23.11.2008 08:40

Bygguppskeran 2008.


 
Það var létt yfir byggræktendum í Eyjarhreppnum sáluga þegar þeir mættu á Testofu Hestamiðstöðvarinnar í gærkvöldi. Þar sem Einar er mikill höfðingi heim að sækja, fór góða skapið síbatnandi eftir því sem leið á fundinn.

  Það var verið að fara yfir uppskerutölur haustsins og ákveða verð til framleiðenda, og þurrkunar og umsýslukostnað þurrkunarinnar. Þó þetta væri besta byggræktunarárið í sögu Eyjarhrepps náðust ekki þau markmið að fá yfir 3 tonn af þurrkuðu byggi af hektara. Þó sumir akranna hefðu verið að gefa mikla uppskeru voru aðrir lakari og síðan urðu tjón vegna veðurs og fugla veruleg sumstaðar.
  Það er þó hægt að segja að þetta hafi sloppið til, í heildina litið, miðað við ótíðina frá því snemma
í sept, fram í okt.
  Og uppskeran hefur aldrei verið jafn mikil og jöfn að gæðum og núna.


  Þegar stytti upp í okt.byrjun fengu græjurnar að snúast. Við höfum aldrei tekið svona mikið magn inn á kæligólfið fyrr.

 Dalsmynni sf. náði að uppskera um 43 tonn sem er sama magn og notað var á búinu á síðasta ári.
  Nú virðist eftirspurnin eftir þessari afurð vera að aukast og þau sjónarmið að hverfa, sem mér fannst ríkjandi í þessum viðskiptum, að íslenska byggið ætti að vera ódýrara en það innflutta.

  Það var ákveðið að greiða framleiðendum kr. 23 fyrir kg. en við leggjum allir byggið inn hjá félaginu. Þurrkunarkostnaður á kg. verður 10 kr. og umsýslukostnaður og umbúðakostnaður áætlaður 4 kr. á kg. Með öðrum orðum byggið , þurrkað , valsað, sekkjað og komið á bíl við stöðina verður selt á 37 kr. kg. + Vsk.

  Þetta verð mun væntanlega vera breytilegt eftir verðþróun á því innflutta og síðan geta verið einhverjir sérsamningar í gangi.

  Nú er það spurning hvort gengisþróunin verði farin að lagast fyrir vorið, svo fræ, áburður og olía verði kaupandi, en nærri 100 % hækkun s.l. vor setti ljótt strik í arðsemina/tapið á þessu  "hobbýi" okkar félaganna.

   
 
Flettingar í dag: 407
Gestir í dag: 125
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424144
Samtals gestir: 38690
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 18:35:03
clockhere