25.05.2009 03:50

Allt að róast í sveitinni og sleppitúr framundan.

 Nú er mesta annríkistímabili búskaparárhringsins í sveitinni að ljúka.

 Yngri dóttirin mætt í sveitina og yfirtekur þar með stífustu næturvaktina í sauðburðinum sem er nú reyndar orðið svona eftirlit , enda fáar óbornar.
 Sauðburðurinn hefur gengið vel og þegar helsta umkvörtunarefnið er of mikil frjósemi vorkennir manni enginn.
 En fyrir utan gemlingana sem munu ganga með tveim lömbum í sumar eru a.m.k. 7 þrílembur sem sitja uppi með þrjú lömb.

 Akrarnir eru sem óðast að taka lit hver á fætur öðrum og grasið þýtur upp, sem segir manni að ekki eru margar vikur í slátt. Búfjáráburðurinn á þeim túnum sem ekki hafa fengið áburðinn sinn hefur dugað þeim vel í vorstartið og nú verður áburðardreifingunni sem eftir er, lokið næstu daga eða um leið og gefur í það.

 Rigningin sem kom í gær var vel þegin því allt var orðið skraufaþurrt enda velþekkt, að um leið og óþurrkakafla lýkur þá fer að vanta rigningu og öfugt.

  Nú fer að styttast í sleppitúrinn sem verður framinn á efri mörkum suðurlandsins í ár.


                               Áð við jökullónið á Breiðamerkursandi í síðasta sleppiutúr.

 Bæði ég og hluti ferðahestanna minna þurfa á smá endurhæfingu að halda eftir hóglífi vetrarins og nú verður farið sér í það mál.

Eftir undangengið álagstímabil er ég orðinn óhóflegur kaffifíkill en einn megintilgangur sleppitúrsins er eimmitt að afeitra mig í kaffidrykkjunni sem er undantekningarlaust afar hófleg í þeim ferðalögum.

 Hér er hópurinn í síðasta túr en nú er 16 bókaðir í ferðina og er þar valinn maður í hverjum hnakk.

 En bara einn alvörubóndi.

 Við fengum gott veður í Suðursveitinni í fyrra og hér erum við Ingimar í Jaðri búnir að gleyma úrhellinu sem helltist yfir okkur  lungann úr deginum áður og erum furðu brattir á kveðjustundinni en það var að sjálfsögðu áð í hlaðinu hjá honum og skorið utanaf einu hangikjötslæri.

 Já, þetta sumar verður að öllum líkindum alltof stutt fyrir allt það skemmtilega sem þarf að gera.

23.05.2009 02:14

Byggræktin og blótsyrðin.


  Það er hægt að skipta byggræktinni í svona þrjú áhættutímabil, sem geta kallað fram slæman munnsöfnuð og hugrenningar hjá eldri Dalsmynnisbóndanum ef illa gengur.

 Nú er því fyrsta, sáningunni lokið og óhætt að segja að þetta hafi verið vont tímabil hvað ofangreint varðar.
  Sáningin gekk seint og illa sem þýðir það að önnur bráðnauðsynleg vorverk svo sem áburðargjöf og grænfóðurrækt dragast úr hömlu, en akuryrkjunni þetta vorið lauk í gær með völtun á grænfóðurökrunum. 
 Hér var sáð í um 17 ha. í byggi og 5 ha. með rýgresi þetta árið. Rýgresið er ætlað til beitar og sláttar en reiknað er með að slá meirihlutann af því tvisvar og beita það síðan í haust.

 Yngri bóndinn sem sér um þennan hluta rekstrarins að mestu, ásamt áburðargjöfinni á túnin hefur lítið sést, þar sem hann er m.a. yfirsáningarmeistari hins forna Eyjarhrepps og þótt víðar væri leitað.


  Hér er fallegur byggakur í ágústbyrjun. Rétt er að taka fram að Vaskur er með allra stærstu Border Collieum sem sjást.

 Vonandi verður sumarið svo gott að það bæti upp þessa síðbúnu sáningu og áburðargjöf sem er ekki nærri lokið ,

  Seinni áhættutímabilin í byggræktinni eru þreskingin í haust og síðan lokauppgjörið á dæminu, sem þýðir oft afspyrnuslæman munnsöfnuð þegar taptölurnar fara að skýrast.


 Ef öll tímabilin reynast slæm er áframhaldandi byggræktun komin í nokkra hættu a.m.k. þar til komið er að fræpöntun fyrir komandi vor.



 Þá safnast ræktunarhópurinn saman, fær sér nokkra bauka, fyllist bjartsýni fyrir komandi ræktunarár og pantar sáðbygg sem aldrei fyrr.


Þessi hringrás á nú kannski við um fleiri þætti búskaparins en byggið.emoticon 

 

20.05.2009 20:56

Fjárhundar og lambfé.


    Það er kominn fjöldi ára síðan ég hef hlaupið á eftir kindum.

Þegar ég lagði það af, var hlaupagetan og þolið á góðu lagi. Ég get því miður ekki haldið því fram lengur.

  Nú sjá hundarnir alfarið um þennan hluta sauðfjárvinnunnar og reyndar mikið meira.

Þessa dagana er verið að sleppa lambfé af húsi og hér þarf að koma þeim niður fyrir þjóðveginn í fyrstu lotu.

 Nú er ég hættur að loka hundana inni þegar átt er við lambærnar og læt þá hafa fyrir þessu.



  Þeir sem til þekkja vita hvernig gengur að reka kindur með lömb á þessum aldri.
Þær reyna að fara allt annað en þær eiga að fara og ef þær eru nokkrar saman þá er farið sitt í hvora áttina. Ef sá gállinn er á þeim fara þær yfirhöfuð ekki nokkurn skapaðan hlut.



  Hér dóla þau, Dáð, Snilld og Vaskur vel á eftir hópnum en það er grundvallaratriði að góð fjarlægð sé milli hundanna og kindanna. Annars bregðast ærnar við til varnar lömbunum og þar sem þarna eru ákveðnir hundar á ferðinni gæti það orðið harður slagur. Dáð er aðeins 10 mán og Snilld tæpra tveggja ára . Þessi vinna fellur vel að tamningarprógramminu sem þær eru í núna.



 Það er sjaldan hægt að reka viðstöðulaust yfir þjóðveginn vegna óvæginnar umferðar og hundarnir virða biðskylduna og stoppa féð af meðan bóndinn leitar lags fyrir hópinn yfir.

 Þeim fjölgar sífellt fjárhundunum í sveitum landsins sem ráða við svona vinnu þó betur megi gera í því eins og fleiru.

  En góðir hlutir gerast hægt, er það ekki ?






Flettingar í dag: 762
Gestir í dag: 77
Flettingar í gær: 718
Gestir í gær: 93
Samtals flettingar: 579455
Samtals gestir: 52637
Tölur uppfærðar: 13.9.2024 11:09:52
clockhere