10.05.2008 05:28

Slæmur dagur.

  Það hvessti sífellt þegar leið á daginn og um hádegisleiti var komin slydduóþverri sem ágerðist frameftir degi. Ég ætla nú ekki að lýsa því nánar en þetta var allavega ógeðslegt veður og jörð orðin hvít á tímabili. Byggsáningin var stopp um hádegi og varahluturinn í traktorinn sem beðið var eftir með póstinum(tölvukubbur) kom ekki í póskassann. Þar sem það var föstudagur og löng helgi framundan (nema fyrir traktorinn og bændurna) var öllu póstkerfinu snúið við(þegar ég sleppi mér,sleppi ég mér almennilega) í leit að sendingunni sem sett var í póst á Selfossi daginn áður.  Það var því mikill léttir þegar hringt var frá Jötun Vélum og sagt að vegna mannlegra mistaka væri sendingin enn í póstbílnum og yrði komin til mín eftir hálftíma.

 Til að flýta sáningunni(ef veðrið skánar einhverntímann) var ákveðið að taka tætarann undan sáðvélinni og láta aðra dráttarvél sjá um tætinguna. Þá kom í ljós að farin var lega í enda á rúllukeflinu á tætaranum sem er 4 m. breiður Pöttinger og kl. orðin1/2 fimm á föstudegi.
 Þrátt fyrir að búið væri að loka dótabúðinni á Selfossi náðist í varahlutamann sem var að ganga frá þar. Hann fann legu og svo heppilega vildi til að Bessi (Skagfirðingur) var í dótaflutningum og greip leguna með sér áleiðis. Nágranninn sem var að koma úr bænum lauk svo verkinu og legan var komin á eldhúsborðið hjá mér um  áttaleitið.
  Gærkvöldið var svo tekið í að marka og númera helling af lömbum og magasýrurnar sem höfðu farið á fullt í þessum skelfingum öllum róuðust niður, en það er nú sem betur fer oftast hefðbundinn endi á slæmum stressdögum.

     Já það sýnist svo bara stefna í rólega helgi framundan, eða þannig.
 
Flettingar í dag: 296
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 745
Gestir í gær: 119
Samtals flettingar: 421041
Samtals gestir: 38399
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 17:16:47
clockhere