03.10.2014 08:40

Sýnishorn úr stuttri glímu í Hafursfellinu.

  Ég hafði fylgst með einlembu í Þverdalnum nokkra daga og beðið eftir að það færi saman laus tími hjá mér og sú einlembda lækkaði sig í dalnum.


 Svo var það einn sunnudagsmorguninn að komið höfðu í dalinn tvær tvílembur í viðbót.  Voru rólegar framyfir hádegið svo hækkuðu þær  sig uppundir kletta austan Þverdalsins þá var ákveðið að taka létta æfingu með hundana og tengdasoninn.


 Þetta varð mikill sprettur inn hlíðina þar til hundarnir komust uppfyrir og inn fyrir hópinn.
 Fénu lá svo mismikið á þegar hundarnir beindu þeim niður. Einlemban og önnur tvílemban fóru á fullri ferð  .  Aðrir tvílembingarnir voru hinsvegar búnir að fá nóg af spretthlaupum og lögðust   báðir með um hundrað m. millibili.

Hin tvílemban , mórauð forystuær hafði hinsvegar tekið upp nýja varnaraðferð frá síðasta hausti þegar hún kom í fyrri leitinni og stoppaði ásamt lömbunum hvar sem hún fann barð eða stein sem hún sá skjól í.
Þegar búið var að koma forystunni og lömbunum tveim niður á jafnsléttu var farið að huga að þeim sem undan höfðu komist.


  Svona gengur þetta allt haustið . Svæðið dauðhreinsað í leitinni eins og núna en síðan kemur fé inná það einhverstaðar af fjallgarðinum , Sumt langt að komið.

28.09.2014 21:47

Smaladagur með hefðbundnum ævintýrum.

 Það var niðaþoka og rigning.  Smölunarverkefnið þennan daginn var vestanverður Núpudalurinn. Spáin var samt ákaflega jákvæð, lofað  að létta myndi til um kl. 10 - 11 samkvæmt fleiri en einum spámiðli.




 Hér erum við Iðunn að taka smá pásu áður en lagt er upp í Eyjalágarnar. Og það stóð á endum að þegar kom að gangnaskilum varð smalaljóst og þó þokan lægi niður í hlíðarnar var skyggnið þó í góðu lagi.

 Allt fullt af fé í Þórarinsdalnum en mæðgurnar Korka og Ronja  náðu strax tökum á  því og það rann mótþróalaust réttar götur yfir í Seljadalinn.


 Þar kom strax babb í bátinn.
 Þegar ég var að þvera hann mun ofar en venjulega, kem ég auga á kindur fyrir ofan mig.

 Neðst í þokunni alveg upp undir klettum .  

 Með viðeigandi munnsöfnuði snerum við Stígandi við, komum okkur í hvarf frá rollunum og lögðum á brattann upp skriðuna, upp á efsta hjallann í dalbotninum. Til að sjá kindurnar  þurfti ég að koma tíkunum yfir hæð fyrir ofan mig  en þar var svo gil milli kindanna og þeirra.

 Þar sem kindurnar höfðu séð mig tók ég ekki sénsinn á að tapa þeim upp í þokuna en sendi mæðgurnar út í þeirri von að þær myndu koma auga á féð um leið og þær sæu yfir hæðina.


 Það stóð á endum að þegar hæðinni var náð sá ég engar kindur en mæðgurnar hverfa í þokuna. 
 
Auðséð að þær höfðu náð að staðsetja kindurnar því báðar voru á fullri siglingu, Ronja  sem fer aðeins þrengra út var í trúverðugri stefnu og Korka talsvert meira til hægri.


 
  Það var ekki leiðinlegt að sjá þær birtast með dilkærnar á hárréttum hraða og með fulla stjórn á aðstæðum.



  Mæðgurnar stýrðu þeim svo af miklu öryggi niður á götu og segir ekki meira að þessum fénaði.


 Til að gera langa sögu stutta er ævintýrunum frá þessu þokudæmi  til innrekstursins sleppt, en ævintýrið á lokakaflanum á þjóðveginum var allavega myndað mjög rækilega af vel græjuðum asíubúum . Örugglega verið þeim dýrmætt myndefni emoticon .


  Hér er Hrossholtsmæðgur á síðustu metrum smalamennskunnar.



 Og Aron Sölvi  að koma lagi á  eitthvað sem er komið útaf götunni.



 Einhvernveginn tókst að hanna réttina þannig að það gengur alveg einstaklega vel að koma safni inn í hana. Engin brjálæðisköst tekin við það. emoticon



 Restin að koma sér innfyrir.



 Hér er Svandís Svava komin með smalastafinn og lögð af stað að finna hana Bíldu.



 Já, og þarna er hún út við grindina.



 Það tók rúma tvo tíma að renna safninu  um 500 fjár gegnum rögunarganginn en ein umferð dugði til að flokka þennan daginn. Sleppt úr honum í 3 áttir.

