19.06.2009 16:17

Grenjavinnsla og heyskapur.

 Nú er grenjavinnslan á fullum sving. 

Allt bendir til  að þetta gæti orðið metár í veiddum dýrafjölda í sveitarfélaginu en eftir er að fara á nokkur greni sem trúlega er á. Kleifárvallagrenið vannst í nótt og Skógarnesgrenið í fyrrinótt. Félagi okkar sem er með vestasta hluta sveitarinnar  sem byrjaði  fyrr og er kominn með metuppskeru, enda að verða búinn með sinn hluta.

 Klárir í slaginn. Þó dótið sé mikið og dýrt ,dugar það lítið ef óheppinn veiðmaður hittir heppinn ref, því ekki verður ófeigum í hel komið.



  Þessi bústaður 7 dýra fjölskyldu lætur lítið yfir sér.



  
Það er eftir að fara á grenið í Hafursfellinu sem ég fann fyrir nokkrum árum. Það er mikil fjallganga að komast á það, en trúlega er ekki á því ár.

Það var svo aðeins byrjað að slá í gær en stutt í að stór hluti túnanna verði tilbúinn.

 Ef ekki kemur góður þurrkur seinnipartinn í næstu viku verða svo margir órólegir.

 En það er seinnitíma vandamál.

 Nú er það veiðin og útiveran.emoticon 

 

16.06.2009 22:58

" Sleppitúrinn " mikli.


  Það mættu 16 manns og 52 hross í Smáratúni í Fljótshlíð þriðjudagskvöldið 9 júní.
Þetta var samansafn fólks sem var ákveðið í því að gleyma öllu kreppukjaftæði og leiðindum næstu dagana og hlaða batteríin rækilega fyrir sumarið. Við vorum tveir sveitamennirnir úr Eyjarhreppnum en hitt víðsvegar af suðvesturhorninu.

 Miðvikudaginn átti svo að ríða að Gunnarsholti þar sem hestarnir áttu víst næturhólf en aðrir áttu gistingu í Hrólfstaðarhelli.
 Þessi dagleið átti að vera tiltölulega stutt en þegar í Gunnarsholt kom tókst húsfreyjunni í Hrólfstaðahelli á undraverðan hátt að lokka fararstjórann til sín með hrossin líka.

 Það tapaðist hestur inn í skóginn á Tumastöðum. Gunni týndist reyndar líka í skóginum. Þarna var slegið upp hólfi meðan hesturinn var sóttur og sem betur fer fyrir Gunna var hann hjá hestinum og komst því aftur í hópinn.
 
  Þetta varð því lengsta dagleiðin, en veðrið var frábært, hrossin rákust með eindæmum vel og þessi 15 km. viðbót var í fínu lagi. Fararstjórinn var samt rekinn fyrir tiltækið en endurráðinn þegar kom að því að elda þyrfti kvöldmatinn.

       Hér stefnir í kvöldverð í eldhúsinu í gamla bænum í Hrólfstaðarhelli. Endurráðinn farastjórinn við steikarpönnuna.

  Næsta dagleið að Leirubakka varð því afar stutt en skemmtileg upp með Ytri Rangá og síðan eftir ágætum línuvegi.


     Hér lestar reksturinn sig síðasta spölinn að beitarhólfinu á Leirubakka.

 Þar kynntumst við svo flugunni rækilega bæði um kvöldið og morguninn eftir.
Vegna þess hve dagleiðin var stutt var lagt á og tekinn stuttur reiðtúr austur yfir Rangána fyrir kvöldverðinn. Þarna dekruðu við dálítið við okkur og keypum veislumáltíð í Heklusetrinu. Síðan var það sána og heiti potturinn á eftir.

 Þriðja daginn var haldið til fjalla og gist í skálanum í Hólaskógi. Þetta var hófleg dagleið eins og þær áttu allar að vera, en hinsvegar varð  skýjaðra eftir því sem ofar dró og endaði í lítilsháttar rigningu. En flugnaplágunni létti algjörlega.

  Hér er um við rétt ókomin að áningarstað við tröllkonuhlaup í Þjórsá. Engar flugur og engin sól. Þegar bílarnir voru sóttir um kvöldið hafði gert él þarna á smábletti og grátt á jörð.


                                 Á áningarstað við Tröllkonuhlaup. Hekla gamla í baksýn.

  Farið var yfir Þjórsá á stíflunni við Bjarnarlón en þaðan var götulaus eyðimörkin riðin að Hólaskógi.
Þar var fyrsta flokks fjallaskálaaðstaða en þarna er rekin þjónusta allt árið m.a. með fjórhjólaleigu/ferðum um hálendið.


