11.03.2010 21:45

Dagur í lífi bóndans.

 Þar sem hluti trölltryggra lesenda minna tilheyrir "malbiksliðinu" gætu þeir haldið að sveitalífið gangi út á það, að þessir bændaskarfar liggi á meltunni á milli þess sem þeir liggja í tölvunni.
 Kíkji í fjósið  einstaka sinnum  til að ýta á einhverja takka í lyklaborði.

 Sá hluti trölltryggra lesenda minna sem tilheyrir "dreifbýlispakkinu" veit hinsvegar að það er botnlaus þrældómurinn sem heldur sveitunum og trúlega skerinu öllu gangandi nú á þessum síðustu verstu. Eða ég vona það..

 Meira að segja krataliðið hefur ríkan skilning á því að rétt sé að stokka upp allt landbúnaðarkerfið til að gera þetta lífvænlegra fyrir hokrarana sem eru bundnir í " átthagafjötrunum"  á lúsalaununum sínum.. Og þeir vita nú um hvað málið snýst í sveitinni. Eða þannig.

 Dalsmynnisbændur voru mættir í fjósið kl.hálf sjö í morgun fullir af starfsorku.



Meðan sá eldri sér um mjaltir í 12 kúa mjaltabásnum fer sá yngri um með fjósaskófluna kemur kúnum í biðplássið, hreinsar básana o.sv. frv. Hann kemur síðan í mjaltirnar milli þess sem kálfum er gefið, farið yfir stöðuna í fóðurganginum og kjarnfóðurbásnum.

 Morgunverkunum lýkur með því að fé og geldneytum í gamla fjósinu er gefin morgungjöfin en sá hluti fjárins sem gengur í flatgryfju er með sjálffóðrun sem sett er í rúlla u.þ.b. tvisvar í viku.



 Nú er rólegt í fjósinu,engar nýbærur og engin í lyfjameðferð svo morgunverkunum er lokið um kl. 9.

Þá tekur við heilög stund hjá gamla bóndanum við fréttalestur á netinu, þar sem kaffibollinn er ómissandi hjálpargagn.
 Nágranninn mætti svo  í kaffi um hálf tíu og síðan var farið beint niður í byggskemmu að bagga hálm en ekki hefur gefið fyrir það þessa vikuna.
 Það liggur fyrir að afgreiða tvær stórar pantanir, aðra á morgun en hina um helgina. 



 Sem betur fer gat ég aðeins verið til hádegis því sveitarstjórnin mætti á fund niður í Laugargerði kl. eitt.
Þar var gengið um húsnæði og leikvöll og  reynt að forgangsraða viðhaldsverkefnum þessa árs en nú er rekstur skólans alfarið í höndum Eyja og Miklaholtshrepps.
Þegar verður búið að setja verðmiða á það sem við settum efst á listann verður haldinn annar fundur og reynt að púsla  framkvæmdunum við fjárhagsáætlunina.

 Það smellpassaði að böggun hálms og fundi lauk á sama tíma um hálf fjögur, svo ég gat aðstoðað við að vigta út bygg fyrir Dalsmynnisbúið á leiðinni heim.

Sem betur fer hafði Kolviðarnesbóndann vantað bygg síðan við sóttum síðast, svo það var til nóg valsað handa okkur í sekkjunarsílóinu.

 Hér er það að vísu hreppstjórinn á Þverá að sekkja við annað tilefni.

 Það passaði síðan að bæta á sig síðasta kaffibolla dagsins og renna yfir netfréttirnar áður en seinni umferð gegningavinnunnar hófst. Nú er tekin öfug röð, byrjað á að gefa í gamla fjósinu og síðan mjólkað og lokið öðrum fjósverkum. Þeim er oftast lokið um sjöleytið.

 Þetta var nú ekki alveg hefðbundinn dagur enda er nú  ekki tilbreytingarleysið sem  háir manni í sveitinni. emoticon 


 
 

09.03.2010 22:41

Heilsufarshugvekja mánaðarins.

 Fyrir margt löngu þegar maður var ungur og orkumikill og allt var svo miklu betra en gott, finnst mér að heilbrigði landans hafi verið með allt öðrum og betri hætti.

 Á þessum tíma lifðum við líka  mun fleiri á alvöru fæði, enda hesthúsuðu skerbúar tvisvar til þrisvar sinnum meira af spikfeitu lambakjöti per íbúa en í dag. Mjólkina drukkum við eins og vatn og smurðum hnausþykku smjöri ofaná hveitibrauðið okkar.

Og það var ekki búið að finna upp heilsuræktarstöðvarnar.

'A þessum tíma gekk árlega yfir landið, fyrirbrigði sem var kallað Flensan.

 Hún fór að stinga sér niður snemma árs og lauk sér af seinnipart vetrar.
Og einstaka maður fékk kvef ef hann ofmat sólin og ofkældist.

 Í dag er þetta þannig ef tveir menn koma saman er a.m.k annar þeirra hóstandi.

Ef hinn er ekki hóstandi er hann annaðhvort nýbúinn að ná sér eftir erfiða umgangspest eða á rétt eftir að fá hana.
 Og flensurnar koma hver á fætur annarri allt árið og eru misjafnlega krassandi.

