20.02.2012 08:38

Topp tvö folaldasýning í Söðulsholti.

 Já , folaldasýningin í Söðulsholti klikkaði ekki frekar en fyrri daginn.

  Það mættu til leiks 46  folöld í öllum litum og gerðum, reyndar hvert öðru fallegra.
Nú eru menn farnir að kunna þetta og ekki liðu nema nokkrar sekúndur frá því að folald fór út þar til það næsta var komið á hallargólfið.

 Sum þeirra þöndu sig á brokki eða tölti um svæðið eigendum sínum og áhorfendum til mikillar ánægju meðan önnur héldu að hér væri það tíminn sem gilti og tóku þetta á stökkinu.


Það var hún Krakaborg frá Hallkelsstaðarhlíð sem lagði hryssuflokkinn að velli. Hún er undan snillingnum honum Sporði frá Bergi og Þríhellu frá Hallkelsstaðarhlíð .Ég velti því svo fyrir mér hvað ræktandinn, hann Skúli muni skíra folöldin þegar örnefnin í Hlíð þrýtur. Kannski snýr hann sér bara að ættingjunum.



 Rétt eins og vínbændur í s. Evrópu tala um góða árganga fer ekki á milli mála að árgangurinn í Hallkelsstaðarhlíð er afbragðsgóður þetta árið því það var Stoltur hennar Sigrúnar sem rúllaði upp hestaflokknum. Stoltur er undan Alvari frá Brautarholti og Tign frá Meðalfelli. Hryssan í 2 sæti var líka frá Hlíð, Fleyta  Stígandadóttir  ( frá st. Hofi) og það var  Guðmundur M Skúlasonsem ræktaði hana.



 Á folaldasýningum fá brekkudómararnir að njóta sín og þeir völdu Vind frá Minni Borg sem flottasta folaldið. Vindur er undan Kiljan frá Þúfum og Löpp frá Hofstöðum og Katrín Á M. Borg ræktandinn.

 
 Efstu ræktendur í hryssuflokki .Halldóra Einarsdóttir/ Kría frá Söðulsholti í 3 sæti, og Sigrún og Skúli.  Einar Söðulsholtsbóndi sem gaf verðlaunin ásamt því að bera hitann og þungann af sýningunni. Þetta er nú hálfgerð ræktunar sýning hjá honum því dóttir Halldóru og dótturdóttir Einars. Inga Dís afhenti verðlaunin.



 Ræktendur efstu hestfolaldanna frá v. Sigríður Gunnarsdóttir á Hjarðarfelli sem var með Spunasoninn Herkúles í 3 sæti. Borghildur Gunnarsdóttir /Hrísdalshestar var með Glaum Glymsson í öðru sæti og Sigrún /Stoltur í 1 sæti.

 
 Og Katrín á Minniborg  verður svo bara að láta sig dreyma um það næstu árin hvað Vindur á eftir að gera fyrir hana í fyllingu tímans.

 Þar sem ég er hæstráðandi hér ætla ég að fara framhjá bæði dómara og brekkudómurum og sýna ykkur Dalsmynnisárganginn sem er bara nokkuð góður þetta árið þó hann hyrfi í fjöldann á sýningunni.

              Perla er vaðandi töltmylla þó að hún sýndi fyrst og fremst stökkgetuna í þetta sinn.
 Það endaði með því að hún Von mín kæmi loksins með rauða hryssu undan Arð frá Brautarholti. Strax að lokinni kyngreiningu var sú rauða skírð Perla í höfuð ættmóðurinnar og jafnframt tekin ákvörðun um að nú yrði Von ekki haldið oftar .


 Þetta er svo hann Flugarr ( með 2 r) undan Fláka frá Blesastöðum og Fjólu frá Árbæ. Ég ætlaði nú reyndar að setja hann á sölu en var bannað það, Flugarr fer um á brokki og tölti.

 Það er svo fullt af stórglæsilegum myndum hjá Iðunni Silju.  Hér

16.02.2012 08:34

Hvolpar, kal, umhverfismat og vorblíða á Langanesi.

 Það var mikill léttir að sjá síðustu svellalögin hverfa af túnunum.

