17.02.2015 21:25

Bæjarferð með blóðugu ívafi.

 Það var brugðið sér í bæjarferð í dag enda spáin góð eða þannig ;) . Meðal erinda var að leyfa honum Dreyra Sigurssyni að kíkja í bæinn.

 Hann er námsverkefni fyrrverandi verknema  sem er á hrossabraut á Hvanneyri.

 Á laugardaginn kom í ljós að Dreyri var tjónaður á tönn og erfitt að átta sig á hvað var að eða hvað hefði skeð.
  Við læknisskoðun á mánudeginum kom í ljós að ein framtönnin hafði losnað illilega og ekki um annað að ræða en að reyna að spengja hana fasta eða kippa henni úr. Svo hann var gripinn með í bæinn og settur í hendurnar á Björgvin.




 Þarna er búið að setja tönnina á sinn stað og víra hana. Vel sést hvernig tannholdið hefir rifnað þegar tönnin gekk upp og framávið.

 Vegna þess hvað langt var um liðið var komin ofholdgun við sárið og lykt af því.

  Það var ákveðið að reyna að bjarga tönninni og eftir mikil þrif og nokkurt basl tókst að þrengja tönninni aftur á sinn stað og í annarri tilraun að víra eða spengja hana þannig að doktorinn væri ánægður. 



 Hér á bara eftir að ganga frá vírendum og fela þá með hóffylliefni svo þeir særi ekki.

 Nú er Dreyri kominn í 6 vikna frí og verkneminn mun fá systir hans ári yngri ( á fjórða vetri) til að spreyta sig á í tamningarnáminu.

 Ekki er með nokkru móti hægt að átta sig á hvað það var í stíunni sem Dreyra tókst að  festa tönnina í .

13.02.2015 20:07

Uppeldið og erfiðu ákvarðanirnar.

   Ég hef alveg haldið mig við tíkur í uppeldinu.

Allar götur frá því að Vaskur ílentist hjá mér .


  Hann fæddist árið 2000 og dagaði uppi hjá mér vegna grimmdar og almenns ribbaldaháttar. 

Algjör Garrý. 

 Hef annars ekkert á móti hundum, þó það hentaði mér ekki að flækja málin í sífelldri og endalausri leit minni að góðum ræktunartíkum. 

 Nú bregður hins vegar svo við að hér eru 3 hundar í uppeldi, rétt að verða 3 mán. 

 Það er alltaf jafn fróðlegt og  umhugsunarvert að spá í muninn á alsystkinum.

  Máni skar sig fljótlega úr með það að vilja komast útúr búrinu og síðar stíunni sem þeir áttu að vera í. Sama hvað ég gerði alltaf komst hann út. Endaði á að klifra upp og yfir 1 m. háa grind. ( 5 cm. ferkantaðir möskvar). 



 Þegar  önnur grind var lögð ofaná, lýsti hann sig sigraðan. 

Hann er manninum mjög fylgispakur en grípur til geltsins ef eitthvað ógnar honum. 

 Lilli er svona eðlilegur hvolpur . Ekkert sótt í að kanna heiminn af einhverri óbilgirni. 



Allra fyrst taldi ég líklegt að hann yrði frekar til baka og lítill í sér og af því er nafnið dregið. 
Þetta reyndist síðan vera alrangt mat hjá mér. 

 Dropi fylgdi hinsvegar bróður sínum trúlega í útrásartilraununum þó hann beygði sig hinsvegar mun fyrr fyrir hinu óumflýjanlega. Dropi er hinsvegar verulega " til baka " í allri umgengni. 



Eini hvolpurinn sem er ýkt útgáfa af meðfæddri " feimni " móðurinnar.

 Uppeldið á henni endaði þó framar öllum vonum og " feimnin " í samskiptunum við manninn slógu ekkert á frábæra smalahæfileikana. 

