11.11.2014 20:14

Tíkur , hundar og - geldingar. !

Ég velti því stundum fyrir mér hversvegna svo margir vilja tíkur frekar en hunda þegar ákveðið hefur verið að kaupa hvolp í smalið.

 Er sjálfur  með tíkur í ræktuninni sem er þó ekki umsvifamikil.      

 Einfaldara að finna hund í pörun en öfugt, þegar verið er að prufukeyra ættarlínurnar saman. emoticon

 Ég er hinsvegar ekki viss um að flest þeirra sem leita sem ákafast að tíkarhvolpi séu endilega að stefna að ræktun.

 Menn trúðu því á tímabili að ekkert mál væri að losna við lóðaríin og það sem þeim fylgdi með sprautu tvisvar á ári.  Þetta er auðvitað hægt en ég held nú samt að þetta sprautudæmi sé á útleið vegna ýmissa aukaverkana sem menn vilja rekja til þess.

 Margir trúa því að tíkurnar séu auðveldari í umgengni og tamningu sem er nú að mínu mati ekki rétt. 
Þegar svo ótímabær og óvænt gotin  koma í heiminn þá er því tekið sem hverjum öðrum húskross.
          

                      Þetta var nú samt útpælt
                    
 Dálítið spennandi samt og skemmtileg svona á ákveðnum tíma, þó sú ánægja geti orðið dálítið súr ef illa gengur að losna við skemmtilegheitin.
  
 Þó nokkrir vilja að vísu hafA það í bakhöndinni að geta slegið í eitt og kannski tvö got ef tíkin kemur til með að virka við það sem hún á að gera .

  Ég hef fullan skilning á þeirri hugsun.
 

     Já , kominn smá hvolpafiðringur enda kannski spennandi got í kortunum.emoticon


 Ef ég væri hinsvegar ekkert í ræktun, þá er alveg kristaltært að ég myndi láta tíkurnar eiga sig þegar kæmi að því að endurnýja smaladýrin.

 Allra hluta vegna.

 En það yrði þá grundvallaratriði að láta það sama yfir hundana ganga og smalahestana mína.

 Láta fjarlægja úr þeim kúlurnar, svona um eins og hálfsárs aldurinn.

 Breytingin á þeim vinnulega séð verður engin, En allt hormónastressið og  merkingar á mönnum og málleysingjum og dekkjunum náttúrulega, hverfur.

 Bara átakalaust og skemmtilegt líf.

 Og ekki nokkur einasta hætta á ótímabæru goti. emoticon



 Félagi Vaskur er gott dæmi um gelding sem svínvirkaði án kúlnanna og afsannaði kenninguna um óeðlilega holdasöfnun þeirra kúlnalausu.

 Þetta var virkilega erfiður hundur í tamningu og notkun framanaf. Fram úr hófi sjálfstæður og fólgrimmur bæði við menn og málleysingja.

  Svo erfiður að ég treysti mér ekki til að selja hann sem þó var ætlunin í upphafi.

Svo kúlurnar voru fjarlægðar og Vaskur varð með tíð og tíma aðalsmalinn.

En hafi ég látið mig dreyma um að lundin blíðkaðist eitthvað eða  hann yrði meðfærilegri við geldinguna gekk það alls ekki eftir.

 Samt ekki frá því að hann hafi róast í daglegri umgengni.

Bara svona til umhugsunar fyrir  tíkarleitendurnar emoticon

04.11.2014 21:50

Adrenalínflæði, magahnútar og afreksverkin í fjallinu heima.

Ég horfði á kindurnar fjórar hoppa úr kerrunni, en í stað þess að hlaupa til vinstri að sleppistaurnum fóru þær í hina áttina  og stoppuðu svona 20 - 30 m. úr braut.

Ég hafði ætlað að senda Korku út á hægri hönd en skipti um skoðun við þetta , steig niður af smalapallinum og færði Korku vinstra megin við mig , kom mér uppá pallinn, leit á tíkina, af henni á kindurnar og sagði lágt við hana . Vinstri SÆKJA. 

