16.03.2012 12:26

Dýravernd og skepnuskapur.

  Ég tautaði nokkur óprenthæf orð , stoppaði skítmokstursvélina og gróf hringjandi símann upp úr vasanum.
 Kynnti mig og beið eftir að hringjandinn segði eitthvað. Það varð nokkur þögn eins og oft þegar hringt er í mig af einhverjum í fyrsta sinn, því hringitónninn hjá mér er algjörlega sérstakur.
 
 Þetta var ung kona sem kynnti sig og sagðist vinna á Rás tvö. Hún var ekkert að eyða tímanum í að spyrja hvort hún væri að trufla mig, þrátt fyrir vélahljóðið og  að kl.var 1/2 11 á mánudagsmorgni.

 Sagðist hafa verið með nýkjörinn formann Dýraverndarfélags Íslands í morgunspjalli og hún hefði m.a. sagt að á landinu væri rekið a.m.k. eitt "verksmiðjubú"í hundaframleiðslu.

 Formaðurinn hefði nú ekki sagt hvað bú þetta væri en hefði örugglega átt við hundaræktina hjá mér.

Ég hafði nú reyndar heyrt þetta morgunspjall og hefði alveg getað rætt ýmislegt sem þar kom fram en það var greinilega ekki í boði.

 Það sem ég velti fyrir mér var, hvort ég ætti að leiðrétta þennan misskilning sem þarna var á ferðinni eða skemmta mér aðeins við að ræða "hundabúið " hjá mér. Ég myndi geta gert lítið úr umsvifunum, fáar tíkur í ræktun og erfitt að halda því fram að þetta væri nú verksmiðjurekstur. Það mætti gera lítið úr eftirlitsþörfinni hjá mér og mikið úr ruglinu í þessu"gæludýraliði".

 Hún ætti að kynna sér spjallþráðinn á gæludýravefnum og velta fyrir sér í hvað heimi notendur hans lifðu o.sv. frv.

Þó ég sé enn að velta því fyrir mér hvernig þetta viðtal hefði getað þróast er ég samt feginn að skítmoksturinn var tekinn framyfir frægðina, enda alvörumál á ferðinni. Ég  benti því viðmælandanum á með nokkrum semingi að hún væri að tala við vitlausan mann í vitlausu Dalsmynni.

 Síðan hefur eitt og annað skotist fram í harða diskinum hjá mér um dýraverndarmál í gegnum tíðina.

 Ég minntist þess að mörg snerran var tekin við þáverandi formann dýraverndar í upphafi fjárhundakeppna en þó fyrst og fremst vegna sýninga á fjárhundum, smala nokkrum kindum á landbúnaðarsýningum og þ.h.


 Fjárhundasýning á landbúnaðarsýningu. Til að sýna hversu fyrirhafnarlaust þetta er, var undirritaður með kaffikrús í hendi.

 Það átti að vera vond meðferð á kindum og við rollufólkið hugsuðum til fjárleita og almenns fjárrags (því erfitt er að eiga nokkuð við blessaða sauðkindina þannig að henni líki það vel ) þegar " Dýraverndarfélag Íslands " eða reyndar þáverandi formaður þess beitti sér af miklu harðfylgi til að stoppa þessa ósvinnu af.

Ég velti fyrir mér hversu andstætt það er dýravernd, að við sem stöndum í dýrahaldinu í þessu strjálbýla landi, megum ekki lengur hafa nauðsynlegustu lyf undir höndum til að bregðast við júgurbólgu og öðrum meinum sem hrjá bústofninn án þess að gera boð á undan sér. Að þurfa að ræsa út dýralækni í kannski 50 - 100 + km. fjarlægð til að staðfesta það að greining bóndans sé hárrétt, til að fá hjá honum sýklalyf  í  meðhöndlunina var stórt spor afturábak með líðan dýranna í huga. Hvað ætli það sé algengt að skepna með ígerð í fæti ( eða e.h. enn verra) fái að haltra um þar til dýralæknirinn " er á ferðinni"?  Til að kóróna meðferð á búpeningi var dýralæknakerfinu kollvarpað, þannig að nú eru til héruð sem varla eða ekki er hægt að tala um dýralæknaþjónustu.

 Dýraverndarumræðan er þörf og reyndar bráðnauðsynleg en þar eins og allstaðar annarstaðar eru öfgarnar málstaðnum aldrei til framdráttar.
 Það rifjuðust m.a. upp fyrir mér tvær sögur sem eru dagsannar og ekki mjög gamlar.

Í báðum tilvikum var um að ræða háaldraða ketti, læður.

Önnur þeirra var farin að fóðrast illa og ekki nóg með það heldur var hún  tekin upp á því að steinhætta að nota sandkassann sinn, þannig skildi hún þvag og skít eftir víðsvegar um íbúðina í algjöru skipulagsleysi.
 Eftir mikla og sársaukafulla umræðu varð niðurstaða eigendanna  sú að öllum væri fyrir bestu að láta svæfa læðuna.
 Það var farið á dýralæknastofu þar sem fyrir var ung kona sem hlustaði á eigandann rekja raunir sínar. Dýralæknirinn skoðaði læðuna í bak og fyrir sagði hana að vísu gamla og meltingin eitthvað að láta sig og trúlega komna með svona kattaalsheimer, þannig að hún myndi ekki hvar kassinn hennar væri.  Það væri nú samt algjör óþarfi að rjúka í að svæfa hana.
 Eigandinn sem hafði verið miður sín yfir erindinu fór heim með kisuna enn meira miður sín yfir málalokum.

