06.04.2011 07:31

Kýrnar í klaufsnyrtingu.


 Það gekk mikið á í fjósinu í þegar kúaflotinn fékk árlega klaufsnyrtingu sína.

Nú er þetta samt allt annað mál heldur en í upphafi þegar þetta hét klaufskurður enda höfðu kýrnar ekki upplifað fótsnyrtingu frá landnámi. Þá voru þetta blóðugar aðfarir og fjöldi kúnna haltur dögum saman.

 Nú gengur þetta hratt fyrir sig og eftir að meistari Guðmundur hafði fengið startkaffið sitt og sagt okkur fyrstu sögur dagsins var vaðið í þetta og þessar 40 kýr + afgreiddar fyrir hádegi.



 Þó Guðmundur sé gæddur þeim sjaldgæfa hæfileika að geta unnið á fullu og talað í leiðinni nýttist það illa í gær sökum hávaða í slípirokk og vökvagræjunum.



 Og ég held bara að allar kýr hafi verið óhaltar í dag.



 Svona á þetta að líta út og nú geta kýrnar og bændurnir verið áhyggjulaus næsta árið með þennan málaflokk.

04.04.2011 21:27

Svona 2008 snjósleðaferð.

 Þegar maður kemst ekki á fjöll fyrir snjóleysi er gott að kíkja í albúmin og renna þetta í huganum.
Þessi ferðin var snemma árs 2008 þegar allt lék í lyndi og við elskuðum öll vatnsgreiddu ofurmennin okkar heitt.



 Hér eru það Ljósufjöllin austanverð sem sjást í fjarska.( frekar stuttum samt).



 Og blessaður Hesturinn var í hina áttina og kannski færri sem hafa barið hann augum héðan.



 Og þessi gamla góða mynd af Stóra Langadal stendur alltaf fyrir sínu. Fagrimúli og Eyrarfjall (fjær) til vinstri og Grásteinsfjall til hægri.



 Núpudalurinn klikkar náttúrulega ekki, alltaf langflottastur. Þríhnjúkar til vinstri, Skyrtunnan og síðan sést í Svörtufjöll til hægri.

03.04.2011 06:41

Stokkendurnar mættar á tjörnina.

 Það fór ekki milli mála þegar ég renndi hundaflotanum út í morgunaftöppunina að stokkandaparið mitt var mætt í tjarnarvökina.

 Mér fannst reyndar auðheyrður feginstónn í garginu hjá þeim þegar þau sáu að ég og hundarnir hefðu haft veturinn af. Og það var fyllilega gagnkvæmt allavega hjá mér.



 Þó ég viti innst inni að þetta hljóti að vera einhverjir afkomendur upphaflegu andanna lít ég algjörlega framhjá því.
 Þær eiga eftir að halda hér til fram að varpi en þá hverfa þær í nokkurn tíma þar til þær birtast á ný með ungahópinn sinn. Trúlega eru það kettir og hundar sem sjá til þess að
hreiðurstæðið er valið annarsstaðar.


Fljótlega mun svo Álftaparið birtast en það stoppar nú ekki mjög lengi fram á vorið.



 Kannski láta Urtendurnar sjá sig en það er nú með andirnar mínar eins og saklausa almenna borgara í miskunnarleysi styrjalda í útlandinu, að haustið og reyndar veturinn verður mörgum
 þeirra skeinuhætt á vígvöllum veiðimannanna.



 Þessi er nú bara til að minna á sumarið sem mun óumflýjanlega mæta á svæðið líka.

Bara spurning hversu snjólétt það verður?
Flettingar í dag: 3062
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651160
Samtals gestir: 57993
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:36:02
clockhere