25.03.2008 23:46

Snyrtipinnarnir.

   Það hafðist af að klaufsnyrta  kúahópinn ,fjörutíu og eitthvað og gekk bara vel. Kvöldmjaltirnar töfðust að vísu um klukkustund og þá átti eftir að gefa öllum pakkanum þannig að það var verið að til kl. 9.
 Þetta var nú léttara en ég hafði reiknað með sérstaklega fyrir mig sem sá um að hafa tilbúna kú í tökubásnum um leið og klaufskurðarbásinn losnaði. Atli og Guðmundur stórsnillingur  sáu um snyrtinguna.  Atli sá um lagklaufirnar og að húkka böndunum af og á o.fl. en yfirsnyrtirinn sá um hitt. Það var ekki að spyrja að því að íslenska landnámskýrin var snögg að átta sig á því að þetta var sama kerfið og í mjaltabásnum þannig að ég hleypti bara næstu kú í biðröðinni í tökubásinn. (Þetta var svona næstum þannig.) Það var síðan lýsandi dæmi um gáfnafarið hjá þessari dásamlegu skepnu að þó þær í tökubásnum horfðu á meðferðina á stallsystrum sínum í klaufskurðarbásnum þá gengu þær hiklaust í hann á eftir þeim með bros á vör. Margt skrýtið í kýrhausnum.
 Þetta var í fyrsta skipti frá landnámi að kýrnar í Dalsmynni eru snyrtar svona alvöru klaufsnyrtingu. Þrátt fyrir það var ástandið á klaufunum ekki skelfilegt nema á svona 4-5 kúm sem er auðvitað of mikið. Nú er spurningin hvort líði svona  1000 ár til næstu snyrtingar.  Atli er með fullt af myndum af græjunni og framkvæmdinni á símanum svo ef einhver er áhugasamur um myndir þá er bara að gefa comment um það.. Og þar sem þetta var langur og erfiður dagur, lagði bóndinn lykkju á leið sína út í pottinn og kom við í kæliskápnum. .
Flettingar í dag: 35
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 1482
Gestir í gær: 56
Samtals flettingar: 448818
Samtals gestir: 41443
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 01:23:52
clockhere