Í hinu tilvikinu var gamla læðan líka farin að fóðrast illa og var orðin steinblind.
Eigendurnir tóku það nærri sér að sjá hana hætta að þrífast og enn sárara var að sjá hana ganga á lokaðar hurðir, stólfætur o.sv. frv.
 Og það var tekin sú erfiða ákvörðun að fara með hana í svæfingu.

Þar endurtók sig sama sagan og hér að ofan.


Rétt er að taka fram að ég veit ekki hvaða dýralæknar stóðu dýraverndarvaktina þarna, né hvort þetta var sama eða sitthvor stofan.

 Og eins og allir vita er ég með afbrigðum hógvær og orðvar maður og passa mig vandlega á því að hafa ekki skoðun á nokkrum sköpuðum hlut.

 En ég er nú samt þeirrar skoðunar að svona " dýralæknar" eigi ekki að hafa leyfi til að meðhöndla dýr.

10.03.2012 21:13

Þegar öll dýrin í skóginum urðu vinir í Laugargerði í dag.

Árshátíð Laugargerðisskóla var haldin með glæsibrag í dag. Dýrin í Hálsaskógi sett á svið og veisla á eftir að hætti nemenda, kannski með smááhrifum frá mömmunum.



 Formaður nemendaráðs, hún Ingibjörg Jóhanna á Snorrastöðum setti hátíðina af mikilli röggsemi.



 Hér eru þau Mikki refur ( Valgý í Laugargerði) og Lilli klifumús (Tumi í Mýrdal) að ræða landsins gagn og nauðsynjar.



 Og íkornarnir, þær Steinunn á Miðhrauni 2 og Helga á Lágafelli höfðu sitthvað til málanna að leggja.

 Hérastubbur bakari ( Guðný á Eiðhúsum ) og sérlegur aðstoðarmaður( Selma á Kaldárbakka)
fóru á kostum við baksturinn.



 Amma skógarmús ( Inga Dóra á Minni-Borg) söng eins engill fyrir okkur.



Marteinn skógarmús (Vildís í Hítarnesi ) og Lilli klifurmús (Tumi í Mýrdal) fara yfir friðarsáttmálann.


 Bangsapabbi (Ársæll í Ystu-Görðum) stjórnaði friðarfundinum mikla og svo urðu öll dýrin í skóginum vinir.


 Húsamúsin (Jóna María í Mýrdal) sem er  svo heppin að hafa söngröddina hennar móður sinnar söng fyrir okkur af mikilli snilld.


 En bændurnir eru alltaf samir við sig og hér klófestu þeir (Jófríður í Hömluholti og Ragnar á Jörfa) litla bangsann.



En það tókst að bjarga honum með samstilltu átaki og leikararnir fengu óspart lof í lófa að lokinni sýningu.

Alltaf betra þegar allir eru orðnir vinir eða þannig..

06.03.2012 21:41

Hundar, kennsla og skemmtilegar tilviljanir.

 Ef nokkra skemmtilegar tilviljanir rekast á, fer ekki hjá því að eitthvað skemmtilegt gerist.

Þegar dóttirin birtist óvænt með alvöru myndavél og hitti á snilldar smala vera að temja frábært fjárhundsefni með afbragðs kindum fór ekki hjá því að til yrði fullt af skemmtilegum myndum.(Hlutlaust og óvilhallt mat á myndefninu.)



 Svona er byrjað með hvolpinn. Látinn reka hópinn á eftir manni í hæfilegri fjarlægð og réttum hraða. Stoppaður af eða hægt á honum með skipunum eða flauti.



 Ég er oft spurður að því hvernig í andsk. hægri/vinstri skipanir séu kenndar.
 Svona, kindunum sleppt framhjá( hér til hægri frá Korku séð)  um leið og " Hægri " skipun er gefin og hvolpur með rétt smalagen fer að sjálfsögðu fyrir.(Hvort sem skipunin er gefin eða ekki.).



 Það er þessi áhugi sem við sjáum hér hjá Korku, sem er algjör forsenda þess að ég geti gert eitthvað úr henni.
Umbunin sem hún fær þegar rétt er gert, er að fá að halda áfram að vinna, annars stoppuð..



 Dáð verður að láta sér nægja að fylgjast með og fær að grípa inn í ef eitthvað fer úrskeiðis. Það gerist ekki með þessum nemanda.



 Þarna hafði helv. húsbóndafíflið tafið fyrir henni svo kindurnar sluppu út um hliðið á leið heim. Gaman að sjá  hvernig hún gýtur augunum á hópinn þegar hún tekur góðan sveig framfyrir hann.



 Korka frá Miðhrauni er undan Tinna frá Staðarhúsum og Tátu frá Brautartungu.


 Alveg eins og snýtt útúr nös á föður sínum í útliti og í tamningarvinnunni.



 Eftir kennslustundina hafði hún enga þolinmæði við fíflalátunum í hálfssystur sinni henni Dívu Tinnadóttir. Stundum hálfþreytandi þessi yngri systkini.



 Svona litu þær systur út eftir að sú litla hafði fengið sína lexíu, sem er nú  ekki eftir þeim mjúku uppeldisfræðum sem margir tileinka sér í dag.
Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere