09.10.2009 22:59

Afkoman í byggræktinni og ógnvænlegir reikningar.

Hvernig er afkoman? Er nokkuð útúr þessu að hafa, spurði Gunnar í Hrútatungu mig?

 Hann var á ferðinni í haust, með félögum sínum í stjórn Framleiðnisjóðs en þau kíktu við hjá okkur í byggþurrkuninni á ferð sinni um Vesturland.

 Ég endurtók náttúrulega það sem ég hefði sagt honum áður, að við þyrftum að ná þremur tonnum á ha. og 300 t. í gegnum þurrkunina  sem lágmarksmagni svo við þyrftum ekki að greiða með þessu. Við hefðum reyndar aldrei náð því.

  Reiknið þið með að ná því einhverntímann spurði Gunnar ákveðinn og hafði gaman af því að pína mig aðeins. 

 Já, svaraði ég afdráttarlaust og gerði mig svo sannfærandi í röddinni að ég held að meira að segja Gunnar hafi trúað mér. Hin sem þekktu mig mun minna eða ekkert, hafa örugglega trúað þessu.

 Nú er uppskerunni lokið þetta haustið og Söðulsholtsbóndinn kominn með skemmtilegar tölur á blað.

 Samkvæmt þeim er uppskeruaukningin hjá okkur félögunum veruleg frá því í fyrra þrátt fyrir mun færri ha. í ræktun.

 Við erum  komnir með 240 tonn af þurrkuðu byggi.  Auk þess höfum við þurrkað fyrir aðra um 50 tonn og erum því á góðum málum með þurrkunina.

 Dalsmynni sf. er svo að ná um 4 tonnum af ha. sem er fínt ( rúm 3 t. í fyrra) og erum við því með 15- 20 tonn umfram heimanot.

  Reyndar leggjum við allir framleiðsluna inn hjá Yrkjum ehf. og þeir okkar sem eru að gefa byggið, kaupum það síðan til baka á okurverði vegna þess að Einar skrifar út reikningana.

 Ég veit alveg nákvæmlega þegar hann er að koma með reikning á mig því þá er hann svo léttstígur inn forstofuna .

 Já, þetta voru ánægjuleg tíðindi  og síðan er hellingur af hálmi kominn í plast og miklar ráðagerðir uppi um að breyta honum í umkomulausar íslenskar krónur.emoticon 

  En margar.emoticon 

 Ég var svo bara að prófa að skrifa eitt myndalaust blogg til tilbreytingar. emoticon 

Takið það svo bara rólega um helgina.

08.10.2009 22:06

Smiðirnir og hann Sigur frá Hólabaki.

 Það stenst nokkurnveginn á , að morgunverkunum í fjósinu lýkur rétt fyrir átta og smiðirnir renna í hlað tilbúnir í átök dagsins. Þeir eru iðnir eins og maurar og líta ekki upp frá vinnunni þó ég sé eitthvað að reyna að tefja fyrir þeim.
 Og þó þetta sé skelfilegur tími til byggingarvinnu utanhúss (að mínu mati) þá höfum við verið ótrúlega heppnir með veður þessa daga.

 Það er verið að einangra og klæða fjósið að utan. Á verkplani ársins átti þetta að vinnast í júní eða júlí en nú ræður maður sér ekki fyrir kæti að sjá þó fyrir endann á þessu fyrir veturinn.


 Miðað við söguna eru þetta þó tiltölulega lítil skekkjumörk því klæðningin átti að komast á  2004 og árlega síðan.

 Það er svo tímanna tákn að ekki er til efni í rautt þakjárn í landinu og verður ekki næstu vikurnar svo frágangur á þakköntum bíður því enn um sinn.

 Það var svo verið að sónarskoða restina af hryssunum sem Sigur frá Hólabaki var að þjónusta hér í sumar.



 Þó manni hafi nú ekkert litist á rólegheitin sem voru í girðingunni hjá honum. þá var útkoman ágætlega ásættanleg eða 2 geldar af 21.

 Önnur gelda hryssan  virkaði nú sem hálfgerður einfari í hólfinu en hin hvarf nú í hópnum.


  Nú er það spurningin hvaða eðalstóðhestur tefur vegfarendur í þessu hólfi næsta sumar??





 
 

06.10.2009 22:58

Byggþreskingu loksins lokið.

 Loksins lauk byggþreskingunni þetta haustið í Dalsmynni.

 Það var metuppskera í fyrra og nú var það met slegið. Haldi þetta svona áfram endar þetta trúlega með ágætis afkomu í byggræktinni.

 Þegar Einar verður búinn að gefa mér upp uppskerumagnið mitt í kílóum munu birtast hér nánari afkomutölur í byggræktinni þetta árið.

 Nú er aðeins eftir að þreskja nokkra ha. í sveitinni sem vonandi klárast á morgun því nú er rok í kortunum.

 Þetta er fyrsta haustið  í byggræktarsögu Eyjarhrepps sem nánast ekkert tjón verður í ræktuninni vegna veðurs eða annars á haustmánuðum.



 Það var ótrúlegt hversu vel gekk að komast um akrana eftir votviðri haustsins en þarna þurfti Sampóinn samt smáaðstoð í fyrsta hring. Þessi akur var síðan saltaður og verður reynt að svamla um hann á morgun.


 Svona var útsýnið hjá þreskjaranum á sínum eigin akri sem var að gefa góða uppskeru eftir að hafa verið með rýgresi sem skiptirækt  s.l. sumar eftir 4 ár í byggi.



 Og það er nákvæmlega svona sem fyrsta flokks bygg lítur út, áður en það rennur í gegnum þurrkarann og lendir  síðan í Dalsmynniskúnum, grísunum á Brúarlandi eða í snilldarkanínunum hennar Ransý.
 Það er þó ekki útilokað að einn og einn sekkur lendi hjá einhverjum rolluköllum eða kúabónda sem er svo heppinn að hitta á mig daginn sem ég fer réttu megin fram úr rúminu.




 Já, það er góður dagur þegar síðasti  byggvagninn er tæmdur í móttökuna.emoticon 
 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere