07.05.2008 03:53

Border Collie ræktun, Týri og áhættufíkillinn.

  Stundum hringir í mig fólk í hvolpakaupahugleiðingum og spyr mig ýmissa spurninga. Það er kannski með ákveðið got í huga eða spyr hvort ég viti af góðu goti einhversstaðar. Ég er löngu hættur að gefa comment á got nema ég þekki vel til foreldranna og er oftast með staðlað svar um að ef foreldrar hvolpanna séu góðir í vinnunni sé líklegt að hvolparnir verði nothæfir. Mat hundseigendanna á því hvort hundurinn þeirra sé nothæfur eða góður er síðan svo misjafnt að þetta er í raun ekkert svar.
 Ég þverbraut hinsvegar þessa góðu reglu þegar ég ákvað að halda Össu minni undir algjörlega ótaminn hund, Týra frá Daðastöðum. Þetta var samt ákvörðun tekin með einbeittum brotavilja, eftir að hafa farið yfir málið með ræktanda hundsins, sem ég tek mark á í ræktunarmálum. Faðirinn , Dan er innfluttur en ég hef séð tvær tíkur undan honum í tamningu og litist vel á. Þó hundurinn væri alveg ótaminn og stjórnlaus fór ég samt með hann í kindur áður en " ræktunarbrotið " var framið og hef síðan farið aftur með hann  eftir að hafa náð nokkurri stjórn á dýrinu. Týri er kominn með gríðarlegan vinnuáhuga og fer nokkuð vel að hlutunum. Hann er með meiri fjarlægð en ég átti von á, reyndar mjög góða fjarlægð og hélt hópnum ákaflega vel saman. Ákveðnin er frábær og þegar ein kindanna gekk að honum til að kanna stöðuna (styrk hundsins) beið hann átekta og óð síðan í hausinn á henni á hárréttu augnabliki. Ég hef reyndar aldrei séð slík tilþrif hjá hvolpi áður. Hann stökk aldrei í hópinn eða beit í öðru tilviki í þessi skipti hjá mér. Mér fannst hann hinsvegar dálítið ör í daglegri umgengni.  Reyndar tók mig tvo daga að ná góðu sambandi við hann sem er mjög óvanalegt. Eftir að það náðist var hann fljótur að læra grundvallaratriðin í góðum hundasiðum .    Þetta er hundur sem ekki er mikið hafður laus og oft finnst mér að þeir séu trekktari en hinir sem aldrei eru bundnir. (Mæli samt ekki með því.)  Rétt er þó að hafa í huga að 3 lóða tíkur á hlaðinu hafa ekki róandi áhrif kröftuga hunda.
 Það stefnir síðan í metár í hvolpaframleiðslu og ég hef aldrei vitað af jafnmörgum gotum í gangi í mínum " hundavinahóp" eða a.m.k. sjö. Nú þarf því að tala upp kaupendahópinn svo menn fari í að endurnýja miðlungsdýrin og fái sér eitt "alvöru" svo ekki verði verðhrun á markaðnum.
 
       En ég er semsagt kexruglaður áhættufíkill í ræktunarmálunum.
 
Flettingar í dag: 179
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 423916
Samtals gestir: 38589
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 10:35:03
clockhere