16.02.2012 08:34

Hvolpar, kal, umhverfismat og vorblíða á Langanesi.

 Það var mikill léttir að sjá síðustu svellalögin hverfa af túnunum.

 Nú er að taka í sig kjark og fara í umhverfismat og meta hvort túnin hafi staðið af sér þessi rúmlega 2 mán. svellalög.  Það hefur trúlega bjargað miklu að jörðin var  ófrosin og kemur ófrosin undan þessu, en það er óvanalegt hér á þessu sælusvæði íslensks veðurfars.
 Allavega er ljóst að kaltjón verður sem betur fer  langt undir þeim væntingum sem voru í gangi fyrir 2 vikum eða svo.



 Síðan er ekki eftir neinu að bíða með að vaða í áburðaráætlun og leita svo tilboða hjá vinum mínum sölumönnunum.

 Það er vonandi rétt hjá Svenna í Hlíð  að veturinn sé í 3 mán. og þeir séu búnir.

Og Langnesingurinn sem ég talaði við í gærkveldi sagðist ekki láta sig dreyma um það að fá eins gott veður í vor og hann upplifði þessa dagana.

 Ekki nema von að maður sé í bjartsýnisstuði þessa dagana.



 Tinni junior dafnar vel  og er alveg fádæma efnilegur. Það er að vísu velþekkt umsögn um alla hvolpa úr minni ræktun á þessum aldri og niðurstaðan of oft verið önnur þegar alvara lífsins tekur við.



 Þessi bróðir hans er einstaklega skemmtilegur og sérstakt þegar systkinahópurinn ryðst út eftir næturlanga inniveru, kemur hann til mín og eltir mig út. Samt er hann grimmastur við matarskálina.
 Það er ljóst að sá sem hreppir hann þarf að sannfæra mig um ýmislegt og allt prútt verður tilgangslaust.



 Af meðfæddri hæversku ætla ég ekki að hafa nein orð um litlu prinsessuna mína sem ég á í óvanalega miklum vandræðum með að finna nafn á.

 Og fyrir þá sem eru alltaf svo duglegir að" like " hjá mér er like-ið vonandi komið í lag.
Flettingar í dag: 369
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 1149
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 435051
Samtals gestir: 40175
Tölur uppfærðar: 11.5.2024 10:59:56
clockhere