04.02.2013 08:02

Hvolpahittingur, Tinnaafkvæmi og pottferðin mikla.

  Það var orðið ljóst að metþátttaka yrði á hvolpahittingnum í Söðulsholti þegar líða tók á síðustu viku.



 Þarna mættu 26 hundar og um 30 manns og er mikill tamningahugur í mönnum.
 Yfir línuna var hunda/hvolpahópurinn mjög álitlegur þó einbeitingin og áhuginn væri misjafn enda aldursbreiddin nokkur.

Allt um það hér.  http://smali.123.is/blog/

 Þarna mættu m.a. þrír hundar undan Tinna frá Staðarhúsum úr tveim gotum hjá mér.



 Keli  úr seinna gotinu hjá Dáð er nokkuð stór,  fallegur hundur og kominn aðeins af stað í tamningu.
Hann er sem betur fer meira í föðurættina, kominn með mikinn áhuga og verður nokkuð ákveðinn. Vinnulagið er gott en þegar áhuginn ber hann ofurliði snarversnar heyrnin eins og gerist stundum hjá BC. Ekkert mál að taka á því þegar eyrnamergurinn sljóvgar heyrnina aðeins.



 Albróðir hans, Tinni sem varð mér strax mjög hjartfólginn, enda lifandi eftirmynd föður sins í lit og hárafari er mun minni hundur. Sækir stærðina í móðurina Eigandinn hefur óspart látið mig heyra um margvíslega galla þessa eftirlætis míns og sagt mér margar sögur því til staðfestingar.

 Ef of langur tími líður án þess að ég heyri í honum fyllist ég ótta um að nú hafi Tinni gengið endanlega frá ábúendum á Hrísum og þá myndi ég nú ekki bjóða í bústofninn í framhaldinu.

 Að öðrum hundum þarna ólöstuðum, leist mér nú best á Tinna kallinn.

Bara svona hlutlaust álit.

 

 Þriðji Tinnasonurinn Bangsi, er undan Snilld frá Dýrfinnustöðum sem ég átti og tamdi. Sú var undan Asa, síðasta hvolpinum undan Skessu gömlu. 


Snilld virðir áhyggjufull fyrir sér afraksturinn af þessu 15 mín ævintýri þeirra Tinna.

     Snilld aðstoðar nú bóndann í Svansvík við Ísafjörð að hreinsa fjöll og firnindi. Bara góðar sögur þaðan.

 Bangsi ber nafn með rentu ,gríðarstór og loðinn. Hann varð til ásamt systkinum sínum þegar Tinna tókst að brjótast út úr búri sínu á algjörlega yfirnáttúrulegan  og óútskírðan hátt.
 Af Bangsa líkt og Tinna litla fara miklar sögur sem eru nokkuð einhliða þegar ég heyri til.

Þarna stóð hann sig samt vel orðinn talsvert taminn, rólegur en þrælákveðinn.


 Þessi mynd er í beinu framhaldi af .þeirri efri og þarna er látið sverfa til stáls, eða tanna , æsingslaust og yfirvegað.

 Eigandinn, hún Hefa vinkona mín hefur yfirleitt eina skammarsögu á takteinum um Bangsa
þegar við hittumst.
Einhverntímann sagði hún mér að einn af göllunum væri að hann kynni ekki að hrista sig ef hann blotnaði. Skipti þá engu þó ég verðist fimlega og fullyrti að það hefði hann kunnað áður en lögheimilið var flutt.
 Seinna kom á daginn að Bangsi ræfillinn var baðaður nokkuð reglulega . Það er náttúrulega skandall að vera að baða sveitahunda en þó tók steininn úr að hann var þurrkaður með hárblásara á eftir. Þar var auðvitað skýringin á því að hann kunni ekki að hrista sig.
 En lengi býr að fyrstu gerð og einhverntímann vildi það óhapp til að gleymdist að setja lokið á heita pottinn.
 Það var hinsvegar mikill eftirlætisstaður Bangsa að sitja á og óþarft að fara nánar út í það þegar hann kom stökkvandi í öllu sínu veldi og stökk upp á pottinn til að setjast aðeins niður og slaka á.
 Húsfreyjan heyrði gusuganginn og neyðaróp heimilismanna sem voru vitni að skandalnum og var það í sama mund að hún opnar hurðina út á pallinn og Bangsi kraflaði sig uppúr pottinum í dauðans ofboði.

 Hann skaust með miklum hraða inn um dyrnar og inn í stofuna.

Og hristi sig rækilega.

01.02.2013 22:22

Allt að komast á fullt í Hestamiðstöðinni.

 Hestamiðstöðin í Söðulsholti var lokuð í nóvember og desember.
 Tamningarfólkið var þá í samstilltu átaki að koma í heiminn lítilli tamningarstúlku.

Nú er hinsvegar allt að komast í fullan gang, húsið óðum að fyllast og slatti kominn á járn.




 Dóri á fullu í járningunum á milli þess sem lagt er á.



 Og það þarf að gefa gæðingunum . Hér er komið með rúlluna inn og hún skorin á gjafavagninn.



 Hér er svo Iðunn í barnsburðarfríinu að gefa. Trúlega sú litla gert stórt og Dóri þurft að skipta. Fjóla frá Skörðugili fylgist með að allt fari rétt fram.



 Uppi á kaffistofunni sátu þessir skuggalegu náungar og best að hafa ekki fleiri orð um þá.



 Hrossin eru á hálmi og nú náðist alveg obboð af honum, úrvalsgóðum. Fyrir ári var algjört neyðarástand í þeim málaflokk.



 Búgarðseigandinn búinn að lesta kerruna og Reykjavíkurferð í kortunum.



 Faðirinn ábyrgðarfullur að sinna dætrunum í matartímanum.



 En móðirin athugað dagsformið á henni Kolbrá sinni.  Og það var þvílíkt.



 Eldri dóttirin er látin leggja á tryppin enda vinnuvernd barna og ungmenna óþekkt hugtak í sveitinni.



 
Þessir gömlu og bakveiku eru dálítið öfundsjúkir yfir þessari góðu vinnuaðstöðu.



 Aldeilis frábært að hafa þetta svona í augnhæð og sjá hvað maður er að gera.



 Allt orðið klárt og rétt að skella sér á bak en ég held nú að bandspotti uppí klárinn og, þúfurnar og skorningarnir í gamla daga gefi þessum græjum nú ekkert eftir.



 Svo er að æfa jafnvægið áður en farið er á hrekkjafantana.



 Svo er maður allt í einu orðin stóra systir, því fylgir ýmislegt misskemmtilegt.



 Já svona var veðrið í sveitinni í dag. Algjörlega snjólaust en samt er rétt að fylla á hjá hrossunum.

 En fyrir réttu ári var hér allt á bólakafi í snjó og endalaus ófærð.

Við snjósleðagreifarnir eigum snjóinn  bara inni !!!


29.01.2013 20:01

Hvolpahittingur í Hestamiðstöðinni.

 Allt um hvolpahittinginn hér.  http://smali.123.is/blog/





Vel sótt námskeið.  fyrir margt löngu.
 
Flettingar í dag: 762
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579455
Samtals gestir: 52637
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:09:52
clockhere