Færslur: 2008 Júní

30.06.2008 23:07

Komnir hvolpar.


                                        Foreldrarnir

  ASSA FRÁ DALSMYNNI     Og  TÝRI FRÁ DAÐASTÖÐUM





Nú stendur got sem hæst og þegar komin sjö stykki. Mér finnst það nóg en er ekki viss um að allt sé búið. Það hefur loðað við Skessu og dætur hennar mikil frjósemi sem endar oft í 9 hvolpum og allt uppí 12 , sem er skelfilegt. 
Ég var búinn að gleyma því hvað manni vex allt þetta gotumstang í augum, þegar fer að líða að því og þar sem síðasta got gekk illa, sá maður fyrir sér endalausar skelfingar, en þetta virðist nú allt saman ætla að ganga vel. (sjö, níu, þrettán.)

     Fyrir áhugamenn um Sleppitúra eru komnar inn nokkrar myndir í viðbót

 

 

29.06.2008 20:35

Sindri í sumarvinnuna.



  Sindri frá Keldudal er 3. vetra. M. Ísold frá Keldudal en hún ,móðir hennar og amma hafa allar fengið heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Faðirinn er Hágangur frá Narfastöðum sem mun standa í ströngu á komandi Landsmóti.

  Svo er bara að bíða og sjá hvernig genin hafa raðast í folann en þar er nú aldrei neitt fast í hendi eins og menn vita. En geðslagið er gott og hann fer aðallega um á brokki og tölti. Og nú er hann mættur í sumarvinnuna sem er dálítið ólík vetrarvinnunni sem bíður hans.

  Það verður svo kannski rennt á mótið og fylgst með pabbanum og Ingólfi náttúrulega.

28.06.2008 21:26

Fyrsta sláttuáfanga lokið.



   Það tókst að koma öllu í plast í gærkvöld og nú verður smá pása( stutt) í heyskap þegar verður búið að koma rúllunum heim. Það er ekki hlaupið að því,  vegna umferðarþungans sem er hér um helgar. Þessvegna verður að sæta lagi fyrripart dags, sérstaklega með það sem flutt er hér neðan af túnunum því annars getur orðið löng bið eftir lagi að komast þvert yfir þjóðveginn. Kýrnar þurfa líka að þvera þjóðveginn á leið í daglega beit . Stundum hvarflaði að manni að halda þeim heima um helgarnar en nú er augunum bara lokað og hliðið opnað, svo er bílstjórunum bara veifað kankvíslega þegar sú síðasta er sloppin yfir. Það tekur nefnilega smástund fyrir 45 kýr að lesta sig yfir og ég get fullvissað ykkur um það, að þær eru ekkert að flýta sér blessaðar.
  Og blessaðir hundarnir eru að sjálfsögðu í stöðugri lífshættu en hér gerir enginn neitt nema með aðstoð þeirra.
  Það má segja þessum taugaveikluðu og stressuðu ökumönnum til hróss að 99 % þeirra láta þetta yfir sig ganga möglunarlaust og smáfólkið fær þarna kærkominn bónus á helgarferðina. Bónusinn sem bílstjórarnir fá getur hinsvegar orðið öllu verri , því ef þeir ætla að bæta sér upp töfina, er nokkur hætta á að eftir nokkra km. fái þeir á sig blá ljós og misháa sekt eftir því hvað þeir ætluðu sér að ná töfinni hratt til baka.

 Já, það er vandlifað í henni veröld.
Flettingar í dag: 293
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 854
Gestir í gær: 76
Samtals flettingar: 581756
Samtals gestir: 52780
Tölur uppfærðar: 15.9.2024 02:57:58
clockhere