Færslur: 2013 Febrúar

28.02.2013 22:24

Grunnstigið og öldungadeildin.

 Það er dálítið magnað að vera í hlutastarfi við að temja fjárhunda og greinilega löngu tímabært.

 Vægast sagt fjölbreytilegt og skemmtilegt eins og nemendahópurinn er núna.
Reyndar er ég þeirrar skoðunar og ligg ekkert á henni, að léleg eða skemmd eintök eigi ekki erindi til mín eða annarra sem gefa sig út í tamningu.
Ljótt að segja það, en ákveðið hlutfall af BC' unum geta bara ekki orðið góðir fjárhundar.



 Þessi grind er algjör snilld í þessari vinnu. Mér líkar þó ekki að vera með kindur inni í henni, en að vinna í kringum hana með byrjendurnar er bara algjör bylting miðað við fyrri vinnubrögð.

 Inniaðstaðan gjörbreytti algjörlega þessari vinnu og nú fer ég ekki út með hundana fyrr en þeir eru með stoppskipunina á hreinu og farnir að átta sig á hægri og vinstri skipunum

 Og þetta kemur ótrúlega hratt í þessari aðstöðu.


 Þó myndin beri það ekki með sér er Spaði eins og tifandi tímasprengja vegna gríðarlegs vinnuáhuga.
  En hlýðnigenin hafa nú oftast yfirhöndina og samkomulagið er hávaðalaust hjá okkur.
 

 Ég er með 3 Tinnaafkvæmi í tamningu og það fjórða í fæðingarorlofi. Hér er Spaði í lága gírnum og farinn að læra rekstur eftir tæplega tveggja vikna tamningu. Feikilega áhugasamur og eiginlega frábær í alla staði.- í alvörunni.

 Systir hans hún Díva er fyrst að fá áhugann núna og hefur lægsta spágildið af þeim systkinum.



 Smali  Tinnason frá Miðhrauni er dálítið öðruvísi karakter yfirvegaðri, enn ákveðnari og líkur föðurnum með að þurfa að heyra skipunina 2 - 3 áður en hann hlýðir og tekur alltaf 2.- 3 skref áður en hann hlýðir stoppskipuninn.



 Og Korka alsystir Smala sinnir hvolpunum sínum þessa dagana en hennar tími kemur.

Það verður þeim systkinum sameiginlegt að litlar líkur eru á að  kindur sem þau ná að staðsetja og komast í færi við í framtíðinni, verði skildar eftir.



Þetta himpingimpi hér er bara 8 mán. og  komin með viku tamningu. Hún var talsvert baráttuglöð og vígreif til að byrja með en áttaði sig fljótt á um hvað málið snerist, og hefur fengið að spreyta sig úti tvo síðustu dagana. Mikill áhugi og hlýðnigenin ágætlega virk eftir að búið var að ræsa þau.
 Þetta er svo fyrsta, en ekki síðasta  Taff´s afkvæmið sem ég mun föndra við.



 Þrátt fyrir biðlista á grunnstiginu stóðst ég ekki freistinguna og hér er fyrsti nemandinn í öldungadeildinni.

Djöf, vildi ég vera að byrja með hana núna ef hún væri svona þremur árum yngri.


22.02.2013 21:31

Að fara algjörlega í hundana .- Whiskýið og bjórinn.

 Eftir að hafa farið endanlega í hundana fyrir ekkert svo mörgum árum var stundum tekinn hundur í grunntamningu eða einhverja lagfæringu, ýmist fyrir kunningskap eða eitthvað málamyndagjald.

 Oftar en ekki varð svo ekkert úr tamningardýrinu og lagfæringarnar gengu til baka þegar kvikindin komu til síns heima aftur.

 Svo það var lokað í rólegheitunum á þetta.

Það hefur þó alltaf blundað í mér að gera bissnis úr þessu en að þurfa að treysta á vetrarfarið til útivinnu með hunda og fé er ekki árennilegt á Nesinu veðursæla.

Sumrinu tímdi ég svo ekki að eyða í svona djobb.


  Ein tamin og 6 nemendur í gönguferð dagsins. Einn þessarra nemenda hér er að vísu kominn í fæðingarorlof og síðan er einn fjarstaddur.

 Nú er hinsvegar allt að gerast í málaflokknum.

Í fyrsta lagi eru komnir viðskiptavinir sem tíma að borga fyrir tamningavinnuna ásættanlegt verð.

Í öðrulagi hafa framkvæmdir síðasta árs létt umtalsvert vinnu við daglegar gegningar.

Og í þriðja lagi og það skiptir alveg sköpum í málinu, kom útúr þessum framkvæmdum öllum, nothæf aðstaða til að vinna við hundana innanhúss ef/þegar lognið á Nesinu færi yfir ákveðin hraðamörk.




 Í dag er verið að vinna í 6 tilvonandi fjárhundum og þetta gengur framar öllum vonum.


Smali frá Miðhrauni  er fyrir löngu kominn á útivinnustigið en ágætt að skerpa á ýmsum skipunum inni, þegar þannig viðrar

Sé horft á þetta með augum verkkaupa, sýnist mér, ef tamningardýrið er óskemmt og vel ræktað, sé ekki spurning um að þetta er góð fjárfesting ef eigandinn einhverra hluta vegna temur ekki sjálfur.

 Um leið og þarf að fara að leggja vinnu í að laga eitthvað eða nemandinn er ekki gott efni að upplagi, fer spurningamerkjunum að fjölga um hvað borgar sig.

 Það er líka mikill munur á því að fá hund í tamningu( eða á námskeið) sem hefur verið alinn upp í guðsótta og góðum siðum, hlustar á mann og kann helstu hundasiði eða hinn sem hefur verið gefið að éta tvisvar á dag og síðan látinn ala sig upp sjálfur.

 Kannski bundinn úti allan daginn.


 Velheppnaður hvolpahittingur hjá Smalahundadeild Snæfellinga í feb. 2013

 Þó ofsagt sé, að ég sé með puttann á púlsi fjárhundaeigenda landsins þekki ég pínu vel til hér og þar.
 Það er umtalsverð vakning á því hjá sífellt fleirum að koma sér upp góðum hundi  og þeir eru sem betur fer  fjölmargir sem eiga góða eða frábæra hunda og eru velfærir um temja hundana sína sjálfir.


    Vaskur að sópa niður eftirlegukindum ú Hafursfellinu.

 Þeim fjölgar síðan svæðunum þar sem byggðin er með þeim hætti að það er gjörsamlega vonlaust að halda sauðfé nema með öflugum fjárhundum.


Já, þeir sem eru lunknir við að temja fjárhunda ættu að skoða það sem hlutastarf á ákveðnum árstímum.

 Ágætt til að fjármagna Whiskýið og bjórinn.

Og náttúrulega konudagsgjöfina fyrir hæstráðandann.

18.02.2013 20:00

Að láta gamlan draum rætast.- og sjá kraftaverk gerast.


  Það er nú ágætlega hátt til lofts en ekki neitt rosalega vítt til veggja í" nýju " (eldgömlu) tamningarhöll Dalsmynnis sf.



 Mér finnst þetta samt alveg gríðarlega flott aðstaða og nú séu mér loksins allir vegir færir í að gera góðan fjárhund úr göldum hvolpi á ásættanlegum tíma.



 Þó það sé nú eins og fyrri daginn  að  ég er auðvitað alls ekki dómbær á eigin getu í málaflokknum.



  Þó mér finnist nú best að vera einhversstaðar undir beru lofti á víðáttumiklu svæði, er orðið ljóst að það er ekkert mál að vinna stóran hluta grunnkennslunnar í þessari aðstöðu.



 En eins og alltaf, verður að gæta þess að halda fjölbreytileika/skemmtilegheitum  og gera vinnulagið ekki  of þröngt í innivinnunni.



 Ég hef aldrei áður haft eins mikið umleikis í hundatamningum og síðustu 2 vikurnar og þetta er ekki leiðinlegt enn sem komið er.

 Þó nemendahópurinn sé ekki alveg fullkominn eru þarna virkilega góð og skemmtileg efni og engin leiðindi í gangi.


Það var óvanaleg og rosalega skemmtileg upplifun í dag, að horfa uppá 15 mán. dýr sem nánast sá ljósið í kennslustundinni. Breyttist úr gjammandi taugaveiklun framaní kindunum í ágenga yfirvegaða tík sem óð viðstöðulaust framaní kindurnar ef þær ógnuðu henni.

 Ég á von á því að sjá  vinnulagið breytast hratt næstu dagana úr hálfgerðum leikhasar í alvöruvinnu að hætti foreldranna, sem mun fullkomna kraftaverkið. 7- 9- 13.

 Þetta var ekki seinna vænna hjá dömunni, því það var farið að styttast í annan endann á skilorðinu.

 En ég er varla farinn að koma við jörðina ennþá.
Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581523
Samtals gestir: 52773
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 01:30:56
clockhere