04.03.2012 08:51

Æsingslausar landnámskýr.

 Fyrst eftir að mjaltabásinn var tekinn í notkun fóru yfirgengileg rólegheit mjaltadýranna verulega í stressaðar taugar bóndans.

 Það voru því reyndar ýmsar aðferðir til þess að koma á eðlilegum gönguhraða kúnna í og úr básnum.

 Skemmst er þar frá að segja að því stríði lauk með algjörum ósigri bóndans og þó hann sé löngu  búinn að sætta sig við það, reynir stundum á þolrifin þegar blóðið virðist alveg hætt að renna í þeim stresslausustu.



Þessi eðalgripur hefur gengið  tvisvar á dag í nokkur ár framhjá þessum spotta þarna. Það er samt öruggast að staldra aðeins við og vita hvort nokkrar breytingar hafa orðið á honum síðan í gærkveldi.



 Þessi setur alltaf í bæði lága drifið og framdrifið þegar hún fer að þoka sér ofurhægt inn í mjaltabásinn.



 Það er litið á morgunmjaltirna sem ánægjulega slökunarstund, sérstaklega eftir að bóndinn var róaður/brotinn  niður í upphafi.


 Hér er beðið eftir að komast inn í biðplássið svo slugsið geti hafist fyrir alvöru.


 Stundum fær maður á tilfinninguna að sumar geri í því að storka manni.



 Þessi skjár segir okkur svo að kýr no. 102 hafi mjólkað 19.2 l. þennan morguninn. Það þykir gott á þessum bæ hjá landnámskúnum sem er margt betur gefið en mjólka almennilega.


 Hér segir skjárinn okkur að það hafi tekið 10.6 mín. að mjólka þessa 19.2 l. sem er ágætt líka. Og næsta fletting hefði sagt okkur að mesta mjólkurflæðið hefði verið 2.6 l. /mín.

 Það er ekki langt síðan til var kýr sem tók helmingi lengri tíma að skila þessari nyt.

Þá var ræktunarstefnan kannski dálítið í sömu átt og rólegheit kúnna í mjaltabásnum.

Að bændurnir hefðu nógan tíma í mjaltirnar.

Hjá mér var ræktunarstefnan einföld og látlaus eins og í hundunum. Þar er ágætt ef útlitið er eins og maður vill, en smalagetan og hæfileikarnir eru númer eitt, tvö  og þrjú.

29.02.2012 21:38

Hundagrúsk. Skotar eða Border Collie.

 Við Dagbjartur á Hrísum erum sem betur fer dálítið afbrigðilegir og sem enn betur fer, svona sitt í hvora áttina..

 Síðasta árið höfum við verið að reyna að grafa upp sögur af afbragðs fjárhundum frá síðustu öld og þó það gangi illa er samt alltaf eitthvað sem skilar sér upp á yfirborðið.

 Í verkefni sem ég er að vinna þessa dagana hef ég stiklað á stóru og tekið saman nokkra punkta um hugsanlegt upphaf þessara hunda sem við erum að nota í dag og ákvað að skella því hér inn til fróðleiks og umræðu.

Upphafið.

 Talið er að heimilishundurinn sem menn hafi í upphafi  ræktað út frá úlfum,  hafi fylgt manninum í 14 - 17.000 ár og sé fyrsta dýrið sem hann tamdi og tók í sína þjónustu.

 
Á þessum þúsundum ára  hafa síðan verið ræktuð fram ótal einkenni og eiginleikar og eru nú um 800 ólík hundakyn til í heiminum .Hér á landi eru nokkur kyn sem hafa verið ræktuð til að vinna með við sauðfé. Íslenski fjárhundurinn/varðhundurinn er elstur þeirra og var að mestu ráðandi, þó með einhverri íblöndum innfluttra hunda frá upphafi byggðar  allt  fram á 19. öld þegar farið var að flytja inn erlend kyn í nokkrum mæli.  

  Þessi kyn blönduðust síðan  með margvíslegum hætti og lá við að upphaflegi,  gamli,  íslenski hundastofninn liði undir lok í upphafi síðustu aldar.
Fyrir góðra og framsýnna manna tilstuðlan tókst þó að bjarga honum.
 
Þó íslenski fjárhundurinn/varðhundurinn hafi dugað vel í gegnum aldirnar er hann fyrst og fremst rekstrarhundur þó dæmi séu um annað. Upphaflega trúlega notaður sem varðhundur í viðsjárverðum heimi og vakthundur á óvörðum engjum þar sem geltið hefur komið sér vel.

  
Aðeins hafa svo verið fluttir inn Huntaway sem eru geltandi rekstrarhundar og síðan eru til aðrar tegundir sem nothæfar eru við kindavinnu Það er þó Border Collie eða landamæra collie, sem ber höfuð og herðar yfir önnur hundakyn í sauðfjárvinnunni í dag, bæði hér og erlendis

 Það hefur verið  um  1925 sem Guðmundur Ásmundarson frá Krossi í Haukadal fer til Skotlands og dvelur þar í nokkur ár. Þar kynnist hann skoskum fjárhundum, lærir að vinna með þá og temja . Um 1928 kemur hann aftur til landsins og flytur  með sér nokkra hunda og tíkur til notkunar og ræktunar.  Guðmundur ferðast nokkuð um, kynnir hundana og sýnir þá í vinnu ásamt því að rækta og selja hvolpa sem dreifast um landið.


Lubbi frá Hausthúsum f. 1970 var talinn hreinræktaður skoti.Fyrsti  alvöruhundurinn minn. Feiknagóður og fjölhæfur fjárhundur ættaður frá Saurstöðum í Haukadal, nokkuð örugglega kominn af ræktun Guðmundar á Krossi..

 
Þessir skosku hundar sem hafa að öllum líkindum verið Border Collie, urðu margir afbragðs fjárhundar hjá þeim sem höfðu lag á að temja þá. Hundarnir að Kleifum í Gilsfirði sem voru að einhverju leyti  komnir útaf þeim, urðu víðfrægir, og þaðan og víðar úr Dölunum dreifðust skotarnir síðan um mestallt landið . Ekki fór hjá því að þeir blönduðust síðan þeim kynjum sem fyrir voru meira og minna ,þrátt fyrir að aðeins væri verið að flytja inn hreinræktaða  hunda til að reyna að halda stofninum við. 
  Það er síðan um 1977 þegar  Gunnar Einarsson á Daðastöðum fer að flytja inn  Border Collie hunda , rækta þá og kenna meðferð og tamningu þeirra.  Þó að á ýmsu hafi gengið  hjá hinum almenna  bónda við tamningu og notkun  þeirra er B.C. að  verða nánast einráður  við sauðfjárvinnuna.
  Gunnar fylgdi þessu vel eftir með námskeiðum og útgáfu fyrsta íslenska kennslumyndbandsins 1991 um tamningu fjárhunda .  
Nú er  orðinn til töluvert stór hópur bænda  sem kann vel til verka við tamningu og þjálfun og víða til góðir og afbragðsgóðir fjárhundar sem eru eigendum sínum ómetanlegir þó talsvert mikið sé þar enn óunnið hjá íslenskum sauðfjárbændum.

 
Segja má að þrátt fyrir talsverðan innflutning á B.C. sérstaklega síðustu árin,  bæði hvolpum og fulltömdum hundum, er hægt að rekja ættir langflestra BC fjárhunda á Íslandi í dag til ræktunar Gunnars á Daðastöðum.

Heimildir. Undir Grettisskyrtu eftir Sigurgeir Magnússon 1989.
                   Dagbjartur Dagbjartsson.


Hrísabóndinn fyrir nokkrum árum, kominn með beislið í hendurnar og smalahundinn í lið með sér og ætlar greinilega að fara að leggja á. Svona blendindingshundar voru trúlega orðnir algengir seinnipart 19 aldar og vel fram á þá tuttugustu.

Og þeir sem lúra á sögnum af góðum fjárhundum eða öðrum fróðleik sem hefur ekkert að gera í glatkistuna, ættu að hafa samband við annanhvorn okkar Dagbjarts .

 

25.02.2012 13:05

Talandi hundar! Skessa, taka tvö.

Árið var 1998.

 Ég hafði nokkrum árum áður ákveðið að koma mér aftur upp góðum fjárhundi eftir að hafa verið nánast hundlaus í nokkur ár. Það voru árin sem hestum og hundum var lagt en endurehjól, þríhjól og síðar fjórhjól voru óspart tekin til kostanna.

 Fyrsti BC hundurinn minn hann Lubbi frá Hausthúsum( f. 1970) var afbragðs fjárhundur og þannig hélt ég að þessir skosku hundar væru bara.

 Ég var þá, blautur á bak við eyrun og vissi enn minna um BC ræktunina þá en núna, hélt bara að keypti ég hreinræktaðan BC væri tóm hamingja framundan.

 Tík var keypt, hreinræktuð með nokkur þekkt nöfn í ættartölunni. Síðan var farið á námskeið og ég sökkti mér niður í allan þann fróðleik sem ég komst yfir um tamninguna og allt sem henni tilheyrði. Tamningin tókst vel ,tíkin var áhugasöm og ágætlega hlýðin, lærði hægri og vinstri skipanirnar reiprennandi en þegar á reyndi kom í ljós að hún var ákaflega kjarklítil. Svo kjarklítil að það hálfa hefði verið nógu slæmt. Þá rann upp fyrir mér að BC er ekki það sama og BC.

 Nú var ég hinsvegar kominn á bragðið, taldi mig nokkuð öruggan með að geta tamið hund eftir
 " bókinni " og fór að svipast um eftir dýri sem réði við það sem hún væri ræktuð til.

