28.09.2014 21:47

Smaladagur með hefðbundnum ævintýrum.

 Það var niðaþoka og rigning.  Smölunarverkefnið þennan daginn var vestanverður Núpudalurinn. Spáin var samt ákaflega jákvæð, lofað  að létta myndi til um kl. 10 - 11 samkvæmt fleiri en einum spámiðli.




 Hér erum við Iðunn að taka smá pásu áður en lagt er upp í Eyjalágarnar. Og það stóð á endum að þegar kom að gangnaskilum varð smalaljóst og þó þokan lægi niður í hlíðarnar var skyggnið þó í góðu lagi.

 Allt fullt af fé í Þórarinsdalnum en mæðgurnar Korka og Ronja  náðu strax tökum á  því og það rann mótþróalaust réttar götur yfir í Seljadalinn.


 Þar kom strax babb í bátinn.
 Þegar ég var að þvera hann mun ofar en venjulega, kem ég auga á kindur fyrir ofan mig.

 Neðst í þokunni alveg upp undir klettum .  

 Með viðeigandi munnsöfnuði snerum við Stígandi við, komum okkur í hvarf frá rollunum og lögðum á brattann upp skriðuna, upp á efsta hjallann í dalbotninum. Til að sjá kindurnar  þurfti ég að koma tíkunum yfir hæð fyrir ofan mig  en þar var svo gil milli kindanna og þeirra.

 Þar sem kindurnar höfðu séð mig tók ég ekki sénsinn á að tapa þeim upp í þokuna en sendi mæðgurnar út í þeirri von að þær myndu koma auga á féð um leið og þær sæu yfir hæðina.


 Það stóð á endum að þegar hæðinni var náð sá ég engar kindur en mæðgurnar hverfa í þokuna. 
 
Auðséð að þær höfðu náð að staðsetja kindurnar því báðar voru á fullri siglingu, Ronja  sem fer aðeins þrengra út var í trúverðugri stefnu og Korka talsvert meira til hægri.


 
  Það var ekki leiðinlegt að sjá þær birtast með dilkærnar á hárréttum hraða og með fulla stjórn á aðstæðum.



  Mæðgurnar stýrðu þeim svo af miklu öryggi niður á götu og segir ekki meira að þessum fénaði.


 Til að gera langa sögu stutta er ævintýrunum frá þessu þokudæmi  til innrekstursins sleppt, en ævintýrið á lokakaflanum á þjóðveginum var allavega myndað mjög rækilega af vel græjuðum asíubúum . Örugglega verið þeim dýrmætt myndefni emoticon .


  Hér er Hrossholtsmæðgur á síðustu metrum smalamennskunnar.



 Og Aron Sölvi  að koma lagi á  eitthvað sem er komið útaf götunni.



 Einhvernveginn tókst að hanna réttina þannig að það gengur alveg einstaklega vel að koma safni inn í hana. Engin brjálæðisköst tekin við það. emoticon



 Restin að koma sér innfyrir.



 Hér er Svandís Svava komin með smalastafinn og lögð af stað að finna hana Bíldu.



 Já, og þarna er hún út við grindina.



 Það tók rúma tvo tíma að renna safninu  um 500 fjár gegnum rögunarganginn en ein umferð dugði til að flokka þennan daginn. Sleppt úr honum í 3 áttir.

  Hér fyrir ofan er síðan verið að vigta og merkja það sem sleppur gegnum nálaraugað og verður ómskoðað og stigað.

 Það er næsta sauðfjárverkefni hér, Síðan  förgun, en allt sláturfé er tekið sama daginn. 

Svo byrjar nýr árhringur í sauðfjárbúskapnum emoticon.



Flettingar í dag: 203
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418050
Samtals gestir: 37962
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 13:36:47
clockhere