Þær kröftugustu eru skírðar eftir stofnum í dýraríkinu sem fundu þær upp og komu þeim síðan í dreifingu hjá mannfólkinu. Svo sem fuglum og svínum.
 Þessar aumari flensur heita  einhverjum bók og tölustöfum enda gleymast þær jafnharðan og ný tekur við í flensuhringrásinni.
 Þar sem undirritaður heldur sig að mestu við alvörufæðið sem að ofan er lýst, er hann með afbrigðum heilsuhraustur (7-9-13) og verður lítið var við þessa óáran.

 Rétt er þó að taka fram að þegar hann veikist verður hann alveg ofboðslega veikur og lítill í sér.

En það er sjaldgæft.

Og það eru einhverjir áratugir síðan hann fór í flensusprautu, enda sprautunálar alltaf jafn ógnvekjandi.

 En nú lítur út fyrir betri tíð með blóm í haga.

Allt bendir til þess að þróun æseifruglsins síðustu mánuðina muni koma okkur a.m.k. 40 ár aftur í tímann.
 Þá er náttúrulega sjálfgefið að auka lambakjötsframleiðsluna sem getur orðið nokkuð sjálfbær þegar farið verður að beita skógarlöndin allt árið á nýjan leik í gjaldeyrisskortinum.

Og hóstinn mun hverfa og flensurnar halda sig utan landsteinanna hjá vonda fólkinu í Bretlandi og Hollandi. emoticon
Illþýðið á norðurlöndunum sem ekki vill lána okkur peninga nema með skilyrðum skyldi líka passa sig.emoticon 

 Og ástkær forseti vor losnar við hina hvimleiðu fjölmiðla sem eru sífellt að ónáða hann þessa dagana.emoticon 
 

07.03.2010 23:11

Fræðasetur, byggið og andleg heilsa bloggarans.

  Ég heyrði það útundan mér að mín heittelskaða var eitthvað að ræða andlegt heilsufar undirritaðs í áhyggjutón við dóttirina.

 Orsök þess að hún skyldi venju fremur hafa áhyggjur af óstöðugri geðheilsu minni var sú, að ég hef setið löngum stundum við tölvuna um helgina og horft og hlustað á margvíslega fyrirlestra frá nýafstöðnu Fræðaþingi Landbúnaðarins. Sjá hér 

 Upphaflega var ætlunin að sjá fyrirlestrana um nýtingu búfjáráburðar, en það endaði nú með því að ég sökkti mér niður í flesta fyrirlestrana og á eflaust eftir að fara aftur yfir suma.

 Ekki er ólíklegt að sumir fyrirlesaranna fái símtal í framhaldinu enda er þetta nú nokkurskonar skotleyfi á þá.

 Það er algjör snilld hjá bændasamtökunum að gera þetta svona.

 Þegar ég byrjaði í byggræktinni komst ég fljótt að því að þetta yrði enginn dans á rósum, og eftir fyrsta árið gaf  ég mér 4 ár til að ná tökum á ræktuninni svo hún skilaði einhverju.


Söðulsholtsdbóndinn kampakátur í Pilvíakrinumsínum sem gaf toppuppskeru bæði í byggi og hálmi.

 Þegar þau voru liðin var mér orðið ljóst að ég yrði seint ríkur á byggræktinni en hélt áfram að bíða eftir metárinu sem myndi rétta af meðaltalið.

 Það kom s.l. haust en þá var mér hinsvegar hinsvegar löngu orðið ljóst að það þyrfti fleiri og styrkari stoðir undir þessa ræktun ef hún ætti að lifa af á þessum veraldarhjara hér.

 Hrunið breytti mörgu og m.a. varð hálmurinn allt í einu orðinn því verðmætari sem innflutti spænirinn hækkaði í verði.

 Það kom reyndar á óvart að það þurfti að hafa nokkuð fyrir því að koma á viðskiptum með hálminn.

 Menn höfðu lent í allskonar hremmingum við hálmnotkunina fyrst og fremst fyrir það að gæðin voru afar misjöfn.

 En þolinmæðin þrautir vinnur allar og nú stefnir í að við séum komnir með viðskiptasambönd sem duga okkur þennan veturinn.



Við böggum hálminn úr rúllunum og hendum öllu vafasömu frá enda eru þetta kvörtunarlaus viðskipti.


  Á góðu hálmhausti stefnir í að hálmuppskeran muni verða verðmætari en bygguppskeran.

Gæsaveiðin kemur líka til með að vigta í dæminu og nú er stefnt að útleigu á ökrunum sem gæti jafnast á við leigu á lítilli bleikjuá.

                                  Svona hópur kemur blóðinu á hreyfingu í gæsaskyttunum.

 Gangi þetta eftir kemur áhættan til með að jafnast skemmtilega út.

Fjúki allt byggið niður verður góð gæsaveiði og hálmurinn ætti líka að nást.

 Náist þetta allt þá kemur góð uppsveifla á meðaltalið.emoticon

Það þarf að vísu nokkurra ára uppsveiflu til að rétta dæmið af.emoticon

En hvað eru nokkur ár á milli vina?emoticon

Flettingar í dag: 386
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 839
Gestir í gær: 59
Samtals flettingar: 573600
Samtals gestir: 52137
Tölur uppfærðar: 7.9.2024 12:47:51
clockhere