03.02.2010 22:19

Hrossaræktin og hugarvílið.


 Ég var að velta því fyrir mér í dag, hversu áhyggjulaust lífið var áður en ég ákvað að fara að fikta við hrossarækt á gamals aldri.

 Það eru svona 5 ár síðan. 

 Í ræktunina skyldi notuð miðaldra hryssa sem hafði verið tamin og notuð til reiðar eftir þörfum, en hafði reyndar verið frekar verklítil í nokkur ár eins og altítt er með hross á Íslandi.

Bæði tamin og ótamin.

 Ég lagði nú ekki miklar pælingar í stóðhest handa hryssunni heldur hringdi í vin minn norður á Blönduósi og spurði hvort ég kæmist ekki að með hryssuna undir stóðhestinn hans.


 Funi Parkersson kom út úr því. Hann er á fjórða vetur og gaman að vita hvað verður úr honum.

 Næsti stóðhestur var líka fljótvalinn því ég hafði verið að temja tík fyrir vin minn norður í Skagafirði
og reynslan hefur kennt mér það að ég mun aldrei verða ríkur á hundatamningum.

 Þessvegna hélt ég hryssunni minni undir stóðhestinn  á þeim bæ.



 Taktur Hágangsson kom út úr því. (Sá aftari.)

 Nú fór ég að átta mig á því að hér dugði ekkert kæruleysi og strax uppúr áramótum 2007/8 hófust miklar pælingar og stóðhestagrúsk.

Þar sem hryssan er alhliða kom ekkert til greina nema öflugir fjórgangshestar með mikinn vilja og rými. Þegar þeir fundust þurfti að skoða baklandið. Það háði mér náttúrulega talsvert í þessu að ég hef ekkert vit á hrossum og hef þar að auki ekkert fylgst með hrossarækt í þó nokkra áratugi.



 Dökkvi Eldjárnsson kom  í heiminn í framhaldi af þeim pælingum.

 Til að auka enn á vandamálin  var ákveðið að koma upp stóðhestagirðingu á bænum síðastliðið sumar í samstarfi við hestamiðstöðina.
Þar yrði undaneldisgripurinn að sjálfsögðu að mæta með sínar níur fyrir tölt brokk geðslag og fegurð í reið.



 Það var síðan Sigur frá Hólabaki sem fékk heiðurinn af að vígja girðinguna.

 Og nú eru pælingarnar fyrir sumarið í algleymingi og legið yfir myndböndum, dómum og ættfræði.

Í þetta sinn á  helst að nota fimmgangshest en þó linan í vekurðinni því níurnar eiga helst að sjást í alvöru gangtegundunum. Það er verið að raða upp listanum og viðræður hafnar.

 Hryssan sem ég á þriðjungs hlut í og komið að mér að setja undir hest, er svo alveg eftir, meðeigendum mínum til mikillar hneykslunar.

Ég er nefnilega karlmaður og get bara gert eitt í einu.emoticon 

Og afskaplega glaður yfir því að eiga ekki svona 10 ræktunarhryssur.emoticon

 

01.02.2010 23:39

Laugargerðisskóli. Samið um reksturinn.

 Það hefur gengið upp og ofan að berja saman saminginn um rekstur  grunnskólans í Laugargerði.

 Ef það er mælikvarði á gæði samnings að báðir samningsaðilar séu óánægðir, verður þetta trúlega að teljast nokkuð góður samningur sem undirritaður var í Laugargerði í dag.


Eggert Kjartans oddviti Eyja og Miklaholtshrepps og Páll Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar
undirrita samninginn í Laugargerði í dag.

Eyja- og Miklaholtshreppur tekur að sér samkvæmt þessum samningi að annast menntun grunnskólanema úr gamla Kolbeinsstaðarhreppnum í Borgarbyggð með samsvarandi hætti og hingað til hefur tíðkast í samstarfi sveitarfélaganna á vegum byggðarsamlags um Laugargerðisskóla.


 Þá hafa börn úr Kolbeinsstaðarhrepp aðgang að leikskóladeildinni í Laugargerði eins og verið hefur.

 Hvort sveitarfélag fyrir sig sér um akstur nemenda úr sínu sveitarfélagi og Borgarbyggð ber kostnað vegna sérkennslu og annarrar sérþjónustu sinna nemenda.


                                         Samningurinn  handsalaður.

 Samningurinn er aðeins til 5 ára með endurskoðunarákvæði eftir 3 ár sem er ekki gott miðað við um hvaða málaflokk er að ræða. Menntun grunnskólanemenda er fjöregg sem sveitastjórnarmenn ættu ekki að henda milli sín á hlaupum.

 Þessi samningur þýðir verulega aukin útgjöld fyrir Eyja og Miklaholtshrepp og mun eflaust þýða nokkra uppstokkun á rekstri skólans og sveitarfélagsins næstu árin.

 Vegna þessa er ólokið vinnu við rekstaráætlun yfirstandandi skólaárs og verður drifið í að ljúka því.


Bæjarstjóri Borgarbyggðar ásamt fráfarandi fulltrúum í rekstrarnefnd þeim Jónasi á Jörfa. Ásbirni í Haukatungu og minnihlutamanninum honum Finnboga Rögnvalds. Þeirra verður allra sárt saknað á vesturbakkanum. Reikningshaldari skólans , Sigrún á Hlíð t.h.

 Sveitarstjórn Eyja og Miklaholtshrepps mun taka yfir störf rekstrarnefndar skólans til að byrja með.

Þar mun fulltrúi Borgarbyggðar eiga sæti með málfrelsi og tillögurétt og fulltrúar kennara og foreldra sitja fundi með sama hætti og í fræðslunefnd áður.

Segið svo að kreppan komi ekkert við okkur í sveitinni.


 

31.01.2010 23:33

Hvolpahittingur ársins.

Það mættu 10 tilvonandi smaladýr í höllina, á aldrinum tæplega 4 mán til 1 1/2 árs.

 Byrjað var á að kanna hversu vel hafði verið staðið að uppeldinu á þessum væntanlegu smalamaskínum, hvort þeir teymdust vel, gengju við hæl, leggðust , biðu samkv. skipun og.sv.frv.

 Þetta leit bara vel út og greinilega liðin tíð að menn láti hvolpana ala sig upp sjálfa þar til kemur að fyrstu smalamennskunni.

 Þegar hvolpar á þessum aldri mæta á svona samkomu skiptast þeir gjarnan í 3 flokka eftir að rolluprufunni lýkur.

 Einhverjir eru ekki komnir með neinn áhuga á kindum enn, sem á oftast eftir að breytast þó alltaf finnist dæmi um ágætlega ættaða hvolpa sem fá aldrei rétta vinnuáhugann.

 Sumir eru síðan orðnir býsna borubrattir en þeir eru ekki í vinnuhugleiðingum, heldur að leika sér að verkefninu og þurfa gjarnan að bíða eitthvað eftir að borgi sig að setja þá í kindavinnunámið.

 Þriðji hópurinn er síðan orðinn klár í námið, kominn með rétta vinnuáhugann sem á þó stundum eftir aukast áður en lýkur.



 Þessi litla tík sem var yngst í hópnum, ekki orðin 4 mán, kom skemmtilega á óvart.
Aldrei séð kindur áður en snögg að átta sig á að þessi fyrirbrigði væri rétt að stoppa af.



 Fallegur sveigur fram fyrir þær og svo var stoppað. Þetta endurtók hún, svo ekki fór á milli mála að það leynast einhver nothæf gen í henni. Kannski vegna þess að hún á langömmu í Dalsmynni sem heitir Skessa.



 Terrý frá Hrossholti kom vestan úr Reykhólasveit í djammið á Nesinu. Hún lenti í miklum ævintýrum fyrr um daginn en slapp ekki við reiðhallartímann að þeim loknum. Hún er árinu eldri en frænka hennar hér fyrir ofan og lumar vonandi á nokkrum ömmugenum.



 Hér gera Hraunholtabóndinn og Moli frá Tálknafirði leikhlé og ræða stöðuna.


 Katla og Elísa koma sér í mjúkinn hjá Alexander með því að hæla hvolpinum hans  á hvert reipi.

 Já það er alltaf jafnskemmtilegt að spá og spekúlera í fjárhundsefnunum. 

 Tillögunni sem stungið var að mér um daginn, um að boðið verði uppá námskeið 1 sinni til 2 í mán. sem síðan myndi  ljúka með hundakeppni í fyllingu tímans,  er hér með komið áfram til stjórnar smalahundadeildar Snæfellinga.

 Þar er full af eldklárum náungum sem gætu skipst á um að leiða hóp í gegnum svona ferli.

Það vantar allstaðar góða smalahunda í dag.emoticon

 

Flettingar í dag: 1682
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 580375
Samtals gestir: 52688
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 18:16:06
clockhere