15.02.2011 09:12

Tinni í kennslustund. -Myndband.


Hér er góður partur af einum kennslutíma hjá okkur Tinna.

Fyrir þá sem þekkja ekki til þessarar vinnu  er rétt að benda á að þetta er óvanalega þjáll og skemmtilegur hundur sem er með meðfædda góða vinnufjarlægð. Hann er óvanalega yfirvegaður  en samt með mjög góðan vinnuáhuga.
 Þarna er verið að kenna hægri,vinstri og sækja skipunina og aðeins verið að byrja að láta hann reka hópinn beint áfram. (Nær skipunin).
Aðferðarfræðin er sú að stoppa hundinn ef hann kemur of nálægt eða gerir vitleysu en leyfa honum að vinna þegar farið er rétt að hlutunum.

Myndbandið er HÉR

13.02.2011 09:03

Taminn fjárhundur til sölu ef ??????

Þeir eru orðnir margir sem hafa haft samband símleiðis eða í pósti og spurt hvort ég eigi eða viti um taminn hund til sölu.

 Staðlaða svarið er það, að því miður sé framboðið nánast ekkert en eftirspurnin hinsvegar töluverð.

Sé fyrirspurnin símleiðis teygist oft úr samtalinu og hlutununum er velt fyrir sér. Meðal annars því ef eftirspurnin sé næg,  hversvegna koma þá ekki inn menn sem reyna að sinna henni?

Svarið við því hefur verið einfalt.  Það verð sem hundakaupendum finnst hæfilegt, dugar ræktendum og tamningarmönnum ekki til að rækta og temja hunda til sölu.


 Það liggur talsverð vinna í að fulltemja hund. Hér eru Dáð og Snilld í fyrsta sameiginlega tímanum.

 Þeir hundar sem hafa verið að koma tamdir til sölu eru því í flestum tilvikum umframhundar eða henta ekki eigendum sínum þó þeir geti komið þeim vel sem minni kröfur gera.

 Nú skynja ég breytta tíma í þessum efnum.
 
 Nokkur fjöldi góðra tamningamanna er orðinn til víðsvegar um landið og mun auðveldara er að verða sér úti um velræktaðan B.C. vegna markvissari ræktunar.
 (Velræktaður B.C. sem  langflestir kaupendur eru að leita að, er hundur sem er auðtaminn,  þjáll og vandamálalaus í umgengni og með þá eiginleika sem duga honum í vinnunni. )

 Jafnframt er þörfin fyrir góða hunda sérstaklega á strjálbýlari svæðunum orði slík, að verðin sem menn eru tilbúnir að borga fyrir góðan taminn  hund fara að duga til þess að framboð þeirra muni
aukast.
Í framhaldinu mun vafalaust kvikna umræða um gæðin því engir tveir hundar eru eins. Engir tveir kaupendur heldur.

 Rétt eins og hestar eru auglýstir fyrir " vana " eða  "ekki" fyrir óvana er ljóst að ör og ákafur hundur með öflug foringjagen hentar ekki hverjum sem er.

 Nú er ég að temja hund sem er alveg sniðinn fyrir þennan sölumarkað. Sjá  HÉR.
 Þetta er sérlega yfirvegaður hundur með mikinn vinnuáhuga, mjög ákveðinn í framgöngu og hefur gott vinnulag. hann er ágætlega hlýðinn og algjörlega vandamálalaus í umgengni.

 Hér er hann að ná kindum frá húsi í upphafi kennslustundar og gerir það  yfirvegaður og fumlaus. Í þessum hópi eru a.m.k. 2 kindur sem væru að búa sig til árásar ef þær skynjuðu einhver veikleikamerki hjá hundinum.


 Sallarólegur en ákveðinn og kindurnar löngu búnar að læra að vera ekki að abbast upp á þennan.


 Það er komin tæplega þriggja vikna kindavinna í hann og seinnipart vetrar eða í sumar verður þetta vonandi orðið mikið taminn, mjög góður fjárhundur sem myndi henta nánast hverjum sem er.

 Og verði hann til sölu gæti verðmiðinn  orðið í kringum 450 kallinn fyrir utan vsk.

Video væntanlegt.

11.02.2011 09:09

Veðurguðir og húsahönnun.

Þó stundum blási aðeins um okkur Nesbúa unum við glaðir við okkar og höldum bara að svona eigi þetta að vera.

 Gamalreyndir og veðravanir gæta menn þess að byggingar snúi rétt með tilliti tll ríkjandi vindátta og ef einhver aðkomumaður  blautur á bakvið eyrun í veðurfari svæðisins, hannar hús með dyr upp í norðanáttina er hann óðara færður af villu síns vegar af sér veðurfarsreyndari mönnum.

 Hér er ekið inn rúllum í kýrnar á um 3 daga fresti. Það er afar sjaldgæft að veður sé til vandræða við þann gjörning þrátt fyrir  fjölbreytilegt tíðarfar og veðurhæðir.

Enda snúa dyrnar til suðurs.

 Í morgun stóð hinsvegar illa í bæli veðurguðanna og suðaustanáttin sem samkvæmt kerfinu á aldrei að ná sér á strik hér á bæ  lét mikinn.
 Reyndar hafði hún verið til  vandræða fyrir nokkrum dögum og er þetta enn ein staðfestingin á því að allt sé í heiminum hverfult.

 Það var semsagt algjör barningur að koma fóðrinu í kýrnar þennan morguninn og eldvígsla fyrir yngri bóndann sem var að mæta í sínar fyrstu mjaltir eftir liðbandakrassið í körfunni.

 Þó manni finnist nóg um þetta veður hér er það þó enn öflugra hjá vinum mínum á Austurbakkanum enda allt alvöru þar.

 Þar fara húsin af stað með tilheyrandi tjónum og slysförum og stundum heppni að ekki fer verr, því í þessum náttúrulegu hamförum verðum við mannfólkið svo ósköp lítil og vanmáttug.

Og til þess að sýna alvarleika málsins eru engar myndir í dag.emoticon

Flettingar í dag: 701
Gestir í dag: 75
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579394
Samtals gestir: 52635
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 10:27:07
clockhere