 Korka  spólaði af stað og þó ég vissi að vegna hæðarbungu á sléttum melnum milli okkar og kindanna sæi hún þær ekki, vissi ég líka að það kæmi ekki að sök.

  Þó hún sé ekki nema 3 ára er fullur skilningur milli okkar í þeim málum. Adrenalínið var farið að flæða en hnúturinn í maganum sem fylgdi þessu fyrstu árin er hættur að gera vart við sig. 

 Það er svo  alltaf sama lottóið hvernig kindurnar eru sem úr kerrunni koma. 

 Reyndar held ég því allajafna fram að góðir hundar eigi að ráða við allt sem kemur upp í brautinni .

 Sé það rétt eru hundarnir okkar ekki alltaf nógu góðir . 

  Og þó þeir ráði við þetta allt gera erfiðar kindur það að verkum að dýrmæt stig eru að tapast hér og þar. 
 Við Korka vorum þarna með fyrsta rennslið í A . flokknum. Það er bæði gott og slæmt. Alltaf gott að vera búinn, en slæmt að geta ekki horft á nokkur rennsli til að átta sig á hverju sé von þegar kæmi að mínu rennsli.  J

  Já þetta leit bara vel út til að byrja með og mér sýndist að við værum með nánast fullt hús stiga þegar kindurnar komu til mín að pallinum.
 En í stað þess að taka sveig afturfyrir mig og byrja á þríhyrningnum, snarstoppuðu þær til hliðar við mig. 


 Hér er Ronja með þetta á hreinu og kemur hárrétt inn í  þríhyrningninn.


  Og ekki nóg með það heldur skiptu þær sér í 2 + 2 . Ég áttaði mig strax á því að nú stefndi í óefni, hikaði og íhugaði aðeins áður en ég ákvað að senda Korku aðeins til baka til að ná kindunum saman og af stað í rétta átt. - En hikið reyndist okkur Korku dýrt.. 

  Í nánast sömu andrá tóku tvær kindanna sprettinn til baka og spöruðu sig hvergi. Þó þær kæmust ekki nema nokkra tugi m. vissi ég að nú væri ég kominn í alvarleg vandræði. Það gekk eftir og þó kindurnar næðust saman og þríhyrningurinn kláraðist voru kindurnar orðnar strekktar og erfiðar . Það gekk illa að skipta hópnum og inn í réttina fóru þær ekki fyrr en 1/2 mín eftir að ég féll á tíma.


 Hér smella Dóri og Smali sínu rennsli inn í réttina vafningalaust.

 Ég gaf mér að þarna hefði ég trúlega  fengið milli 30 - 40 refsistig og þó vel gengi daginn eftir, yrði það þungur róður að komast á pall í þetta sinn. Landsmótið er tveggja daga keppni og samanlagður stigafjöldi ræður röðun keppenda í sæti.

  Undantekningarlítið gengur mönnum mjög misjafnlega milli daga.  
 
 Oft eru kindurnar misjafnar og síðan eiga smalarnir og ekki síður hundarnir, sína góðu og slæmu daga. Þessvegna er þetta alltaf jafn rosalega spennandi og keppendur yfirleitt löngu búnir að læra að taka þetta alltsaman ekki of hátíðlega. 

 Vegna veðurs á sunnudeginum var seinni dagurinn svo blásinn af og fyrra rennslið látið  ráða úrslitum í þetta sinn.


 Frá Dalsmynni var mætt með 3 hunda í keppnina. Ronju frá Dalsmynni í Unghunda, Smala frá Miðhrauni í B fl. og systir hans Korka í A.fl. 


 Hér skyrpir Ronja út úr sér ullarlagði eftir að hafa þurft að taka aðeins í þær til að koma þeim úr kyrrstöðu.