Ég hringdi í Hörpu á Hæl.

 Þekkti hana ekkert, en sagði henni vandkvæði mín og nú væri ég að leita að tík sem ætti að verða mjög ákveðin.

 Harpa átti ekkert handa mér. Átti að vísu tvær tíkur nokkurra mán. sem yrðu trúlega ágætlega ákveðnar en hún ætlaði að eiga þær.

 Það teygðist nokkuð úr þessu samtali og um það er því lauk var það fastmælum bundið að ég fengi aðra tíkina en ég fengi ekki að velja hvora.
 Nokkrum dögum seinna var ég mættur uppeftir og eftir langt hunda og kaffispjall, það fyrsta en ekki það síðasta, var farið í hlöðuna þar sem tíkurnar tvær voru í góðu yfirlæti. Harpa ítrekaði það að hún væri búin að ákveða hvorri hún héldi eftir.
 Annar hvolpurinn kom strax á móti okkur en hinn dró sig til baka.

Mér datt strax í hug að að sú væri ætluð mér og ég fór að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að tala Hörpu til, svo ég fengi þá sem kom á móti okkur.
 Sem betur fór voru það óþarfa áhyggjur og heim fór ég með þá viðtökugóðu sem hlaut nafnið Skessa í fyllingu tímans.
 Til gamans má geta þess að tíkin sem eftir varð, var föðurmóðir Tinna frá Staðarhúsum sem er föstum lesendum síðunnar að góðu kunnur.



 Ég byrjaði að temja hana um veturinn ' 99 og var kominn vel í gang með það, þegar sauðburður brast á og þar með lauk kindavinnu það vor og sumar.

 Þegar kýrnar fóru að liggja úti sá ég ákveðin sóknarfæri í því og það varð hlutskipti okkar Skessu að sækja þær á morgnana. Þarna lærði hún allar helstu skipanirnar ásamt því að aðlaga sig þeim hraða sem hentaði kúnum . Þegar fór að líða á sumarið var ég orðinn óþarfur, hún fór og smalaði kúnum saman , rak þær upp ef á þurfti að halda og kom með þær í rólegheitum, mjög ákveðin ef þurfti  og hélt uppi heraga.


 Skessa sem var skemmtilega ákveðin þó ekki væri til grimmd í henni, komst undantekningarlítið vel frá keppnisbrautinni

 Mér er það minnisstætt þegar hún komst loksins í kindur um miðjan ág. að það var eins og einhverju slægi saman í hausnum á henni. Í stað þess að fara fyrir hópinn eins og hún átti kunna og gera, var rokið beint í hópinn honum splundrað og síðan tætt í algjöru stjórnleysi þar til ég náði að stoppa hana af.
 Eftir smá stund var hún farin að róast og þá var gerð önnur tilraun. Nú kannaðist ég við hana því það var farinn flottur hringur, hópnum sem var tvístraður um allt náð saman af miklu öryggi og smalað til mín. Þannig var það síðan framvegis.

 Skessa var greindasti hundur sem ég hef komist í tæri við. Orðafjöldinn sem hún skildi fullkomlega áður en lauk, skipti tugum . Ég gerði það oft til gamans ef ég var að tala við einhvern að henni áheyrandi að bæta inn í setningu skipun til hennar , án þess að breyta um raddblæ eða áherslu. Þó hún virtist móka sofandi eða hálfsofandi og ég bætti inn í setningu eins og t.d bla, bla, bla e.h.  skessa farðu heim bla, bla e.h.þá spratt hún upp og fór.
 Í smalamennskum eða vinnu var hún send milli manna með því að segja . Skessa farðu til þessa eða hins. Þá var ekki farið til næsta manns heldur þess sem var nefndur.


 Í síðustu smalamennskunni.

 Hún var orðin nokkurra ára þegar nemendur í Laugargerði komu í heimsókn. ´Eg setti út kindur og sýndi hana reka þær frá mér, að mér og til beggja hliða allt með skipunum töluðum á lágu nótunum.
 Í lokin sagði ég saklausum börnunum það að hún Skessa skildi allt sem ég segði. Ég talaði síðan við hana , sagði henni að fara og koma , setjast og standa o.sv. frv.
 Nú lægi bara fyrir að kenna henni að tala í vetur svo við gætum spjallað saman um landsins gagn og nauðsynjar.

 Í skólaslitunum um vorið eftir að búið var að slíta skólanum, sitja hefðbundna veislu og ég var kominn fram í forstofu á útleið var hnippt í jakkann hjá mér.

 Við hliðina á mér stóð lítill feiminn drengur sem spurði mig hikandi.

Ert þú búinn að kenna Skessu að tala ????


Flettingar í dag: 1551
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580244
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 17:34:00
clockhere