26.06.2010 06:16

Þrífjöllin í öskublönduðu sólsetri.

Svona litu fjöllin mín út í myndavélinni hans Jonna í þetta eina sinn sem við Snæfellingar fengum smjörþefinn af öskumistri.


                                                                                                                               Mynd Jónatan Guðjónsson.

  Skyrtunnan, Svörtufjöll og Hesturinn . Neðst til hægri sést Barnaborgin þeirra austurbakkamanna.

24.06.2010 20:38

Að slá og slá. - og slá um sig.

Það var ekki sko slegið við slöku þessa daga en tekið hraustlega  því.

 Seinnipart mánudags og á þriðjudaginn voru slegnir um 30 ha.



 Langmest af þessu eru vallarfoxtún í góðri ræktun, því svo er byggræktinni fyrir að þakka að endurræktun er sinnt af mikilli kostgæfni.

Grasið var ekki farið að skríða en farið að leggjast nokkuð.
Við vildum fá heyið þokkalega þurrt og rúlluðum það svo í gærkvöldi og í dag.
Vindurinn var nú talsvert meiri en spárnar okkar sögðu og mátti ekki meiri vera.
En þetta slapp til.



 Við notum fastkjarnavél ( það er toppurinn)  í eigu Yrkja ehf.og höfum rúllurnar 140 cm í þvermál.
Það þýðir u.þ.b. 50 % meira heymagn en í 120 cm. rúllu sem kemur einkar vel út fyrir bæði fóðrun, flutning og ekki síst plastnotkun.

Vélin er leigð út fyrir fast rúllugjald og í því er bæði plast og net.
Það eru bara tveir bændanna sem vinna með hana, aðallega Atli.

 Sprettan var fín þrátt fyrir síminnkandi áburðarskammt, en eingöngu er notaður köfnunarefnisáburður á þessi tún ásamt mykjunni.

 Nú er sem sagt fyrri slætti lokið í hér Dalsmynni fyrir utan um 2.5 ha. tún sem rollurnar voru að japla á þar til þeim var vísað til fjalls.  Það verður tekið með rollutúnunum sem eru á annarri jörð og ekki verða slegin strax.

Reyndar er eftir að tína saman rúllurnar.

Síðan á eftir að heyja um 15 ha. í Hrútsholti sem verða teknir í næsta þurrki.

Og eitthvað munum við svo koma að heyskap Hestamiðstöðvarinnar.

Svo verður komin há.

Síðan kemur haust.

Já, þetta lítur út fyrir að verða skemmtilegt sumar.emoticon

22.06.2010 21:38

Traktor sundur og saman - og slátturinn.

Dráttarvélar nútímans eru háþróuð tækniundur , uppfull af allskonar rafmagnsfídusum og tölvuheilum.

 Þegar minnst varir geta þær átt það til að stoppa í miðju verki og gefa viðvörunarljós og villikóða eða nefndu það bara.

Þá er hringt í þjónustufulltrúann sem í okkar tilviki er hann Össur í Jötunn Vélum, og hann slær villukóðann  inn í tölvuna hjá sér og segir okkur svo hvað tengi það er sem komin er spanskgræna á eða e.h. þ.h.

 Sjaldnast sleppum við nú samt svona vel en það er önnur saga.

 Það var hinsvegar gamli Deutsinn okkar sem er algjörlega laus við þetta rafmagnskjaftæði sem var að ergja okkur aldrei þessu vant
.
Kúplingin fyrir aflúttakið virkaði ekki og eftir miklar pælingar var niðurstaðan sú að rörsplitti í öxli í kúplingshúsinu væri brotið.

 Til þess að komast að splittinu þyrfti einungis að opna lok ofan á kúplingshúsinu.

Því miður þurfti hinsvegar að taka húsið af traktornum til að komast að lokinu.

Og þar sem nokkrir dagar voru í slátt og kreppa í landinu réðust bændurnir á traktorinn.



 Húsið losað, aftengt og híft af.



 Þegar svona var komið mundum við að í vélinni var orginal kúplingin sem hefur verið mikið og illa notuð síðan 1984. Þegar kom í ljós að allt í hana var til hjá Þór og búið að ná hæfilegum kreppuafslætti á tiltölulega gott verð var skipt um hana með hraði.



 Það var síðan kíkt á eitt og annað í leiðinni því þetta er vél sem hefur aðeins verið sett hráolía á annað slagið svo hefur hún bara verið keyrð og keyrð.

 Verkfæraskápurinn sem við fjárfestum í stútfullum af verkfærum í vetur, kom í góðar þarfir og hefur trúlega farið langt í að borga sig upp í aðgerðinni.


 Annars er það búvélaverkstæðið í Vélabæ sem þjónustar okkur. Þar fer saman einstök lipurmennska, góð þjónusta og reikningar sem manni finnst alltaf vera sanngjarnir.


Og nú er brostinn á þurrkur, á alveg hárréttum tíma og fyrri slætti í Dalsmynni gæti lokið á fimmtudaginn ef allt gengur upp.

Flettingar í dag: 1158
Gestir í dag: 123
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579851
Samtals gestir: 52683
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 16:26:40
clockhere