30.04.2009 18:10

Vindorkan og virkjanirnar.


 Þegar norðaustanáttin er í essinu sínu hér á Nesinu þá hef ég hana í fangið á leið í gegningarnar.

   Eftir því sem árunum fjölgar, verður barningurinn erfiðari og  ég átta mig sífellt betur á því að þarna er um umtalsverða ónýtta orku að ræða.

  Þegar háttvirtur fráfarandi  umhverfisráðherra fór að ræða virkjun vindsins í framhaldi af nokkrum ógætilegum orðum  um olíuleit, korteri fyrir kosningar, rifjuðust upp fyrir mér ýmsir fróðleiksmolar sem voru gleymdir á harða diskinum, sem er nú reyndar að verða sífellt gloppóttari.



  Virkjun vindsins hefur fyrst og fremst tvo kosti. Hún er umhverfisvæn fyrir utan sjón og hávaðamengun og virkjunarkostnaðurinn er á svipuðu róli og hagkvæm vatnsaflvirkjun.

 Tækninni fleygir svo sífellt fram.  Nú getur stór vindmylla framleitt 5 mw. Fyrir örfáum árum var mesta framleiðslugeta 1 mw. Rétt er þó að taka fram að hámarksafköst og meðaltalsafköst  hjá vindrafstöð eru tvennt ólíkt.

 Gallarnir eru þeir að rekstrarkostnaðurinn er mun meiri en vatnsvirkjana og framleiðslan óstöðug.
  Þessi orkuver eru síðan drjúg við að halda niðri nálægum fuglastofnum.

   Úti í Evrópu er raforkuframleiðsla með vindi ríkisstyrkt, til að hún sé samkeppnisfær við aðra orkugjafa.
 Þar er framleiðslunetunum dreift um á skipulegan hátt til að jafna út óstöðugleikann í framleiðslunni, þar sem framleiðslan fer inn á sama dreifikerfið.




  Hér á landi myndi lognið trúlega vera minna vandamál en veðurhæðin, en framleiðslan stöðvast við ákveðinn vindstyrk.

 Til þess að reksturinn verði sem hagkvæmastur verður að nota annan orkugjafa til að taka við þegar myllan stöðvast. Fyrir okkur væri trúlega áhugaverðast að nota hin umdeildu miðlunarlón í þessu skyni. Minnka rennslið úr þeim þegar vindurinn blæs en auka það í logninu. Með þessu móti mætti gjörnýta vatnsvirkjanirnar og minnka sveiflurnar í vatnshæð miðlunarlónanna.

  Hér á klakanum eru raforkumálin, framleiðsla og flutningskerfi því miður í í farvegi sem sem er okkur neytendum óhollur og ekki mjög áhugavert umhverfi fyrir stórhuga vindvirkjunarsinna.

Þökk sé ónefndum stjórnmála flokkum/mönnum.emoticon




Flettingar í dag: 339
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 413987
Samtals gestir: 37223
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 10:33:29
clockhere