  Hér fyrir ofan er síðan verið að vigta og merkja það sem sleppur gegnum nálaraugað og verður ómskoðað og stigað.

 Það er næsta sauðfjárverkefni hér, Síðan  förgun, en allt sláturfé er tekið sama daginn. 

Svo byrjar nýr árhringur í sauðfjárbúskapnum emoticon.



10.09.2014 21:15

Alltaf jafn gott þegar menn, -nú eða hundar, sjá ljósið.

 Þegar regngallinn er orðinn staðalbúnaður í hundatamningunum er nokkuð ljóst að þurrkarnir eru ekki að valda neinum vandræðum. 

Reyndar hafði nú hvarflað að mér eftir góða kaflann í ágúst að þetta væri nú bara ágætis sumar, svona fyrir utan júlí náttúrulega. Það hvarflar ekkert að mér lengur og best að skrifa sem minnst um tíðarfarið svo hér verði ekki farið útfyrir almennar velsæmisreglur í lýsingarorðum. emoticon  

 Nú er allt að verða klárt fyrir smalamennskurnar sem fara að bresta á hvað mig varðar. Fyrsta leitin á föstudaginn og síðan verður eitthvað átt við kindur og fjöll flesta daga til 21 sept. Allt frá Norðurárdal norður á strandir. ( Samt ekki í sömu leitinni).

  Hestaferðin í ágústlok bjargar sálarlífinu vel, mjög vel fram að smalinu.

 Reyndar eru endalausar rigningar í kortunum en þeir sem kynnast ekki misjöfnum veðrum verða nú bara aumingjar.  emoticon  

 Það skiptast  líka á skin og skúrir í tamningunum . Í annað skipti á ferlinum upplifði ég dálítið kraftaverk fyrir nokkrum dögum þegar 14 mán. hundur sem búið var að afskrifa vegna algjörs áhugaleysis fyrir sauðkindinni, sá ljósið. 
 Nú stefnir hann hraðbyri í að verða sá snilldar fjárhundur sem hann átti að verða þegar eigandinn fjárfesti í honum sem hvolpi. 

  Það má segja ég hafi borið mikla ábyrgð á atburðarrásinn, því ekki var nóg með að ég ráðlegði eigandanum að kaupa úr þessu goti, heldur valdi ég hvolpinn úr systkinahópnum.

 Enda lá fyrir að næsta skref yrði áfallahjálp fyrir mig þegar við eigandinn komust að þeirri sameiginlegri niðurstöðu að það væri fullreynt, Tinni kallinn yrði ekki notaður við smölun.

  Ég var búinn að vera með hann tvisvar í vetur og það var nánast ótrúlegt að sjá hvernig hann einfaldlega sá ekki kindurnar. Alveg óhræddur við þær en áhugaleysið algert.

 Hinsvegar smalaði hann hinum hundunum af gríðarlegum áhuga og snilldartaktarnir í kringum þá voru algjört augnakonfekt.

  Það varð að samkomulagi hjá okkur eigandanum að Tinni yrði hjá mér í nokkra daga áður en málinu yrði lokað. Ég einfaldlega hvorki gat né  vildi trúa því að í hausnum á honum væri ekki allt sem þyrfti í góðan fjárhund, bara hvernig ætti að komast í það.

  Ég byrjaði strax að að einangra hann frá öðrum hundum, sleppti honum einum út og hafði hann einan með mér. 

 Sýndi honum kindur tvisvar á dag án þess þó að vera neitt að þrýsta á hann. Á sjötta degi  fór hann að sýna áhuga sem jókst síðan hægt og örugglega. 
 Reyndar leist mér ekkert  á taktana í honum fyrstu dagana og bölvaði mér oft fyrir að vera að standa í þessari vitleysu og tímasóun. 

  Svo fór ég að sjá það sem ég hafði átt von á í upphafi. 'A þessum myndbrotum sést hann tæpum þrem vikum eftir að ég byrjaði með hann. 

  sjá  H'ER

Vegna þess sem á undan var gengið er ekki notuð hefðbundin tamning á Tinna. 

Á myndbandinu er hann til dæmis sendur miklu lengra út en eðlilegt er miðað við hve tamningin er stutt komin. Enda eru bæði úthlaupin illa misheppnuð í tamningalegu tilliti.

 Þegar þetta myndband var tekið hafði ég aldrei reynt neina leiðréttingu eða ávitur enda gekk ferlið allt útá að vekja sem mestan áhuga á sem skemmstum tíma og  hundurinn mikið sjálfgerður. 

 Kæruleysið við úthlaupin komu til af því að ég veit að þessi hundur mun verða mjög öruggur í úthlaupum .

 Það eru svona dæmi ( og góðir draumar ) sem fylla mann bjartsýni og hamingju. emoticon

Þrátt fyrir rigninguna.
Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere