Færslur: 2010 Ágúst

30.08.2010 07:04

Æsispennandi fjárhundakeppni.

Það er alltaf mikið lotterí að taka þátt í fjárhundakeppni.

 Ef smalinn er eitthvað strekktur þá skynjar hundurinn það og stressast líka upp. Kindurnar taka þetta hvorutveggja inn á sig, en oft er ekki á vandamál þeirra bætandi.

En þetta er alltaf jafnskemmtilegt.

Stundum er tilfinningin sú að maður komist ekki í verðlaunasæti vegna þess hversu vel gekk, heldur gekk félögunum bara enn verr.

Eins og sést á dómblaðinu hér fyrir neðan, gengur keppnin út á það að 4 kindum er sleppt í 2 - 500 m. fjarlægð eftir því  hvaða keppnisflokkur er í gangi.

Hundurinn er sendur út á hægri eða vinstri hönd. Hann á að koma hópnum beina leið til smalans  í gegnum 1 hlið á leiðinni, reka hópinn í hálfhring afturfyrir smalann sem má ekki hreyfa sig frá þeim stað sem hann er á.
Síðan á hundurinn að reka hópinn " þríhyrninginn" , frá smalanum gegnum hlið, síðan þvert yfir brautina framan við smalann út um annað hlið þar.

 Síðan kemur hundurinn hópnum áleiðis að smalanum sem nú má loksins yfirgefa sinn stað.
Þar á hundurinn að sýna að hann geti haldið hópnum að smalanum og keppendur í A fl. eiga síðan að  skipta hópnum í tvennt.

Að lokum er hópnum komið inn í litla rétt.

Keppendur fá 15 mín. til að ljúka þessu.

Hundurinn leggur af stað í brautina með 100 stig sem síðan saxast á við refsistig sem hann fær fyrir allt sem úrskeiðis gengur í brautinni.



 Hér er dómblaðið fyrir Snilld í B fl. þar sem hún fær refsistig fyrir að koma hópnum af stað, koma með hann og reka þríhyrninginn. Þetta er sunnudagsrennslið þar sem hún stóð efst en henni gekk öllu verr á laugardeginum.

Það voru samanlögð stig tveggja rennsla sem giltu til úrslita.

                                              Unghundaflokkurinn. 
Helgi og Snúlla frá Snartarstöðum í 3 sæti með ? stig. Svanur og Dáð frá Móskógum 2 sæti og 128 stig. Gunnar og Ólína frá Hafnarfirði með 143 stig ásamt eiganda Ólínu.

Ég keppti með Dáð sem er nýorðin 2 ára í unghundunum og þó mér gengi vel þar með 59 stig fyrri daginn og 69 þann seinni var Ólína frá Hafnarfirði og Gunni Guðm. mun betri . Ólína átti algjört snilldarennsli seinni daginn með 84 stig af 100 mögulegum. Það var sérstaklega frábært hjá þeim vegna þess að þarna er á ferð maður sem hefur aldrei átt kind.
Hundarnir í þessum keppnum eru sífellt að verða betri, sérstaklega í yngri flokkunum, enda eru að koma sterkir inn hundar út af hundum/tíkum sem flutt hafa verið inn síðustu árin og eru greinilega að bæta ræktunina. 

                                                B.flokkur.
 Halldór á Súluvöllum og Spori frá Breiðavaði með ? stig og 3 sæti. Svanur og Snilld frá Dýrfinnustöðum með 126 stig  2 sæti og Lísa og Skotta frá Daðastöðum í 1 sæti með 135 stig.

 Síðan var ég með Snilld 3 ára í B fl. þar sem hún var í öðru sæti. Það var sérstaklega ánægjulegt því Snilld er ekki mjög góður keppnishundur að upplagi.
 Vinnuáhuginn er gríðarlegur og í svona hasar getur allt farið úr böndunum.

Fyrir ári síðan fór ég með þessar tíkur í unghundakeppnina á laugardeginum en þá voru þær 1 og 2 ára. Þá lauk ég hvorugu rennslinu þar sem stefndi í átök við erfiðar kindur sem mér fannst ekki tímbært fyrir þær þá. Nú myndu þær höndla slíkar aðstæður.

Allt um Smalahundakeppnina  Hér.

27.08.2010 19:29

Glænýr hundur í sveitina.


Það er ekki óalgengt að þéttbýlisbúinn verður sér úti um hvolp  til sálubótar og skemmtunar.

 Þetta gengur oft býsna vel til að byrja með en því miður verður hvolpurinn á endanum stór.

Og þá byrja stundum vandræði.

Einhverra hluta vegna verð ég svo var við ótrúlegan fjölda slíkra vandræða.

 Þeir eru orðnir býsna margir hundarnir sem ég hef tekið og reynt að gera eitthvað úr með misjöfnum árangri.

Nú er ég hættur því nema í algjörum undantekningartilfellum.



 Þetta er hann Tinni frá Staðarhúsum og hann er nýjasta dæmið um slíka undantekningu.

 Ég hélt nú að hann væri gjörsamlega heyrnalaus í upphafi en trúlega hefur hann ekki skilið sveitamálið.

 Allavega er hann kominn með ágæta heyrn og er trúlega bara hlýðinn að upplagi.



 Hann er orðinn mjög áhugasamur um kindurnar og hér er hann í einum af fyrstu æfingunum, mjög yfirvegaður og áhugaverður nemandi.



 Hann er með góða fjarlægð og þó hann sé enn dálitið heftur í skilningnum lítur þetta allt vel út.



 Þetta er nú í plati því ég er ekki farinn að kenna honum að reka enn.



 En það er alltaf eitthvað, því þegar hann kom stakk hann aðeins við á öðrum framfæti.

Þetta er svo heldur að ágerast og nú er kennslu hætt í bili þar til búið verður að greina hvað er að.

 Þetta hundablogg er svo bara til að koma ykkur í hundastuð, því ekki er ólíklegt að næsta blogg verði um æsispennandi fjárhundakeppni sem verður við Blönduós um helgina.emoticon
Hér fyrir neðan sjáið þið hvað er glímt við þar.

24.08.2010 22:17

Kúanördabloggið.

 Nú er rólegt yfir mjólkurframleiðslunni hér.
 
 Hinsvegar hefur refsiglöðum stéttarbræðrum mínum tekist að rugga bátnum rækilega og hleypt af stað mikilli umræðu með því að herja út margrætt frumvarp til að herða á kvótaruglinu.  

 Engu ætla ég að spá um hvernig sú umræða endar en hún er afspyrnuslæm fyrir stéttina.

 Vegna mikilla anna á haustmánuðum  er kúaburði mjög stillt í hóf þessar vikurnar þar til síga fer á október.

 Nú stendur því yfir rólegasti tími fjósaverka og rólegheitin eru algjör þegar heilbrigðið er frábært og allt gengur vel.
Hér er ekkert stólað á beit núna, heldur er gefið inni en flestum kúnum hleypt út til málamynda.

  Þó nautgriparæktin sé aftarlega á áhugalistanum hjá mér og blessuð landnámskýrin sé ákaflega lágt skrifuð sem framleiðslutæki ætla ég að segja eitthvað fallegt um nokkrar kvígunar á bænum.

 Það er öllum hollt að leggja eitthvað á sig fyrir heimilisfriðinn.


 
 Þetta er hún Vanja no. 106 Hræsingsdóttir. Hún skilaði 6266 l. á sínu fyrsta mjaltaskeiði.
Skapgóð og þokkaleg í mjöltun þó júgrað sé dálítið svona landnámskúalegt.



 Álfadís  108 er enn mjólkandi en komin í um 6.200 l. Hún er undan Jaxl og fín í skapi, aðeins mismjólka og síðan er 1 varaspeni að hætti l..............


Lissý 102 er undan Stássa og skilaði 5450 l. Hún er stygg og vör um sig og kastar gjarnan af sér vatni við mjaltir sem þykir ákveðinn galli hér . Í lagi að öðru leyti.



 Þetta er hún Linda 117 undan Hræsing. 5150 l. kvíga. Afspyrnuróleg og yfirveguð og góð í mjöltun.

 Af alþekktri tillitsemi við íslensku landnámskúna ætla ég svo að ljúka þessari nördaskýrslu hér.emoticon

 
Flettingar í dag: 248
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581711
Samtals gestir: 52779
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 02:36:21
clockhere