07.05.2008 03:53

Border Collie ræktun, Týri og áhættufíkillinn.

  Stundum hringir í mig fólk í hvolpakaupahugleiðingum og spyr mig ýmissa spurninga. Það er kannski með ákveðið got í huga eða spyr hvort ég viti af góðu goti einhversstaðar. Ég er löngu hættur að gefa comment á got nema ég þekki vel til foreldranna og er oftast með staðlað svar um að ef foreldrar hvolpanna séu góðir í vinnunni sé líklegt að hvolparnir verði nothæfir. Mat hundseigendanna á því hvort hundurinn þeirra sé nothæfur eða góður er síðan svo misjafnt að þetta er í raun ekkert svar.
 Ég þverbraut hinsvegar þessa góðu reglu þegar ég ákvað að halda Össu minni undir algjörlega ótaminn hund, Týra frá Daðastöðum. Þetta var samt ákvörðun tekin með einbeittum brotavilja, eftir að hafa farið yfir málið með ræktanda hundsins, sem ég tek mark á í ræktunarmálum. Faðirinn , Dan er innfluttur en ég hef séð tvær tíkur undan honum í tamningu og litist vel á. Þó hundurinn væri alveg ótaminn og stjórnlaus fór ég samt með hann í kindur áður en " ræktunarbrotið " var framið og hef síðan farið aftur með hann  eftir að hafa náð nokkurri stjórn á dýrinu. Týri er kominn með gríðarlegan vinnuáhuga og fer nokkuð vel að hlutunum. Hann er með meiri fjarlægð en ég átti von á, reyndar mjög góða fjarlægð og hélt hópnum ákaflega vel saman. Ákveðnin er frábær og þegar ein kindanna gekk að honum til að kanna stöðuna (styrk hundsins) beið hann átekta og óð síðan í hausinn á henni á hárréttu augnabliki. Ég hef reyndar aldrei séð slík tilþrif hjá hvolpi áður. Hann stökk aldrei í hópinn eða beit í öðru tilviki í þessi skipti hjá mér. Mér fannst hann hinsvegar dálítið ör í daglegri umgengni.  Reyndar tók mig tvo daga að ná góðu sambandi við hann sem er mjög óvanalegt. Eftir að það náðist var hann fljótur að læra grundvallaratriðin í góðum hundasiðum .    Þetta er hundur sem ekki er mikið hafður laus og oft finnst mér að þeir séu trekktari en hinir sem aldrei eru bundnir. (Mæli samt ekki með því.)  Rétt er þó að hafa í huga að 3 lóða tíkur á hlaðinu hafa ekki róandi áhrif kröftuga hunda.
 Það stefnir síðan í metár í hvolpaframleiðslu og ég hef aldrei vitað af jafnmörgum gotum í gangi í mínum " hundavinahóp" eða a.m.k. sjö. Nú þarf því að tala upp kaupendahópinn svo menn fari í að endurnýja miðlungsdýrin og fái sér eitt "alvöru" svo ekki verði verðhrun á markaðnum.
 
       En ég er semsagt kexruglaður áhættufíkill í ræktunarmálunum.
 

06.05.2008 02:35

Kolbrún Katla í orlofi.

 Já litla manneskjan brá undir sig betri fætinum og ákvað að dvelja í nokkra daga hjá afa og ömmu á Ströndunum. Ekki er ólíklegt að hún njóti ásættanlegrar gestrisni þar og finni eitthvað þarflegt handa gestgjöfunum að dunda við.
   Hún hefur alltaf haft gaman af góðri músík og er fyrir löngu búin að sýna sínum nánustu ýmsa góða takta í dansmenntinni. Nú hefur hún áttað sig á því að ekki gengur að vera ein að hringsnúast á gólfinu. Engu skiptir hvað hún er að rísla við, hvort sem það eru djúpvitrar bókmenntir eða "dótið" hennar, ef fjörugt lag hljómar í útvarpinu þá kallar hún óðara á afa og ef hann bregður ekki skjótt við,kemur hún hlaupandi eins hratt og litlu fæturnir geta borið hana og dregur afann með sér á gólfið. Ef amman er svo heppin að vera heima er hún sótt líka á á sömu yfirferðinni. Danssporin eru oftast ýmis afbrigði af steppdansi með ýktu látbragði eftir því hversu fjörugt lagið er og þegar afinn fer að mæðast, þýðir ekkert fyrir hann að steppa afturfyrir dömuna og láta síg hverfa inn í stofu þar sem er ágætis hvíldaraðstaða. Það er kallað aaafi með miklum ásökunartón og afinn sóttur miskunnarlaust. Helsta áhyggjuefni ömmunnar er að einhver heimilisvinurinn rekist inn án þess að banka og sjái gamla fólkið við þessa iðju ( hoppandi um eins og stagkálfar að vori) sem öllu eðlilegu fólki þætti trúlega nokkuð áhugaverð sjón. Helsta örþrifaráðið er því að vera snöggur að slökkva á útvarpinu áður en fréttatímunum lýkur því ekki er fólk látið komast upp með að slökkva á útvarpinu í miðjum danstíma. Já, ég er ekki frá því að afi og amma í Snartartungu muni verða orðin nokkuð góð í dansmenntinni í vikulokin, ef þau eru ekki farin að gleyma að kveikja á útvarpinu á morgnana.

05.05.2008 00:02

Rigningin er góð.

 Það rigndi vel seinnipartinn í dag. Til að byrja með var þetta kalsarigning en svo hlýnaði og þetta var orðin ekta vorrigning áður en lauk,. Hér hefur ekki rignt í háa herrans tíð og allt orðið skrælþurrt. Nýræktirnar urðu hreinlega hvanngrænar fyrir augunum á manni og allt breyttist.. Meira að segja fuglarnir virtust breyta um tóntegund en ég hætti mér nú ekki útí að lýsa því nánar. Það var rokhvasst fyrripart dags svo ekki var hægt að sanda eins og til stóð. Í stað þess var farið í að dreifa taði og  og taðhálmi úr haugum. Dreift var á tún sem plægð verð upp og sáð í rýgresi í sumar. Eftir kvöldmat var komið logn og þá var dreift nokkrum dreifurum af skeljasandi til að sjá hvernig Samsoninn virkaði. Það verður að segjast að þessi græja þeirra stórvina minna á Austurbakkanum er hrein snilld í skeljasandinn og taðið .Afköstin eru mögnuð og dreifingin á sandinum góð. Ef slá ætti túnin hefði ég viljað sjá fínni vinnslu á skítnum en þetta var gott í plæginguna. Atli náði að klára plæginguna í Dölunum svo nú hefst byggsáningin á morgun. Ekkert atvinnuleysi hrjáir því sveitavarginn þessa vordaga og stutt í stressið ef eitthvað fer úrskeiðis.
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere