15.02.2009 21:47

Blótið og Barðaströndin.



  Mér var allavega bent þrisvar á það í gær að " Barðaströndin" næði nú hreint ekki yfir Barðastrandasýslurnar.

   Hún næði nú ekki svo mikið austurfyrir Brjánslæk og væri t.d.Flókalundur austan hennar.
Mér hefur trúlega orðið það á einhverntímann, gegn betri vitund að nefna ströndina og eitthvað í austursýslunni í sömu andránni og það hefur geymst en ekki gleymst.


                              Seftjörn nær. Brjánslækur fjær. Séð frá höfninni.

  Gestrisnin á " Læk " fer síst minnkandi og þorrablótið á Birkimel var alveg meirháttar.
Það var kominn hópur að húsinu áður en það var opnað kl. 8 og  flest sæti skipuð, vel fyrir 1/2 níu
þó blótið byrjaði ekki fyrr en níu.

  Þetta litla og skemmtilega hús var troðfullt.  Það var nýmæli fyrir mig og mína að þarna voru matartrog á öllum borðum og engar biðraðir eða troðningar til að ná sér í næringuna.

 Það var ekki leiðinlegt fyrir okkur Jóhann Pétur að sitja með hrokað trogið fyrir framan okkur stútfullt af kræsingum.
  Reyndar átti ég stundum erfitt, með mína heittelskuðu á vinstri hlið og Jóa við þá hægri. Þau hökkuðu nefnilega í sig hákarlinn eins og þeim væri borgað fyrir það, og varð mér stundum erfitt um andardráttinn sérstaklega þegar þau ræddu málin, fyrir framan nefið á mér.

  Skemmtiatriðin voru ýmist frábær, eða algjörlega frábær. Sum voru kannski ljósblá, já eða dökkblá en þegar salurinn emjaði úr hlátri var ekki leiðinlegt.
  Ef ég var að skilja hlutina rétt, er ströndinni skipt upp í þrjú svæði og sér hvert svæði um blótið þriðja hvert ár. Mér sýndist koma skemmtiatriði frá öllum þeim bæjum sem sáu um þetta núna. Óþarft er að taka fram að atriðið þar sem bæði nafnið mitt kom fram og mynd úr heimasíðunni minni var eitt af þeim betri. Þrátt fyrir groddavatnsmerki á öllum myndum hér  og ströngum viðurlögum hótað við notkun síðuefnis  var þarna mynd sem tekist hafði að fjarlægja vatnsmerkið af. Þetta sýnir náttúrulega afar öflugan og einbeittan brotavilja, enda fannst mér eins og ég væri á heimaslóðum, vellíðanin margfaldaðist og helv. hákarlinn gleymdist ( næstum) alveg. Skemmtilegt þetta þorrablótaáreiti við mig óverðugan.

  Brjánslækjarbændur höfðu að sjálfsögðu gætt þess að leiða gesti sína að borði sem ekki var fjarlægt að loknum skemmtiatriðum. Ekki var nóg með það, heldur varð trogið okkar Jóa ekki frá okkur tekið og þegar líða tók á nóttina jukust vinsældir borðsins í samræmi við endurheimt magamál  blótsgesta.

  Flóabáturinn Baldur lá síðan við festar í Brjánslækjarhöfn um nóttina því flestir í áhöfninni sóttu blótið. Þetta þýddi hinsvegar eina og hálfa ferð fyrir þá í dag og það, að við komumst heim um miðjan dag í stað þessi að lenda í Hólminum um níuleytið í kvöld.


Meiriháttar.emoticon

r

 
Flettingar í dag: 369
Gestir í dag: 91
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424106
Samtals gestir: 38656
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 15:29:01
clockhere