19.02.2009 20:38

Hitaveita og arðkröfur.



Það var korteri fyrir síðustu aldamót sem ég settist við reiknivélina og fór að reikna út hvort borgaði sig að taka þátt í því, með nokkrum félögum mínum að leggja hitaveitu til okkar.

  Það kom tiltölulega fljótt að því að slökkt var á reiknivélinni enda ekki nokkur leið að reikna arðsemi útúr svona ævintýri.

 Stuttu seinna hitti ég eldhugann sem startaði hugmyndinni og sagðist verða með.

 Það gekk svo á ýmsu fram að borun vorið 2001, en það náðist vatn, við lögðum hitaveitu um  haustið og heita vatnið var síðan að tengjast hjá okkur framundir jólin 2001.

  Þetta var um 13 km. lögn til 7 bæja og þetta hefur trúlega verið með dýrustu hitaveitum landsins per notanda, sem alfarið var kostuð af einstaklingum.

              Dæluhúsið niður við Kolviðarnesvötn. Þaðan liggja lagnir í 3 áttir.

  Síðan þá hafa bæst við 3 notendur og 2.5 km lögn og það hefur aldrei hvarflað að mér eitt augnablik þessi ár, að þessum peningum hafi verið illa varið.

  Við vorum 7 stofnendurnir , allir með jafnan hlut. Gert var ráð fyrir að hvert lögbýli fengi orku sem samsvaraði a.m.k. 35 kw. Við hönnunina kom í ljós að hitastig og þrýstingur var ákaflega misjafn milli bæja sem vænta mátti eða frá 65°hita og 6.5 kg þrýsting , niður í 48°og 1.8 kg.
 Hitamismuninum var mætt með mismunandi vatnsmagni á bæ en þrýstimunurinn beið betri tíma, eða þar til menn hefðu náð sér eftir framkvæmdina, enda menn bæði sárir og móðir áður en lauk.

 

 Um tengihúsið við Dalsmynni rennur kannski ekki lífæð búsins en breytingin yrði mikil ef hún     stoppaði.

  Þó það sé fínt að búa svo hátt að hægt sé að líta niður á nágrannana leiddi það til þess, að þrýstingurinn var lægstur hjá mér og hitastigið næstlægst.

Ég hef samt ekki kvartað enn.

 Gærdagurinn fór í það að fara í öll tengihús veitunnar og taka út notkun/rennsli, hitastig og þrýsting, til að kanna síðan frávik frá hönnunaráætlun.  Það er til marks um ánægju notenda að þetta hefur í raun aldrei verið gert skipulega frá upphafi, þrátt fyrir að öll frávik í notkun( minni notkun) frá áætlun, breytir hita og þrýstingi í lögninni.

Enda komumst við sérfræðingurinn að því, að þetta var hvergi eins og það átti að vera.

  En nú er kannski komið að því í kreppunni, að setja dælur á lögnina til að jafna þrýstingsmuninn og gera þessa hamingjusömu enn hamingjusamari. Reyndar er líka verið að tala um að hækka árgjöldin sem hafa staðið óhögguð frá upphafi. En það er nú önnur saga.



  Kannski verður komin dæla hér fyrir næstu aldamót, sem lyftir þrýstingnum úr 1.8 kg. í 3.5 kg.

  Það er skemmtilegur og samheldinn hópur sem stendur að þessu ævintýri og það verða engar uppsagnir eða launalækkanir hjá fyrirtækinu í þessu hörmungarástandi. Það er nefnilega enginn launakostnaður í rekstrinum.


Og bloggarinn er kominn í hátíðarskap við að rifja þetta upp.
Það verður því brugðið út af vananum og hafður með einn öl í pottinn.emoticon

Megið þið svo eiga góða helgi.

17.02.2009 09:16

Flatgryfja í fjárhús á Brjánslæk.


  Það var fyrir nokkrum árum sem Halldóra  og  Jóhann Pétur útlistuðu fyrir mér fyrirhugaðar breytingar á stórri flatgryfju sem breyta átti í fjárhús.

 Nú var framkvæmdin tekin út.




 Útveggir og milliveggur höfðu verið steypt í um 2.60 m.hæð og stálgrind og járn ofaná í 5 m. vegghæð.
 Til að fá næga lofthæð var milliveggurinn lækkaður um 45 cm. síðan var bætt við burðarbitum sitt hvoru megin við hann. Gólfið er síðan forsteyptar einingar.
 Milligerðirð eru úr nótuðum plastborðum. Þetta er þrælsterkt efni sem þolir vel talsvert bil milli stoða.



  Loftið er einangrað með einangrun frá Jötun Vélum. Sama efni og þeir bjóða upp á með stálgrindahúsunum sem fyrirtækið flytur inn.
  Það á eftir að opna mæninn og setja loftræstiop á hliðarveggi með vindneti.



 Þilplöturnar eru einnig frá Jötun Vélum. Þetta er þrælsterkt plastefni og hér er búið að skipta plötunni í tvennt.



  En það voru gjafagrindurnar sem ég hafði mestan áhuga á. Þær eru smíðaðar af  þeim nöfnunum á Brjánslæk og Laxárdal í Bæjarhr. og eru algjör snilld.
   Hér er rúllan hálfnuð og búið að færa upp efra jötubandið.



  Hér sést einföld og góð lausn á stillingunni á jötubandinu og frágangurinn á brautinni fyrir hliðargrindina.



 Það eru göngudyr inn í gjafagrindina og hér sýnir félagi Ágúst, hvernig þetta virkar.
Það er allt rafsoðið í göflunum sem hægt er, og þetta var ótrúlega stabílt.



  Einfalt þægilegt og öruggt.



  Hér bíða burðarstíurnar vorsins óþreyjufullar. Brynningin er í röri með veggnum.



  Þessi græja sér um að skila rúllunum á sinn stað.


 Fjöllin vestra eru stundum fastheldin á fé og þessir bræður eru tiltölulega nýkomnir á hús eftir fjarveru síðan vorið 2006 ( 2007, sjá athugasemd), þegar þeim var sleppt nokkurra vikna gömlum.



  Þetta hörku smalagengi samanstendur af Fiðlu frá Eyrarlandi, Skrám frá Dalsmynni og Jóhanni Pétri frá Borgarnesi. Það vantar Halldóru á myndina en hún stjórnar þessu öllu saman.



 Eftir mikla leit fannst svo ein með handföng í húsunum.

 Já,ekki er  hægt að segja annað en þetta hafi tekist býsna vel hjá þeim Brjánslækjarbændum.

  Það eru svo fleiri myndir inni á albúmi.

15.02.2009 21:47

Blótið og Barðaströndin.



  Mér var allavega bent þrisvar á það í gær að " Barðaströndin" næði nú hreint ekki yfir Barðastrandasýslurnar.

   Hún næði nú ekki svo mikið austurfyrir Brjánslæk og væri t.d.Flókalundur austan hennar.
Mér hefur trúlega orðið það á einhverntímann, gegn betri vitund að nefna ströndina og eitthvað í austursýslunni í sömu andránni og það hefur geymst en ekki gleymst.


                              Seftjörn nær. Brjánslækur fjær. Séð frá höfninni.

  Gestrisnin á " Læk " fer síst minnkandi og þorrablótið á Birkimel var alveg meirháttar.
Það var kominn hópur að húsinu áður en það var opnað kl. 8 og  flest sæti skipuð, vel fyrir 1/2 níu
þó blótið byrjaði ekki fyrr en níu.

  Þetta litla og skemmtilega hús var troðfullt.  Það var nýmæli fyrir mig og mína að þarna voru matartrog á öllum borðum og engar biðraðir eða troðningar til að ná sér í næringuna.

 Það var ekki leiðinlegt fyrir okkur Jóhann Pétur að sitja með hrokað trogið fyrir framan okkur stútfullt af kræsingum.
  Reyndar átti ég stundum erfitt, með mína heittelskuðu á vinstri hlið og Jóa við þá hægri. Þau hökkuðu nefnilega í sig hákarlinn eins og þeim væri borgað fyrir það, og varð mér stundum erfitt um andardráttinn sérstaklega þegar þau ræddu málin, fyrir framan nefið á mér.

  Skemmtiatriðin voru ýmist frábær, eða algjörlega frábær. Sum voru kannski ljósblá, já eða dökkblá en þegar salurinn emjaði úr hlátri var ekki leiðinlegt.
  Ef ég var að skilja hlutina rétt, er ströndinni skipt upp í þrjú svæði og sér hvert svæði um blótið þriðja hvert ár. Mér sýndist koma skemmtiatriði frá öllum þeim bæjum sem sáu um þetta núna. Óþarft er að taka fram að atriðið þar sem bæði nafnið mitt kom fram og mynd úr heimasíðunni minni var eitt af þeim betri. Þrátt fyrir groddavatnsmerki á öllum myndum hér  og ströngum viðurlögum hótað við notkun síðuefnis  var þarna mynd sem tekist hafði að fjarlægja vatnsmerkið af. Þetta sýnir náttúrulega afar öflugan og einbeittan brotavilja, enda fannst mér eins og ég væri á heimaslóðum, vellíðanin margfaldaðist og helv. hákarlinn gleymdist ( næstum) alveg. Skemmtilegt þetta þorrablótaáreiti við mig óverðugan.

  Brjánslækjarbændur höfðu að sjálfsögðu gætt þess að leiða gesti sína að borði sem ekki var fjarlægt að loknum skemmtiatriðum. Ekki var nóg með það, heldur varð trogið okkar Jóa ekki frá okkur tekið og þegar líða tók á nóttina jukust vinsældir borðsins í samræmi við endurheimt magamál  blótsgesta.

  Flóabáturinn Baldur lá síðan við festar í Brjánslækjarhöfn um nóttina því flestir í áhöfninni sóttu blótið. Þetta þýddi hinsvegar eina og hálfa ferð fyrir þá í dag og það, að við komumst heim um miðjan dag í stað þessi að lenda í Hólminum um níuleytið í kvöld.


Meiriháttar.emoticon

r

 
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere