06.05.2008 02:35

Kolbrún Katla í orlofi.

 Já litla manneskjan brá undir sig betri fætinum og ákvað að dvelja í nokkra daga hjá afa og ömmu á Ströndunum. Ekki er ólíklegt að hún njóti ásættanlegrar gestrisni þar og finni eitthvað þarflegt handa gestgjöfunum að dunda við.
   Hún hefur alltaf haft gaman af góðri músík og er fyrir löngu búin að sýna sínum nánustu ýmsa góða takta í dansmenntinni. Nú hefur hún áttað sig á því að ekki gengur að vera ein að hringsnúast á gólfinu. Engu skiptir hvað hún er að rísla við, hvort sem það eru djúpvitrar bókmenntir eða "dótið" hennar, ef fjörugt lag hljómar í útvarpinu þá kallar hún óðara á afa og ef hann bregður ekki skjótt við,kemur hún hlaupandi eins hratt og litlu fæturnir geta borið hana og dregur afann með sér á gólfið. Ef amman er svo heppin að vera heima er hún sótt líka á á sömu yfirferðinni. Danssporin eru oftast ýmis afbrigði af steppdansi með ýktu látbragði eftir því hversu fjörugt lagið er og þegar afinn fer að mæðast, þýðir ekkert fyrir hann að steppa afturfyrir dömuna og láta síg hverfa inn í stofu þar sem er ágætis hvíldaraðstaða. Það er kallað aaafi með miklum ásökunartón og afinn sóttur miskunnarlaust. Helsta áhyggjuefni ömmunnar er að einhver heimilisvinurinn rekist inn án þess að banka og sjái gamla fólkið við þessa iðju ( hoppandi um eins og stagkálfar að vori) sem öllu eðlilegu fólki þætti trúlega nokkuð áhugaverð sjón. Helsta örþrifaráðið er því að vera snöggur að slökkva á útvarpinu áður en fréttatímunum lýkur því ekki er fólk látið komast upp með að slökkva á útvarpinu í miðjum danstíma. Já, ég er ekki frá því að afi og amma í Snartartungu muni verða orðin nokkuð góð í dansmenntinni í vikulokin, ef þau eru ekki farin að gleyma að kveikja á útvarpinu á morgnana.
Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 152
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424191
Samtals gestir: 38717
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 22:08:48
clockhere