 Ronja vann unghundana með 66 stigum en þar voru 6 keppendur. Smali vann B fl. með 85 st. sem var frábær frammistaða ekki síst vegna þess að þarna var eigandinn Dóri tengdasonur að taka þátt í sinni fyrstu keppni með hann. Korka lenti svo í 4 sæti  af 10 keppendum í Afl. með 60 stig . 


 Á landskeppnina mæta  undantekningarlítið mjög öflugir smalahundar þó gengi þeirra í brautinni sé misjafnt. Ég reikna með að það eigi við alla keppendurna það sama og með mig að verðlaunasæti, jafnvel efsta sætið skilar ekki jafn mikilli og eftirminnilegri minningu og mestu kraftaverkin sem þessir hundar eru að vinna í smalamennskum á heimaslóðum. Sum þeirra eru svo ótrúleg að menn leggja ekki í að segja frá þeim nema hafa einhver vitni þeim til staðfestingar.

 Og eins og alltaf kemur maður heim af landsmóti hokinn af reynslu og veit alveg nákvæmlega hvernig á að tækla þetta næsta ár emoticon .

 Sýnishorn af keppnisbraut . Langa brautin er oft um 500 m.+ fyrir þyngsta flokkinn.




21.10.2014 20:43

Regnþolið fé og lausafé allskonar.

 Fyrsti snjórinn þetta haustið féll í nótt. Þá dugði ekki annað en setja allt á fullt til að gera klárt til að taka inn lömb og veturgamalt. 

  Dagurinn tekinn í að moka út úr fjárhúsunum og síðan var sett inn í kvöld, lömb og veturgamalt sem höfðu haft það fínt á grænfóðurakri sem ekki náðist að slá aftur vegna einhverrar rigningar sem settist hér að um tíma í haust.




 Það verður væntanlega bólusett við garnaveikinni á morgun og síðan verða lömbin úti í nokkra daga í viðbót ef veður leyfir áður en þau verða tekin inn og afulluð.

Aldrei þessu vant hefur verið fjárfest í allskonar fénaði í haust.




 Þetta er forystutilvonandisauðurinn Eitill, en hér hefur ekki verið til forystukind í um hálfa öld.

  Planið er að gera tilraun með að temja hann eins og tíðkaðist hér áður fyrr meir þegar sauðirnir hlýddu orðum og bendingum húsbænda sinna eins og hundarnir mínir gera í dag.  emoticon 

  Takist það ekki er auðvitað ljóst að þetta nútíma forystufé er náttúrulega ekki nema svipur hjá sjón miðað við forfeður sína. 

  Eins og ég hef reyndar látið óspart í ljósi eftir að kexruglað "forystufé " fór  að verða til vandræða hér sem og væntanlega annarsstaðar. emoticon

 

 Það var svo ákveðið að koma hér upp smá kollóttum fjárstofni og í framhaldinu var farið í fjárkaupaleiðungur í Reykhólasveit og norðanverðan Steingrímsfjörð.




   
 Hér er alltaf notaður kollóttur hrútur á gemlingana og nú á að reyna að láta hann verða til á búinu í stað þess að standa í stöðugum hrútakaupum til að sinna þessu. Eftir að rögunagangurinn er kominn fullkomlega í gagnið skipta handföngin mun minna máli í amstrinu.



 Hér sést þegar allt var á fullu í ómskoðun og stigun í líflambavalinu. Rigningarnar í sumar og haust voru ekki mjög vaxtahvetjandi fyrir lambfénaðinn og var meðalvigtin kg. minni en í fyrra , sem var reyndar slæmt ár. Fór niður í 17 kg. sem er óásættanlegt. emoticon

 Það er því ekki um annað að ræða en skrúfa fyrir rigningarnar að einhverju leiti  eða að fara að rækta regnþolið fé .

 Trúlega er þó best að halda sig við það að fyrst botninum var ekki náð í fyrra er hann pottþétt þetta árið. 

 Svo nú lítur þetta bara vel út fyrir næsta haust. emoticon
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere