02.05.2009 17:18

Schaferinn, landið og rollurnar??


 Ég fæ alveg heilmörg símtöl árlega þar sem umræðuefnið er hundar.

  Það er oft verið að velta fyrir sér einhverjum vandamálum, verið að leita að hundi handa tík, fá komment á einhver got og sv.frv.



 Langalgengast er þó að spurt sé, hvort ég taki í tamningu, eigi hvolpa til sölu og í seinni tíð er talsvert  spurt  um tamda hunda til sölu.

 Það teygist oft úr þessum samtölum,  en þó þau gleymist fljótt er þó alltaf eitt og eitt sem verður mér minnisstætt.

  Jarðeigandinn sem hringdi í mig um páskana sagðist þurfa að koma sér upp góðum fjárhundi.

Hann ætti tveggja ára Schafer sem hann væri búinn að fara með á eitt fjárhundanámskeið og nú vildi hann að ég tæki hann og kláraði verkið.

 Aðspurður sagði hann að Gunnari hefði bara litist vel á hann og sýnst hann nokkuð áhugasamur.

  Hann væri síðan búinn að fara nokkrum sinnum með Scheffann í kindur á jörðinni sinni en hann væri nú alveg stjórnlaus í því. Ég ætla ekki að fara nánar út í þær lýsingar en allt átti þó að hafa sloppið ótjónað.

 Þó ég hefði nákvæmlega engan áhuga á því að ljúka þessu smáræði fyrir landeigandann, kitlaði það mig dálítið,  hvernig svipurinn yrði á vinum mínum á Austurbakkanum, þegar ég færi að lýsa fyrir þeim hvað ég væri með í höndunum, hvað það gerði við rollurnar og hvar ætti svo að nota dýrið.
 
En vinir mínir á Austurbakkanum eru sérstaklega áhugasamir um rétta landnýtingu.

 Þrátt fyrir að þessi hlið málsins væri freistandi, aftók ég þetta með öllu og taldi reyndar öll tormerki á því að þarna færi efnilegur fjárhundur, þrátt fyrir ummæli snillingsins á Daðastöðum. Enda hef ég reynt Gunnar að því að vera óþarflega  jákvæður ( að mínu mati)  við hundaeigendur til að stappa í þá stálinu við tamningarnar.

  Þá tók ekki betra við því landeigandinn sótti nú stíft að ég útvegaði sér taminn hund nú eða efnilegan hvolp og fór mér nú að líða eins og ég væri eina haldreipi hans í lífinu við að hjálpa honum  að halda landinu sínu fjárlausu.

  Loks tókst mér að ljúka samtalinu með því að ég skyldi nú hafa þetta allt
saman bakvið eyrað og hafa hann í huga ef ég dytti niður á eitthvað sem ég héldi að hentaði honum.

 Hann bauð mér samt ekki að annast málið fyrir sig í verktöku. Hvað hefði gerst þá?? emoticon

30.04.2009 18:10

Vindorkan og virkjanirnar.


 Þegar norðaustanáttin er í essinu sínu hér á Nesinu þá hef ég hana í fangið á leið í gegningarnar.

   Eftir því sem árunum fjölgar, verður barningurinn erfiðari og  ég átta mig sífellt betur á því að þarna er um umtalsverða ónýtta orku að ræða.

  Þegar háttvirtur fráfarandi  umhverfisráðherra fór að ræða virkjun vindsins í framhaldi af nokkrum ógætilegum orðum  um olíuleit, korteri fyrir kosningar, rifjuðust upp fyrir mér ýmsir fróðleiksmolar sem voru gleymdir á harða diskinum, sem er nú reyndar að verða sífellt gloppóttari.



  Virkjun vindsins hefur fyrst og fremst tvo kosti. Hún er umhverfisvæn fyrir utan sjón og hávaðamengun og virkjunarkostnaðurinn er á svipuðu róli og hagkvæm vatnsaflvirkjun.

 Tækninni fleygir svo sífellt fram.  Nú getur stór vindmylla framleitt 5 mw. Fyrir örfáum árum var mesta framleiðslugeta 1 mw. Rétt er þó að taka fram að hámarksafköst og meðaltalsafköst  hjá vindrafstöð eru tvennt ólíkt.

 Gallarnir eru þeir að rekstrarkostnaðurinn er mun meiri en vatnsvirkjana og framleiðslan óstöðug.
  Þessi orkuver eru síðan drjúg við að halda niðri nálægum fuglastofnum.

   Úti í Evrópu er raforkuframleiðsla með vindi ríkisstyrkt, til að hún sé samkeppnisfær við aðra orkugjafa.
 Þar er framleiðslunetunum dreift um á skipulegan hátt til að jafna út óstöðugleikann í framleiðslunni, þar sem framleiðslan fer inn á sama dreifikerfið.




  Hér á landi myndi lognið trúlega vera minna vandamál en veðurhæðin, en framleiðslan stöðvast við ákveðinn vindstyrk.

 Til þess að reksturinn verði sem hagkvæmastur verður að nota annan orkugjafa til að taka við þegar myllan stöðvast. Fyrir okkur væri trúlega áhugaverðast að nota hin umdeildu miðlunarlón í þessu skyni. Minnka rennslið úr þeim þegar vindurinn blæs en auka það í logninu. Með þessu móti mætti gjörnýta vatnsvirkjanirnar og minnka sveiflurnar í vatnshæð miðlunarlónanna.

  Hér á klakanum eru raforkumálin, framleiðsla og flutningskerfi því miður í í farvegi sem sem er okkur neytendum óhollur og ekki mjög áhugavert umhverfi fyrir stórhuga vindvirkjunarsinna.

Þökk sé ónefndum stjórnmála flokkum/mönnum.emoticon




29.04.2009 16:04

Smiðirnir og vorverkin.


  Við getum gleymt honum. Hann á eftir að liggja þessa viku, síðan þarf hann nokkra daga að ná sér , svo verður  kominn sauðburður hjá honum sagði smiðurinn minn, þegar hann mætti í morgun. Ég hafði spurt eftir félaga hans sem lá í illvígri  flensu. Það er allt alvöru í Grundarfirði og flensan sem gengur þar, gefur ekkert eftir flensunni sem er örugglega á leiðinni til okkar frá útlandinu og er óðum að breytast í venjulega flensu.


Mann bæði svíður og klæjar  að standa í þessu núna.  Ég veit ekki hvorn þeirra ég hugsa verr til , smiðsins sem mætir og heldur mér frá vorverkunum eða hinum sem liggur og lætur samkvæmt mjög áreiðanlegum heimildum, frúna stjana við sig í stað þess að mæta hér eldhress og drífa þetta af. Það verður samt ekkert gefið eftir að klára þetta,  en klæðning og gluggar í fjósi munu bíða fram á sumarið..

  Vorverkin eru samt á fullu og kindurnar fengu seinni sprautuna sína um helgina.



 Gamli rekstrargangurinn sem átti nú bara að notast eitt haust, virkað vel í það og þó gangi afspyrnurólega að skipta honum út fyrir alvöru rekstrargang,  þá veit ég allavega hvernig sá á að vera sem er nú töluvert mikils virði.



 Dóttirin sleppti síðan tengdasyninum á hann Stíganda og hann kom náttúrulega uppeftir, til að sýna okkur smiðnum hvernig ætti að gera þetta. Fyrst svona og svo hinsegin.



 Það bendir margt til þess að umgengisréttur eigandans verði takmarkaður eins og mögulegt er.


 Já , trúlega eru ég og ferða og fjallaklárinn minn í vondum málum.emoticon 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere