04.11.2012 21:12

Lognmolla og lausar skrúfur.


 Af sérstökum ástæðum var árlegri haustgöngu minni um þök Dalsmynnisbygginganna með hamar í hendi og þaksaum í vösum ólokið þetta árið þegar allt fór að gerast.

 Og ekki nóg með það.



 Þegar þakjárninu var komið á nýbygginguna með miklum látum þrutu sérstakar skrúfur sem notaðar voru vegna stállangbandanna.
 Illa hafði gengið að ná þeim á svæðið, bæði vegna kæruleysis, leti og ýmissa annarra óviðráðanlegra orsaka.
 Ekki var það til að bæta stöðuna að dregist hefur að afgreiða vélgengu hurðina svo húsið myndi ganga í gegnum illviðrið svona nokkurnveginn opið í annan endann.

 Það var náttúrulega byrjað á því að vona að þetta yrði nú ekki svo slæmt veður. Ekkert að marka þessa ........ veðurfræðinga.

 Því miður kom í ljós nú brást þeim ekki spámennskan og í ljósi þess hvernig nýja þakið hékk á lýginni fyrsta sólarhringinn var ljóst að nú yrði eitthvað að gerast.

 Það var frændi minn  hjá Límtré- Vírnet sem skrapaði saman ýmsar skrúfur sem gætu hugsanlega bjargað málinu. Bjöggi vinur minn á Austurbakkanum greip þær með sér úr Borgarnesi og ég var síðan settur upp í traktorsskóflu og ekki hleypt niður aftur fyrr en þakjárnið var þéttskrúfað niður á neðsta langbandinu. ,

 Það er óhætt að segja að gustaði um mig þá stundina.

Og önnur þök svæðisins bjuggu trúlega að árlegum haustgöngum mínum undanfarin ár og lögðu ekki í langferð í þetta sinn.



 Það þekkja margir hversu veðrið getur snarversnað við að komst upp í ákveðna hæðarlínu t.d á fjallvegum og ég hef kynnst því rækilega hvað maður getur orðið lítill við slíkar aðstæður.  Ég hefði ekki viljað vera staddur ofan snjólínunnar hér fyrir ofan þegar mest gekk á þessa daga.



 Í dag kom svo lognið á eftir storminum við almenna ánægju mína og þessarra slöku sauðkinda sem voru búnar að stelast aftur í nýræktina eftir að hafa eytt rokdögunum á skjólsælla svæði. Eins og myndin ber með sér fylgdi engin eða sáralítil snjókoma veðrinu hér neðra. 
  Hjá aðalbloggara Austurbakkans í fjarska hefur hinsvegar greinilega verið bruðlað meira með snjóinn.

29.10.2012 20:40

Fénaður og framkvæmdir.

  Nú sækir veturinn að, bæði af dagatali og úr veðurstofunni og ekki lengur vikist undan því að taka inn lömb og veturgamalt.

 Ég kláraði þó fyrst að spúla sláttuvélarnar því það þarf að koma þeim í hús líka,  þó seint sé.



 Korka og Dáð urðu allshuga fegnar að fá að spreyta sig, því vegna annríkis hef ég lágmarkað allt smala og fjallastúss þetta haustið.



  Þær fengu því að vinna þetta og það var gert eins mikið úr þessu fyrir þær og mögulegt var.


 
Síðustu vikurnar er ég  að mestu leiti einn að dunda mér í fráganginum innanhúss og þetta gengur því nokkuð hægt og örugglega, allavega ef mælt er í hænufetum.
 
 Það sem að veldur þó mestu ólgunni á magasýrunum er að keyrsluhurðin er ekki tilbúin til afhendingar fyrr en eftir rúma viku.



 Og yngri bóndinn er að leggja lokahönd á járnverkið í geldneytastíurnar fyrir galvanhúðun.



 Ef allt gengur upp kemst þetta norður á Akureyri á morgun og rétt að gefa ekki upp áætlaða tímasetningu á því að steypa þetta niður.



 Já sumarið er búið og ljóst að framkvæmdirnar munu lifa eitthvað inn í veturinn.

27.10.2012 20:49

Útsmognar gæsir og öndvegis tíðarfar.

 Þó ég sé fyrir löngu búinn að læra að lifa með veðráttunni  sem í boði er á hverjum tíma, tuða ég gjarnan eitthvað þegar boðið hefur verið uppá rakna ótíð í lengri tíma.

  Áður var svo  sem ekkert verið að leggja slíka kafla á minnið og nú hverfa þeir fyrirhafnarlaust úr sífellt takmarkaðra minninu um leið og þeim lýkur.

  En óneitanlega hefur veðurfarið bein og óbein áhrif á afkomuna, þó ég og kollegar mínir í bændastétt eigi ekki jafnmikið undir því og Klettafjallaskáldið þegar honum varð að orði.

Ég er bóndi og allt mitt á,
undir sól og regni.

 Það situr þó í manni ef uppskerubrestur verður vegna veðurfars eins og s.l. ár í bygginu og hausttíð eins og þá, þegar ekki náðist einu sinni nothæfur hálmur.


 Rétt að taka fram að svörtu blettirnir eru sandur sem kom þegar rúllurnar voru lagðar niður til að stafla þeim uppá endann.

  Nú upplifir maður hinsvegar haust þar sem allt er í lukkunnar velstandi, bygguppskeran bara tekin áfallalaust þegar hún er tilbúin, hálmurinn loksins hirtur seint og um síðir vegna annríkis og vélabilana og síðast en ekki síst allar fjárleitir framdar í eðalsmalaveðri.

 Að sjálfsögðu er ég svo heppinn að akkúrat svona haust var ég dundandi  alla daga innandyra við fjárhúsbyggingu.

 
 Nú fer gæsinni að fækka á svæðinu enda hennar hlutur í bygguppskerunni minni en oftast áður vegna ólátalítils veðurfars. 


 Síðustu haust er eins og hún sé að breyta hegðunarmynstrinu og helgast það trúlega af því að henni líkar illa við síbreytilegar sóknaraðgerðir veiðimanna.  Reyndar var fullyrt við mig að þær alklárustu væru búnar að fatta framtíðarlausn á veiðimannavandamálinu og farnar að vitja akranna að næturlagi.



 Þessar komu þó í birtingunni og eru greinilega búnar að átta sig á að hér er ekki allt með felldu.



 Hér áttu þær þó góðan dag, enda eru þeir nú fleiri dagarnir  sem vopnahlé gildir en hinir.

Já þetta sumar og haust fá góð eftirmæli hér allavega hvað veðurfar varðar.

Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere