08.04.2011 06:28

Varmadælur og húshitun.

Fyrir margt löngu ( u.þ.b.10 árum.) skoðaði ég hagkvæmni þess að hita upp húsnæði með varmadælu. Ég eyddi ekki löngum tíma í það áður en það var blásið út af borðinu. 

 Nú er haldin fundaherferð um landið í boði Iðnaðarráðuneytis/ Orkuseturs til að kynna fyrir þeim tæplega 10 % landsmanna sem þurfa að búa við raforkuhitun nýja möguleika í notkun varmadæla.

 Það sem hefur breyst á þessum 10 árum er.

1. Tæknin hefur breyst m.a. með betri orkunýtingu.
2. Verðið á stofnbúnaðinum hefur lækkað umtalsvert og er verið að tala um svipað eða jafnvel        
    lægra verð í krónutölu en fyrir 10 árum.
3. Raforkuverð til upphitunar hefur snarhækkað.
4 Síðast en ekki síst  stendur nú til boða að þær niðurgreiðslur sem sparast ríkinu á næstu
   8 árum vegna breytinga í varmadælu eru greiddar sem eingreiðsla/styrkur.


 Það voru þeir Sigurður og Benedikt frá Orkusetri sem mættu á Breiðablik í gærkveldi og fluttu fundarmönnum fagnaðarerindið.
 Miðað við ákveðnar gefnar forsendur sýndu þeir félagar fram á að svona breyting gæti jafnvel borgað sig upp á 2 árum.



 Það mættu um 30 manns úr Borgarbyggð og Eyja-og Miklaholtshreppi.
 

Reyndar var líka farið yfir orkusparandi aðgerðir, uppbyggingu orkureikninga, hagkvæmni dreifbýlishitaveitna og m. fl.

Þeir félagar enduðu á að setja upp töflu með fjölda gjaldenda í Eyja og Miklaholtshreppi sem byggju við rafhitun og íbúafjöldann á bakvið þá. Þær tölur voru hinsvegar vægast sagt dularfullar svo útreikningar unnir úr þeim voru lítilsvirði í umræðunni þarna.

 Í þessu sveitarfélagi er býsna skrautleg flóran í orkumálum. Hér eru reknar 3 aðgreindar hitaveitur og tvö býlanna eru svo með heimarafstöð. Um fjórðungur íbúanna býr hinsvegar við rafhitun.

 Sveitarfélagið rekur borholu sem þjónar byggingum og íbúum í Laugargerði.

Í Eyjarhreppnum er hitaveitan Kolviðarnes sf. sem er komið upp og rekin af einstaklinum án aðkomu sveitarfélagsins og þjónar 9 lögbýlum og byggþurrkun Yrkja ehf.
 Þetta er trúlega ein af dýrari hitaveitum í dreifbýli sem hefur verið komið upp án aðkomu sveitarfélags.

  Síðan er hitaveita Eyja- og Miklaholtshrepps sem þjónar um 9 lögbýlum, kirkju, félagsheimili, fiskþurrkun, gróðrarstöð og þjónustukjarnanum á Vegamótum.
 Þar er sveitarfélagið hluthafi ásamt því að koma að félaginu með þolinmótt fé bæði vegna borunar og síðan vegna lagningu veitunnar í upphafi.

 Nú verður trúlega sest niður og reynt að vinna úr þessari stöðu en væntanlega horfa þeir sem búa við rafhitun á málið misjöfnum augum. Allt frá því að stefna á varmadælu sem í a.m.k. einu tilviki er á lokastigi og upp í það að láta sig dreyma um hitaveitu sem mun trúlega verða ákaflega óhagkvæm fyrir stærsta hluta þessa svæðis.

En stundum hafa menn litið framhjá því í dreifbýlinu því hægt er að reikna arðinn með margvíslegum hætti..

06.04.2011 07:31

Kýrnar í klaufsnyrtingu.


 Það gekk mikið á í fjósinu í þegar kúaflotinn fékk árlega klaufsnyrtingu sína.

Nú er þetta samt allt annað mál heldur en í upphafi þegar þetta hét klaufskurður enda höfðu kýrnar ekki upplifað fótsnyrtingu frá landnámi. Þá voru þetta blóðugar aðfarir og fjöldi kúnna haltur dögum saman.

 Nú gengur þetta hratt fyrir sig og eftir að meistari Guðmundur hafði fengið startkaffið sitt og sagt okkur fyrstu sögur dagsins var vaðið í þetta og þessar 40 kýr + afgreiddar fyrir hádegi.



 Þó Guðmundur sé gæddur þeim sjaldgæfa hæfileika að geta unnið á fullu og talað í leiðinni nýttist það illa í gær sökum hávaða í slípirokk og vökvagræjunum.



 Og ég held bara að allar kýr hafi verið óhaltar í dag.



 Svona á þetta að líta út og nú geta kýrnar og bændurnir verið áhyggjulaus næsta árið með þennan málaflokk.

04.04.2011 21:27

Svona 2008 snjósleðaferð.

 Þegar maður kemst ekki á fjöll fyrir snjóleysi er gott að kíkja í albúmin og renna þetta í huganum.
Þessi ferðin var snemma árs 2008 þegar allt lék í lyndi og við elskuðum öll vatnsgreiddu ofurmennin okkar heitt.



 Hér eru það Ljósufjöllin austanverð sem sjást í fjarska.( frekar stuttum samt).



 Og blessaður Hesturinn var í hina áttina og kannski færri sem hafa barið hann augum héðan.



 Og þessi gamla góða mynd af Stóra Langadal stendur alltaf fyrir sínu. Fagrimúli og Eyrarfjall (fjær) til vinstri og Grásteinsfjall til hægri.



 Núpudalurinn klikkar náttúrulega ekki, alltaf langflottastur. Þríhnjúkar til vinstri, Skyrtunnan og síðan sést í Svörtufjöll til hægri.
Flettingar í dag: 956
Gestir í dag: 109
Flettingar í gær: 788
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 804869
Samtals gestir: 65251
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 19:53:57
clockhere