Ég lifi í voninni um að eins verði með Dropa og  mun nýta  reynsluna af móðuruppeldinu til að koma honum auðveldlega gegnum uppeldið. 

 Það verða síðan smalahæfileikarnir sem ráða því hversu mikið þeir verða tamdir og hvað áhugasamir fjárhundaleitendur þurfa að lækka mikið undir koddanum þegar rétta heimilið finnst fyrir þá.



 Það kostaði mig margra vikna vangaveltur og heilabrot að ákveða hvort móðirin Ronja frá Dalsmynni ætti að fara eða vera.  Ákvörðunin varð auðveldari fyrir það að hennar beið gott heimili, þar sem hún átti að baki nokkurra vikna reynslutíma í hauststörfunum. 

 Þannig að nú skilja leiðir í bili.

 En svona gengur þetta hjá þeim sem ekki láta duga að koma sér upp góðum hundi á svona 9 ára fresti emoticon .

10.02.2015 19:57

Já ..Verðið á tömdum hundi ??

 Þú ert að selja tamda fjárhunda sagði maðurinn í símanum. 

Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri spurning eða staðhæfing.

 Það kemur aðeins fyrir, svaraði ég svo.

 Áttu eitthvað til sölu núna spurði hann þá ? 

Nei, sagði ég.

  Maðurinn hikaði aðeins og spurði svo hvaða verð væri á tömdum hundi. Nú var samtalið farið að ganga smurt og ég sagðist ekki minnast þess að hafa nokkurntímann selt tvo hunda á sama verði. 

Verðin væru jafn misjöfn og hundarnir.

  Núú sagði maðurinn , hvaða verð eru þá helst í gangi hjá þér.

  Ég játaði það að stundum losaði ég mig við hund sem ég hefði kannski lagt talsverða vinnu í á sæmilegu hvolpaverði vegna þess að hann myndi aldrei virka almennilega. 

 Já, gæfi þá meira að segja stundum.

Þeir bestu færu á, ja allavega  400 +. 

 Svo væri allt þar á milli.

 Spurningarnar voru ekkert á þrotum hjá viðmælandanum og nú vildi hann vita hvað dýrustu hundarnir hefðu framyfir hina. 

 Jaaaaa, þeir væru  auðvitað mikið tamdir, alhliða öflugir vinnuhundar. Hlýddu þessum helstu skipunum. 
 100 % öruggir í að fara fyrir og halda saman hóp og koma með hann. Hefðu mikinn vinnuáhuga og úthald. Væru auðvitað gallalausir í daglegri umgengni. 

 Svo skipti aldurinn talsverðu máli. 

 Já, og hvað vantar helst í þessa ódýrari spurði náunginn þá og var orðinn mjög alúðlegur í röddinni.

 Eg var hinsvegar ekki  mjög  alúðlegur lengur og sagði að í þessa ódýrari vantaði eitthvað af kostum dýra hundsins , mismikið, þó það mætti hafa gagn af þeim.
 Þeir væru minna tamdir og oft væru svo einhverjir gallar í farteskinu annaðhvort í umgengninni eða vinnunni sem ekki löguðust í tamningu.

  Er þetta þá ekki endalaust prútt var þá spurt. 

  Nei , það væri aldrei prúttað. ( Umhugsunarvert en þannig er það ).  
  
  Kaupandinn fengi ákveðinn aðlögunartíma  og síðan væri málinu lokið. Annaðhvort með kaupum, eða ég tæki hundinn  til baka.  Eftir að hafa dælt í mig þó nokkrum spurningum í viðbót kvaddi maðurinn. 

Ég er hinsvegar enn að velta fyrir mér hvað lá á bak við yfirheyrsluna. 

Allavega var örugglega ekki um væntanlegan kaupanda að tömdum hundi að ræða emoticon

 En þekkingin drepur engan emoticon .


 


Flettingar í dag: 3062
Gestir í dag: 117
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651160
Samtals gestir: 57993
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:36:02
clockhere