 Nú er að taka í sig kjark og fara í umhverfismat og meta hvort túnin hafi staðið af sér þessi rúmlega 2 mán. svellalög.  Það hefur trúlega bjargað miklu að jörðin var  ófrosin og kemur ófrosin undan þessu, en það er óvanalegt hér á þessu sælusvæði íslensks veðurfars.
 Allavega er ljóst að kaltjón verður sem betur fer  langt undir þeim væntingum sem voru í gangi fyrir 2 vikum eða svo.



 Síðan er ekki eftir neinu að bíða með að vaða í áburðaráætlun og leita svo tilboða hjá vinum mínum sölumönnunum.

 Það er vonandi rétt hjá Svenna í Hlíð  að veturinn sé í 3 mán. og þeir séu búnir.

Og Langnesingurinn sem ég talaði við í gærkveldi sagðist ekki láta sig dreyma um það að fá eins gott veður í vor og hann upplifði þessa dagana.

 Ekki nema von að maður sé í bjartsýnisstuði þessa dagana.



 Tinni junior dafnar vel  og er alveg fádæma efnilegur. Það er að vísu velþekkt umsögn um alla hvolpa úr minni ræktun á þessum aldri og niðurstaðan of oft verið önnur þegar alvara lífsins tekur við.



 Þessi bróðir hans er einstaklega skemmtilegur og sérstakt þegar systkinahópurinn ryðst út eftir næturlanga inniveru, kemur hann til mín og eltir mig út. Samt er hann grimmastur við matarskálina.
 Það er ljóst að sá sem hreppir hann þarf að sannfæra mig um ýmislegt og allt prútt verður tilgangslaust.



 Af meðfæddri hæversku ætla ég ekki að hafa nein orð um litlu prinsessuna mína sem ég á í óvanalega miklum vandræðum með að finna nafn á.

 Og fyrir þá sem eru alltaf svo duglegir að" like " hjá mér er like-ið vonandi komið í lag.

13.02.2012 19:53

Alvöru blót með alvöru liði.

Ég held því gjarna fram sérstaklega við ákveðna aðila að að þó íslendingar séu nú upp til hópa
 " alvöru " fólk, þá sé því meira spunnið í þá því afskekktar sem þeir búa.

 Þó ótrúlegt sé hef ég aldrei þurft að skilgreina " alvöru " fólk nánar.

 Það var dólað vestur á Barðaströnd á laugardaginn til að blóta þorrann með " alvöru " fólki í Birkimel.
 Nú fórum við landleiðina vestur í Gufudal þar sem við fengum far með bændum síðasta " spottann".

 Það var hálkuslabb á hlutum leiðarinnar á vesturleið en það hvarf svo að mestu um nóttina.



 Hér eru trogin á borðum og Brjánslækjarborðið hefur þá sérstöðu að standa dúkað meðan blótið endist. En eins og kunnugir vita láta bændur þar sér aldrei leiðast, allra síst á þorrablótum eins og sjá má.



 Aðalbændunum leiddist ekki heldur.



 Og eins og á öllum alvörublótum eru allir mættir tímalega,



 Og sumir eru meira alvöru en aðrir.



  Bóndinn af Mýrunum hefur eflaust raulað fyrir munni sér. Þar sem enginn þekkir mann/ Þar er gott að vera, - þar til hann sá mig.



 Þarna rakst ég svo óvænt á frænku mína enda ísland pínulítið ef því er að skipta.



 Gufudals og Múlabændur létu sér ekki leiðast frekar en fyrri daginn.



Gísli Fjallabróðir og félagar eru fastir liðir.



 Svona horfa þær alltaf blíðlega á mig þessar elskur. Verst að Elísabetu vantaði.



 Já hér var allt eins og það átti að vera.



 Skemmtiatriðin voru alveg frábær en þau klikka nú aldrei þarna. Meira að segja
 " aðkomumaðurinn " náði þessu næstum öllu.




 Hér eru svo bændur ágætlega birgir af snjó og klaka enn, eins og fleiri.



 Skrámur frá Dalsmynni tekur svo alltaf jafn vel á móti mér, búinn að jafna sig á hausttörninni.



 Já það er sama hvar ég er að flækjast um, alltaf verða hundar á leið minni jafn misjafnir og þeir eru margir. Þessir verða kannski auglýstir hér á síðunni áður en lýkur.

 

Flettingar í dag: 762
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579455
Samtals gestir: 52637
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:09:52
clockhere