11.02.2009 09:27

Ólafur ,Davíð og hundatamningar.


  Stundum kemur að máli við mig fólk sem heldur að ég sé góður í að temja hunda.

 Þar sem mér finnst frábært ef einhver heldur að ég sé góður í einhverju, segi ég þessu fólki yfirleitt eitthvað gáfulegt um hundatamningar.

  Ég legg alltaf ofuráherslu á, að ef tamningin eigi að ganga verði þjálfarinn að vera afdráttarlaus leiðtogi í augum hundsins. Það þarf síðan margt til, svo hundurinn líti á mann sem leiðtoga sinn en tvennt það mikilvægasta er að hundurinn beri takmarkalausa virðingu fyrir húsbóndanum og treysti honum fullkomlega..

  Á þessum síðustu og verstu tímum hvarflar stundum að mér að nú sé eins og ógæfu Íslands verði allt að vopni.

  Okkar ástkæri og alþýðlegi forseti stendur fyrir hverri bombunni á fætur annarri og sér ekki fyrir endann á því. Það að taka fréttamannafund í að útskýra fyrir þjóðinni hvað  Jóhanna og Steingrímur ættu að gera að lokinni stjórnarmyndun var í besta falli barnalegt. Annar fréttamannafundur var tekinn í langar rökræður um túlkun á stjórnarskrárákvæðum.

 Það toppar þó ekkert það, þegar kemur í ljós að forsetinn býður til sín í kvöldverðarveislu ýmsum erlendum blaðamönnum( einum í einu) og setur ekki þau skilyrði sem þjóðhöfðingar setja undantekningarlaust fyrir slíkum viðtölum, að embættið fari yfir viðtalið fyrir birtingu.

 Sá sem síðast hlotnaðist þessi heiður hefur greinilega ekki þolað einnar og hálfrar stundar einræðuna. Við verðum nú að hafa skilning á því.

  Hinn ástkæri leiðtoginn okkar til margra ára, sá sem leiddi okkur af mikilli sannfæringu breiða veginn til glötunar er svo annar kapítuli út af fyrir sig. Hann hefur sömleiðis magnað óáranina með 
allskonar upphrópunum og fjölmiðlafári og er fjarri því, að þar grilli í lokin á ævintýrinu.

  Nú er hann kominn í alvöru stríð og ljóst að hann ætlar að hámarka það tjón sem hann getur mögulega valdið þessari ríkisstjórn, skrílsins og kommúnistanna. Það skiptir engu máli í þeim leik hvernig fer fyrir okkur vesalingunum sem berum auðvitað alla ábyrgð á völdum þessarra snillinga og borgum fyrir grínið.

  Ég verð að viðurkenna það, að ég óttast dálítið eitthvað sem hann er með uppi í ermunum.

 Ég hef samt engar áhyggjur af margræddum starfslokasamningum því  þeir Davíð og frammararnir
voru búnir að gulltryggja svo eftirlaunapakkann sinn, að það toppa það engir starfslokasamningar.

  Já, ég held að þeir Ólafur og Davíð hefðu ekki orðið góðir í að temja hunda.emoticon 
 

09.02.2009 09:29

Fjöllin og fjórhjólin.


  Mér finnst gott að hafa fjöllin nálægt mér.

 Þó að það kosti trúlega nokkra metra í auknum vindstyrk öðru hvoru.
Það róar mig ótrúlega niður á slæmum degi að virða fjallahringinn fyrir mér og rifja upp góðar stundir .

  Kannski er þetta vegna þess að ég er alin upp við fjöllin og þekki ekki annað. Kannski eru það genin úr Húnaþingi , Svarfaðadalnum og héðan af nesinu sem gera mig að þessu viðundri sem ég er en hvað um það.



                                       Svartafjall nær, Skyrtunna fjær

  Mér finnst ekki nóg að hafa fjöllin fyrir augunum og finna fyrir þeim þegar hvessir. Til að halda geðheilsunni þó ekki slakari en hún er, verð ég að komast á fjöll öðruhvoru.

