10.07.2010 22:52

Grenjavinnslan, - aular af austurbakkanum og ofurdýr vesturbakkans.

Þó glíman við rebbana endi seint, er þó mestu törninni lokið þetta árið.

Það hafa orðið miklar breytingar á atferli refanna og óðulum síðan ég byrjaði í þessu .

Fyrstu árin glumdu undantekningarlaust aðvörunaröskrin í eyrunum  ef dýrin urðu vör við mann. Þetta varð þeim síðan oft að falli þega ég fór að átta mig í þessu nýja verkefni.

 Eins og alltaf í náttúrunni  breyttist þetta, því þau dýr sem staðsettu sig ekki með þessum hætti áttu meiri möguleika á að lifa af í hernaðinum.

Nú eru mörg ár síðan ég hef heyrt aðvörunaröskur í lágfótu.

 Nú er maður að glíma við dýr sem virðast vera komin með auka skilningarvit og finna á sér þegar óvinurinn er kominn á svæðið. Þessi dýr gæta þess síðan vel að halda sig í verulegri fjarlægð og hvika ekki frá vindáttinni af greninu.

   Þetta litaafbrigði á hvolpi hef ég ekki rekist á áður. Hann var undan ofurlæðunni  sjá hér neðar.

 Í Eyja og Miklaholtshrepp var á 7 grenjum þetta vorið.

Þetta er nokkuð stórt svæði frá Haffjarðará í austri, að Baulárvallarvatni í vestri.

Við eru 3 sem sinnum þessu og skiptum svæðinu á milli okkar.

Á þessu svæði eru þekkt tæp hundrað greni en það er nú ekki farið á nærri öll.

 Það var svo sérstakt í vor hversu mörg gelddýr náðust, sérstaklega á austurhluta svæðisins.
Á tímabili virtust spretta upp tvö fyrir hvert fallið.

Ég kenndi þetta því, að Austurbakkamenn skáru niður grenjavinnsluna síðasta ár og rebbunum hefur að vonum litist vel á sig hér á vesturbakkanum, lausir úr þrengslunum þar, og áttuðu sig of seint á því hvernig tekið yrði á móti þeim.

Óþarft er að taka fram að þeir standa vesturbakkadýrunum langt að baki í slóttugheitum.

Þessi var dálítið sérstakur. ekkert genginn úr hárum seinnipartinn í maí.

Reyndar finnst mér mun skemmtilegra að eiga við þá, en hin ferfættu kvikindin af austurbakkanum sem flæða hér yfir eins og engisprettuhjörð þegar kemur fram í júni. Þau fyrirbrigði eru alfriðuð.

 Já það eru fallin um 50 dýr þetta vorið og hvað sem líffræðingarnir og allskonar lið sem hefur hátt um ýmsa hluti í lífríkinu segir, þá veit ég að það myndu gerast ýmsir slæmir hlutir ef þessi hópur væri farinn að herja á náttúruna hér.

 Það er rétt að taka fram að ég veit að hér eru enn í sveitinni nokkur fjöldi dýra.

Það er þó ekkert markmið hjá mér að útrýma refnum enda ekki hægt.

Markmiðið er að halda honum í skefjum og það er nokkuð ljóst í mínum huga að á erfiðasta svæðinu hér, eru of mörg dýr til að fuglalífið sé ásættanlegt.

 Þessi ofurlæða hafði betur 2 sl. vor og mér var löngu ljóst að það yrði að vera tilviljunarkennd heppni sem felldi hana.  Það er alltaf blendin tilfinning þegar svona erfið dýr eru úr sögunni.

 Já, þessu er reyndar ekki lokið því eftir er að fara aðra ferð á nokkur gren því vitað er um a.m.k. tvö óþekkt gren með uppeldi og verður reynt að hitta á þau dýr þegar hópurinn verður farinn að skoða heiminn og ónotuð greni. 

 Síðan á eftir að taka rúnt á fjallagreni sem ekki hafa verið í ábúð lengi, til að sýna næstu kynslóð grenjaskyttna hvar þau eru.

Flettingar í dag: 73
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 423810
Samtals gestir: 38572
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 03:35:02
clockhere