Mynd. Keran Stueland.
 Hér í Eyja og Miklaholtshreppnum hafa verð unnin um 40 til 50 dýr á ári og þó mér detti ekki í hug að halda því fram að það muni verða árleg fjölgun í það óendanlega, held ég að það sé nokkuð ljóst hvað tæki við.
 Það er með ólíkindum að upplifa hvernig ríkisvaldið veltir málinu alfarið yfir á sveitarfélögin eins og því komi ekkert við það umhverfisvandamál sem verður til, ef refaveiðum yrði hætt í landinu.

Það er ekki einkamál sauðfjárbænda eða missterkra sveitarfélaga hvort refafjöldinn á Íslandi er nokkur þúsund eða tugir þúsunda.

Sjá eldra blogg.  Ósnortið votlendi og fuglaflóran.


Flettingar í dag: 837
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 1149
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 435519
Samtals gestir: 40206
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 21:12:56
clockhere