  Næstu mánuðina verða það fjórhjól og sleðar sem bjarga málununum. Í júní er svo mikil törn í grenjavinnslu og girðingarvinnu. Haustinu fylgja svo miklar ferðir um fjöllin við að ná fénu til byggða.
  Þetta er ekki alltaf tóm sæla því þegar þokan og úrkoman læðist yfir í grenjavinnslunni fylgir því engin sælutilfinning. Nema fyrir rebbann sem getur óhræddur snuðrað í kringum mig í dauðafæri án þess að hafa áhyggjur.
Og leitirnar eru orðnar með öðru sniði nú, en þegar ég þrammaði um í eftirleitunum í allskonar færi og stóð varla í lappirnar þegar heim var komið. Þetta var þó á þeim árunum sem maður var þindarlaus og úthaldið eftir því. Á þessum árum lærði maður líka að veðurfarið gat verið talsvert annað eftir að komið var uppfyrir ákveðna hæðarlínu.


                         Hesturinn er alltaf flottur, sama hvaða hlið snýr að manni.
 Það var svo lagt á fjórhjólin í gær því snjósleðafærið er ákaflega dapurt þennan veturinn.



 Fjórhjólafærið var heldur ekki til að hrópa húrra fyrir og versnaði eftir því sem ofar í fjallgarðinn kom.



 Þegar mikið gengur á lætur oft eitthvað undan og það tapaðist loft úr dekki. Samstilltar björgunaraðgerðir skiluðu þó árangri og það náðist loftdæla á staðinn.


Það er svo ákaflega þýðingarmikið að umgangast fjöllin með þeirri virðingu sem þeim ber.

Því þegar þau bregða á leik með veðurguðunum er miskunnarleysið algjört.emoticon

08.02.2009 09:53

Þriðji gúrúinn og gjaldeyrismálin.



  Þeir klúðra þessu Svanur minn, þeir geta ekki annað sagði vinur minn sem ég hitti nýlega.

 Við vorum að ræða nýju stjórnina og þó ég beri nokkurn ugg í brjósti um það, að þessi minnihlutastjórn leiði okkur ekki út á rétta veginn tók ég samt ekki undir þetta og benti á að alla vega væri nú vinnufriður til að gera eitthvað.
 
   Vinur minn sem þrátt fyrir að vera gegnheill sjálfstæðismaður er eldklár náungi, og þó aðdáun hans á Davíð gegnum tíðina hafi verið mikil er hann löngu búinn að afskrifa hann í seðlabankanum.

    Það var svo þegar ESBið bar á góma  sem hann komst á flug, í framhaldi þess að ég sagðist nú bara vera hættur þessu búskaparbrölti ef við lentum þar inni.
   Nú væru menn enn á ný að ná áttum í þeirri umræðu, sagði gúrúinn og Samfylkingin sigi saman eins og sprungin blaðra ef skoðanakannanirnar sýndu lítinn stuðning við málstaðinn.



 Sauðfjárbúskapurinn færi trúlega skárst útúr ESB inngöngu.  Þessi ungi maður á kannski eftir að búa með 1.000 fjár einhverstaðar sem friður er til þess fyrir skógræktarmönnum.

  Og þegar ég benti á að gjaldmiðillinn væri óleyst vandamál og farið úr öskunni í eldinn að láta olíuverðið hjá norsurunum stjórna genginu, og Evran  trúlega eina vitræna lausnin( þó ég hafi ekkert vit á þessu) hnussaði í honum.

  Þetta ætti að leysa þannig að stjórnvöld gerðu ekkert í málunum, sem lætur þeim náttúrulega afar vel.
  Við hinir, hinn almenni borgari ættum hinsvegar að taka upp evruna í rólegheitum okkar á milli.
 Ég gæti til dæmis gert búið upp í evrum, gert upp launin í evrum annanhvern mánuð , hinn mánuðinn í ísl. kr. o.sv. frv.  Það er að vísu lítið um evruna í gangi hér í augnablikinu en þetta kæmi allt ef við höldum áfram að flytja út fyrir meira en við sóum í innflutninginn.

  Innan nokkurrra ára væri við svo bara komin með evruna sem gjaldmiðil og gætum síðan lifað hér í vellystingum praktuglega, frjáls og óháð með fiskinn okkar og landbúnaðinn og náttúrulega álverin, og allar virkjanirnar, komnar og ókomnar.

  Og þó íslenska landnámskýrin sé dálítið þung í rekstri borguðu menn glaðir með henni áfram í þessum sjálfsþurftarpakka eins og öllu hinu, í kerfinu. 

 Áfram Ísland.emoticon

  Það var  fallegt á fjöllum í gær.



 Eins og alltaf.emoticon 
   

 
Flettingar í dag: 1050
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579743
Samtals gestir: 52670
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:05:34
clockhere