26.11.2008 22:09

Pestir og krepputal.


  Mér finnst vont að vera veikur. Þá verð ég lítill í mér og sjálfsvorkuninn fer í hæstu hæðir.

  Eftir að fyrrnefnd sjálfsvorkunn hrakti mig inn úr gegningunum strax að loknum mjöltum reyndi ég að koma mér vel fyrir og gera mér þjáningarnar sem bærilegastar. Verst að mín heittelskaða var í vinnunni svo það gat ekkert kvabb verið í gangi.
 Vandamálið var, að þegar ég fór að hlusta á útvarp og renna í gegnum póstinn á netinu blöskraði mér alveg hvernig menn eru alveg á útopnu að tala sig inn í kreppuna. Þetta hafði hreint ekki góð áhrif á magasýrurnar sem voru líka í ákaflega slæmu ástandi fyrir.

  Nú var hver spekingurinn tekinn í viðtal á fætur öðrum til að spá falli krónunnar þegar hún verður sett á flot. Það er nokkuð ljóst að bara þessi umræða mun steypa henni niður í dýpstu myrkur enda dettur ekki nokkrum útflutningsaðila í hug að skila inn í landið gjaldeyrinum sem fellur til við viðskiptin. Rétt að bíða eftir meira falli krónunnar..

  Nú þegar ég er endanlega orðinn munaðarlaus í pólitíkinni, hlustar maður á stjórnmálamennina sem telja sig vera hreinar meyjar, í svikamylluhruninu. Þegar mér heyrist á þeim að þessar lántökur séu tómt rugl og látið eins og íslendingar geti valið úr lánum og helst sett lántökuskilyrðin sjálfir, þá detta mér allar dauðar lýs úr höfði. Svo þegar einn góður birtist á skjánum í kvöld og náði ekki upp í nefið á sér fyrir þessar dj. afskiptasemi í Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðnum rifjaðist upp fyrir mér að hann hefur verið manna ötulastur að berja á álverum og slíkum óþurftarfyrirtækjum. Þegar hinsvegar kom til tals að setja niður áburðarverksmiðju í blómlegu landbúnaðarhéraði leist honum vel á það og virtist ekki hafa neinar áhyggjur af því að eitthvað óhollt slæddist þar með.

 Og Össur kallinn talar um stækkun á Straumsvík og álver í Helguvík sem ákveðinn hlut.

  Hversvegna Þórunn bjarndýrasérfræðingur er ekki látin tjá sig um það, er skortur á góðri fréttamennsku.

Já, svona skrifa veikir menn.emoticon
Flettingar í dag: 427
Gestir í dag: 137
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424164
Samtals gestir: 38702
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 20:20:40
clockhere