14.10.2009 22:59

Niðurstöðurnar úr Hvíta Húsinu.

 Mér leist ekki á blikuna þegar ég virti fyrir mér lambahópinn eftir fyrstu smölun haustsins.

 Ég huggaði mig við að þau væru blaut og ekkert að marka þó þau sýndust í minna lagi og alltof mörg undirmálslömb í hópnum.



   Meðfædd bjartsýnin fór þó að aukast eftir því sem leið á haustið og þegar náðust nógu margar nothæfar ásetningsgimbrar var ljóst að fjárræktin myndi sleppa til þetta árið hvað ræktunin varðaði.

 Það dugar hinsvegar engin meðfædd bjartsýni til að gera gott úr fjárhagslegu hliðinni á dæminu.



 Enda vita allir að fjárbúskapurinn hér, er bara til þess að eitthvað sé fyrir hundana að gera.



Og auðvitað húsmæðurnar. 



 Það voru svo að berast innleggstölur og þó gerðin lækkaði milli ára og fitan hækkaði, þá voru bara búnar til eðlilegar skýringar á því og allir urðu hamingjusamir.

  Meðalvigtin endaði í 17,64 kg.
  Gerðin var.              9.64
  Og fitan                  7,55

 Þannig að það er hægt að bæta ýmislegt enn. sem betur fer.

 Og nú styttist í að hinum árlega rolluhring ljúki. féð verði tekið á hús og ný hringferð hefjist með því að lögð verði drög að litlu lömbunum sem líti svo dagsins ljós í vetrarlok.

 Nei , nei, ég ætla ekkert að enda þetta með því að nú sé erfiður vetur framundan.emoticon

12.10.2009 21:59

Erfið helgi. Ættarmót , rolluhasar og herskylda.

 Nú er mesta rolluhasarnum lokið þetta haustið þó sitthvað sé eftir.

 'A föstudaginn voru líflömbin valin eftir  vigtun  og sónun, og síðan var öllum lambahópnum smalað inn á sunnudag og tekin frá þau sem fara í Hvíta Húsið á Hvammstanga.


 Það var ánægjuleg tilbreyting að komast inn  slátrunarkerfið hjá þeim .

 Eitt símtal við Magnús snemma í sept. og slátrunardagur fyrir hópinn ákveðinn 12 eða 13 okt. og ekki orð um það meira.


 Hópurinn var síðan tekinn í dag og nú er bara eftir að dagsetja hvenær dæminu verður lokað og kistan fyllt fyrir veturinn.

 Enn vantar eina tvílembu og eina veturgamla með lambi. Síðan vantar nokkur lömb þar sem móðirin er komin með hinu lambinu en það ríkir engin bjartsýni um heimtur á þeim.

 Þetta er ekki slæmt og þýðir það að ferðum mínum um fjöll og firnindi í kindaleit verður í nokkru lágmarki þetta haustið. ( og framvegis).


 Menn og tæki uppi á fjöllum að elta rollur sem koma þeim ekkert við , á landi sem kemur þeim alls ekkert við. Og kaupið er að sjálfsögðu ekkert, í þessari forneskjulegu herskyldu.

 Enda aðhyllist ég þá stefnu af sífellt meiri ákveðni, að fjáreigendur eigi að bera erfiðið eða kostnaðinn af því að koma fé sínu til byggða sjálfir.

 Seinnipart laugardags hittist svo slatti af afkomendum Margrétar og Guðmundar í Dalsmynni í Langaholti og átti góða kvöldstund saman.



 Systkinahópurinn mætti allur, nema nýsjálendingurinn ( 10 st. mætt). Hluti af seinni kynslóðum lét sig líka hafa það að mæta. Þetta er ekki lítil fjölskylda og þarna voru um 60 í mat.

 Gamla konan velti því svo fyrir sér hver hefði eiginlega alið þennan skríl upp þegar það voru tekin bakföll í hláturskrampa við að skoða gamlar myndir , ja allt aftur á miðja síðustu öld.

  Engin kreppa í Dalsmynnisliðinu.emoticon 

 

09.10.2009 22:59

Afkoman í byggræktinni og ógnvænlegir reikningar.

Hvernig er afkoman? Er nokkuð útúr þessu að hafa, spurði Gunnar í Hrútatungu mig?

 Hann var á ferðinni í haust, með félögum sínum í stjórn Framleiðnisjóðs en þau kíktu við hjá okkur í byggþurrkuninni á ferð sinni um Vesturland.

 Ég endurtók náttúrulega það sem ég hefði sagt honum áður, að við þyrftum að ná þremur tonnum á ha. og 300 t. í gegnum þurrkunina  sem lágmarksmagni svo við þyrftum ekki að greiða með þessu. Við hefðum reyndar aldrei náð því.

  Reiknið þið með að ná því einhverntímann spurði Gunnar ákveðinn og hafði gaman af því að pína mig aðeins. 

 Já, svaraði ég afdráttarlaust og gerði mig svo sannfærandi í röddinni að ég held að meira að segja Gunnar hafi trúað mér. Hin sem þekktu mig mun minna eða ekkert, hafa örugglega trúað þessu.

 Nú er uppskerunni lokið þetta haustið og Söðulsholtsbóndinn kominn með skemmtilegar tölur á blað.

 Samkvæmt þeim er uppskeruaukningin hjá okkur félögunum veruleg frá því í fyrra þrátt fyrir mun færri ha. í ræktun.

 Við erum  komnir með 240 tonn af þurrkuðu byggi.  Auk þess höfum við þurrkað fyrir aðra um 50 tonn og erum því á góðum málum með þurrkunina.

 Dalsmynni sf. er svo að ná um 4 tonnum af ha. sem er fínt ( rúm 3 t. í fyrra) og erum við því með 15- 20 tonn umfram heimanot.

  Reyndar leggjum við allir framleiðsluna inn hjá Yrkjum ehf. og þeir okkar sem eru að gefa byggið, kaupum það síðan til baka á okurverði vegna þess að Einar skrifar út reikningana.

 Ég veit alveg nákvæmlega þegar hann er að koma með reikning á mig því þá er hann svo léttstígur inn forstofuna .

 Já, þetta voru ánægjuleg tíðindi  og síðan er hellingur af hálmi kominn í plast og miklar ráðagerðir uppi um að breyta honum í umkomulausar íslenskar krónur.emoticon 

  En margar.emoticon 

 Ég var svo bara að prófa að skrifa eitt myndalaust blogg til tilbreytingar. emoticon 

Takið það svo bara rólega um helgina.

Flettingar í dag: 293
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581756
Samtals gestir: 52780
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 02:57:58
clockhere