23.06.2011 08:28

Grenjavinnslan.

 Það er óhætt að segja að þrautseigur norðanblásturinn og kuldinn hafi sett mark sitt á grenjavinnsluna þetta árið.

 Það er liðin tíð að veiðiáhuginn drífi mann á greni í vafasömu veðurútliti enda  reynslan harður skóli í þessum bransa og augnabliksklúður fljótt að setja allt í uppnám.

 Nú sér samt fyrir endann á vertíðinni þetta árið og þó það hafi gengið á ýmsu hefur oft gengið verr.


                             Grjóthleðslan t.h. var hlaðin um kvöldið til að taka af mesta blásturinn.

 Svona var vinnuaðstaðan á síðasta greninu. Reyndar sést ekki á myndinni að þarna var um 15 - 20 m. vindur og hitamælirinn í bílnum sýndi 2 gr. þegar komið var niður um fimmleytið í gærmorgun.

 Þó  enn eigi eftir að kíkja á nokkur gren er líklegt að ekki verði unnin fleiri  þetta árið en það var á 5 þekktum grenjum og grunur um a.m.k. 3 óþekkt, en skráð greni eru á annað hundrað í sveitarfélaginu. Það eru tvö gengi sem eru í vinnslunni og skipa Dalsmynnisbændur annað þeirra.



 Þetta greni er gott dæmi um breytta hegðun tófunnar en það fann ég eftir 2. ára snuðr, í kílræsi og trúlega er innan við 1 km. í loftlínu á næsta bæ.
 Nú verður reynt að taka tíma í að finna  óþekktu grenin en þó við vitum nokkuð um veiðisvæði viðkomandi dýra eru það oftast tilviljanir og heppni sem verða til þess að nýtt greni finnst.

 

 Hér sést alvöru klassa fjallagren sem ekki hefur verið á árum saman en hér eins og víðar er lágfóta komin niður í byggðina og þar er væntanlega þau greni að finna sem vantar í bókhald grenjaskyttnanna.

17.06.2011 20:47

Sleppitúr. Siðasti dagurinn.

 Það munaði litlu að allt færi í klessu í fyrsta áfanganum frá Borgarholti í áningarhólfið í Stakkhamarsnesinu.

 Við vorum komin langleiðina þegar reksturinn slapp upp á nesið og ætlaði að taka strikið út á fjöruna.
Þó Gunni héldi því fram að hann hefði bjargað málinu var það nú hátt rofabarð sem kom í veg fyrir að hópurinn stormað út á fjöruna þar sem ekki var fullfallið út.
Þetta tafði fyrir þeim svo við náðum vopnum okkar á ný  og öskrin sem ég framleiddi höfðu ekki einungis undraverð áhrif á ólátabelgina í rekstrinum þar sem Dalsmynnisklárarnir voru fremstir meðal jafningja. Þau höfðu líka undraverð áhrif á Guggu og Halldóru sem þeystu um öskrandi eins og indíánar í árásarhug og þar með var sú orrustan unnin og hópurinn kominn í áningargerðið nokkrum mínútum síðar.


Þetta áningarhólf sem sett var upp að frumkvæði Snæfellings og Stakkhamarsbænda er algjör snilld og minnir mig á áningarhólfin hans Ödda sem hann hafði dreift um Lónið og Suðursveitina .



 Ég kenndi svo Einar um að hafa rekið okkur of fljótt af stað, þegar við blotnuðum aðeins í síðasta álnum en það var farið aðeins of utarlega og þó eitt og eitt hross flyti upp slapp þetta allt til.

 Norðanáttin færðist svo heldur í aukana eftir því sem við nálguðumst endastöð og kominn hrollur í suma um það er lauk.

 Félagar mínir voru þarna að ljúka 5 daga ferð frá Rifi og voru hæstánægð þó að á ýmsu hefði gengið. Týndi hesturinn fannst og þessar 3 eða 4 byltur í ferðinni höfðu ekki mjög alvarlegar afleiðingar.


Það var síðan tvöföld veisla um kvöldið , grillveisla hjá sleppitúragenginu og síðan tvöföld afmælisveisla Atla og Iðunnar sem urðu 30 ára fyrir skemmstu.

Meirháttar alltsaman og takk fyrir mig.

16.06.2011 05:29

Sleppitúr 2011.

Ég laumaði mér inn í sleppitúrinn á 4. degi en þá voru eftir 2 góðir dagar í Söðulsholt.

 Klárarnir mínir eru ekki til stórræðanna alveg notkunarlausir svo það var stólað á magnið eða fjóra hesta á ýmsum aldri.

 Lagt var upp frá Böðvarsholti ( í Staðarsveit) um kl 11 en hafa þurfti fjöru yfir Staðarárósinn.


 Það var bein og breið leið niður fjöruveginn hjá henni systur minni á Kálfárvöllum og síðan tók fjöruborðið við austur að Kirkjuhól. Þetta var langur áfangi og komin ró yfir reksturinn löngu áður en við náðum þangað.


Laila í Hofgörðum hafði lánað okkur aðstöðu fyrir áninguna svo þarna var stoppað vel, skipt um hross og járnaðir tveir hófar.

 
 Ferðaþjónustubændur að Hofi hafa tekið til hendinni í vetur og komið upp 10 smáhýsum og munu einhver þeirra verða tilbúin til nýtingar í sumar..


 Þaðan var síðan veginum fylgt að Tröðum þar sem fjaran beið okkar ný.


 Það er varla kominn nægur gróður í næturhólf og á áningastöðum þó komið sé framyfir miðjan júní en í Borgarholti beið okkar vel gróið hólf og rausnarlegar móttökur hjá Viðari.
 
 Og síðasti  dagurinn á að enda í Söðulsholti á morgun með grillslútti hjá sleppitúragenginu og 2 X 30 ára afmælisveislu hjá Atla og Iðunni.(  Erfiður dagur.)
Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere