Færslur: 2015 Febrúar

19.02.2015 21:18

Jólapakkar og aðrir pakkar.

 Það er enn meira spennandi en að opna jólapakkana, að vera viðstaddur þegar fóstrin eru talin af mikilli nákvæmni í kindahjörðinni.

  Sérstaklega þegar útkoman stenst væntingar.  

  Nú er talningu lokið og það voru veturgömlu kindurnar eða tvævetlurnar sem voru undir væntingum með frjósemina. 


 15 nóv. var fullorðna féð tekið inn og rúið.

 Þær eru alltaf lotteríið í hjörðinni ásamt því hversu margir gemlingar eru með tveimur. En frjósemin hjá þeim hefur verið langt utan vinsældarmarka árum saman. Tvílembuhlutfallið meira að segja verið í stöðugri aukningu milli ára.  
 Já, niðurstaðan var semsagt sú að það eru 194 lömb á hverjar hundrað af því fullorðna. Tvær tómar ,14 einlembur og tíu þrílembdar. Af einlembunum voru 9 veturgamlar sem er verulega í slakari kantinum. 


  Næstum malandi af ánægju á taðinu emoticon

 Tvævetlurnar eru mun viðkvæmari fyrir haustfóðruninni en þær fullorðnu 
trúle ga vegna þess að þær eru undantekningarlaust að skila miklum afurðum gemlingssárið. 18 kg + meðalvigt algeng og þeim fer síðan alltaf fjölgandi sem ekki tekst að venja undan annan tvílembinginn.    Gemlingarnir  gúffa  í sig bygginu því nú þarf að ná upp þroskanum fyrir vorið.

  Útkoman á gemlingunum var hinsvegar afbragðsgóð. Að vísu voru 4 tómir sem er 4 of mikið, en það sem kætti mig verulega var að einungis tveir þeirra voru tvílembdir

Algjörlega frábært.emoticon

17.02.2015 21:25

Bæjarferð með blóðugu ívafi.

 Það var brugðið sér í bæjarferð í dag enda spáin góð eða þannig ;) . Meðal erinda var að leyfa honum Dreyra Sigurssyni að kíkja í bæinn.

 Hann er námsverkefni fyrrverandi verknema  sem er á hrossabraut á Hvanneyri.

 Á laugardaginn kom í ljós að Dreyri var tjónaður á tönn og erfitt að átta sig á hvað var að eða hvað hefði skeð.
  Við læknisskoðun á mánudeginum kom í ljós að ein framtönnin hafði losnað illilega og ekki um annað að ræða en að reyna að spengja hana fasta eða kippa henni úr. Svo hann var gripinn með í bæinn og settur í hendurnar á Björgvin.
 Þarna er búið að setja tönnina á sinn stað og víra hana. Vel sést hvernig tannholdið hefir rifnað þegar tönnin gekk upp og framávið.

 Vegna þess hvað langt var um liðið var komin ofholdgun við sárið og lykt af því.

  Það var ákveðið að reyna að bjarga tönninni og eftir mikil þrif og nokkurt basl tókst að þrengja tönninni aftur á sinn stað og í annarri tilraun að víra eða spengja hana þannig að doktorinn væri ánægður.  Hér á bara eftir að ganga frá vírendum og fela þá með hóffylliefni svo þeir særi ekki.

 Nú er Dreyri kominn í 6 vikna frí og verkneminn mun fá systir hans ári yngri ( á fjórða vetri) til að spreyta sig á í tamningarnáminu.

 Ekki er með nokkru móti hægt að átta sig á hvað það var í stíunni sem Dreyra tókst að  festa tönnina í .

13.02.2015 20:07

Uppeldið og erfiðu ákvarðanirnar.

   Ég hef alveg haldið mig við tíkur í uppeldinu.

Allar götur frá því að Vaskur ílentist hjá mér .


  Hann fæddist árið 2000 og dagaði uppi hjá mér vegna grimmdar og almenns ribbaldaháttar. 

Algjör Garrý. 

 Hef annars ekkert á móti hundum, þó það hentaði mér ekki að flækja málin í sífelldri og endalausri leit minni að góðum ræktunartíkum. 

 Nú bregður hins vegar svo við að hér eru 3 hundar í uppeldi, rétt að verða 3 mán. 

 Það er alltaf jafn fróðlegt og  umhugsunarvert að spá í muninn á alsystkinum.

  Máni skar sig fljótlega úr með það að vilja komast útúr búrinu og síðar stíunni sem þeir áttu að vera í. Sama hvað ég gerði alltaf komst hann út. Endaði á að klifra upp og yfir 1 m. háa grind. ( 5 cm. ferkantaðir möskvar).  Þegar  önnur grind var lögð ofaná, lýsti hann sig sigraðan. 

Hann er manninum mjög fylgispakur en grípur til geltsins ef eitthvað ógnar honum. 

 Lilli er svona eðlilegur hvolpur . Ekkert sótt í að kanna heiminn af einhverri óbilgirni. Allra fyrst taldi ég líklegt að hann yrði frekar til baka og lítill í sér og af því er nafnið dregið. 
Þetta reyndist síðan vera alrangt mat hjá mér. 

 Dropi fylgdi hinsvegar bróður sínum trúlega í útrásartilraununum þó hann beygði sig hinsvegar mun fyrr fyrir hinu óumflýjanlega. Dropi er hinsvegar verulega " til baka " í allri umgengni. Eini hvolpurinn sem er ýkt útgáfa af meðfæddri " feimni " móðurinnar.

 Uppeldið á henni endaði þó framar öllum vonum og " feimnin " í samskiptunum við manninn slógu ekkert á frábæra smalahæfileikana. 

Ég lifi í voninni um að eins verði með Dropa og  mun nýta  reynsluna af móðuruppeldinu til að koma honum auðveldlega gegnum uppeldið. 

 Það verða síðan smalahæfileikarnir sem ráða því hversu mikið þeir verða tamdir og hvað áhugasamir fjárhundaleitendur þurfa að lækka mikið undir koddanum þegar rétta heimilið finnst fyrir þá. Það kostaði mig margra vikna vangaveltur og heilabrot að ákveða hvort móðirin Ronja frá Dalsmynni ætti að fara eða vera.  Ákvörðunin varð auðveldari fyrir það að hennar beið gott heimili, þar sem hún átti að baki nokkurra vikna reynslutíma í hauststörfunum. 

 Þannig að nú skilja leiðir í bili.

 En svona gengur þetta hjá þeim sem ekki láta duga að koma sér upp góðum hundi á svona 9 ára fresti emoticon .
Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 101
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151417
Samtals gestir: 7041
Tölur uppfærðar: 27.11.2022 13:25:12
clockhere