 Þarna var slegið upp mikilli veislu og grilluðu lambahryggsvöðvarnir nutu sín til fulls á fjöllum.

Frá Hólaskógi var haldið í Hallarmúla. Þar fórum við í hæstu hæðir leiðangursins og komumst í yfir 600m hæð. Því miður var skýjað og síðan fór að rigna. Þarna misstum við af rosaflottu útsýni til allra átta og þótti okkur það öllu verra en rigningin sem jókst eftir því sem leið á, og endaði í úrhellis slagviðri.


 Ofan á þetta bættist síðan að seinni hluti leiðarinnar var ansi grófur undir hóf. Þarna varð alvarlegast óhapp ferðarinnar þegar einn hestanna lenti í aur og endastakkst. Knapinn slapp þó ótrúlega vel. Fékk nokkrar kúlur , marbletti og var stinghölt til ferðaloka og trúlega lengur.



 Í svona ferðalögum eru menn ekki í rónni nema hrossin hafi nóg að éta í áningastað og þegar niður kom var byrjað á að gefa þeim duglega.


 Skálinn í Hallarmúla var ágætur en sístur af gististöðunum í ferðinni. Hann er hitaður með gasofni sem reyndist ekki vel til að þurrka það sem blotnað hafði. Þetta var eini næturstaðurinn þar sem einungis trússbíllinn mætti, sem aftur þýddi að farangurinn var í lágmarki.

    Reiðtygin þurrkuð áður en lagt er í síðasta áfangann að Hamarsheiði í Gnúpverjahrepp.

 Síðasti spölurinn að Hamarsheið var skemmtileg leið og ekki spillti fyrir að rekast á tvö stóð sem þýðir stundum mikið fjör. Hér voru þó vanir menn á ferðinni og engin vandræði leyfð.


 Að lokinni kveðjuveislunni sem haldin var hjá Hamarsheiðabændum var tekinn stuttur reiðtúr um heiðina ofan við bæinn í logni og hlýju júníkvöldinu. Þetta var ágætur endahnútur á þessari meirháttar ferð, en síðustu nóttina var síðan gist í Árnesi.

Og það er strax farið að velta fyrir sér reiðleiðum næsta árs.emoticon






09.06.2009 09:20

Sleppitúrinn og ferðahrossin.

  Nú verður lagt í hestaferðina í dag. Ferðalangarnir  hestar og menn, safnast saman að Smáratúni í Fljótshlíð en þaðan verður síðan riðið í fyrramáli.
 
Ferðahrossin mín  þrjú eru margreynd í lífsins ólgusjó .

 Fyrst skal frægan telja Oturssoninn Hyrjar frá Dalsmynni.



 Hann er að vísu að komast á aldur og sleppitúrunum fer að fækka sem hann kemst í.

  Þetta er mikill yfirferðahestur á brokki og tölti og þrátt fyrir að vera risastór lurkur er hann einstaklega mjúkur ásetu og skiptir litlu hvort brokkið eða töltið er í notkun.
 Þetta er besti klár sem ég hef eignast um dagana og þó kappið til að komast áfram hafi stundum reynt á langlundargeðið hefur alltaf náðst samkomulag.
 Sem smalaklár er hann einstakur, fer á allt sem honum er beint á og í taumi held ég að hann myndi fylgja mér viðstöðulaust ef ég gengi fram af björgum.

  Síðan er það Þrymur frá Dalsmynni,fenginn að láni frá yngri dótturinni.



 Þrymur er fimmgangshestur og ágætur ferðaklár , mjúkur á öllum gangi. Viljinn er ekki til vandræða hjá honum þó hann takin stundum aríur vegna þess að kúlurnar fóru í seinna lagi úr honum.

Síðan er það hún Bára frá S. Skörðugili.



 Þetta er fjórgangshryssa, örviljug með gott tölt. Dóttir mín sú hin eldri á hana og setur hana svo í ræktun að sleppitúr loknum.
 
 Stígandi fær ekki að fara í sleppitúrinn,  því þó ég eigi ríkjandi hlut í honum er það minnihlutinn sem ræður.  Hann fær að spreyta sig í B flokknum á fjórðungsmóti í staðinn.

 Vonarneisti Þrymsson frá Dalsmynni fer síðan með sem aukahestur en það er ekki einusinni til mynd af honum sem finnst í fljótu bragði.

 Það verður því væntanlega rólegt á Dalsmynnisblogginu fram yfir helgi nema frúin fari eitthvað að gera grín að mér.emoticon
 
Flettingar í dag: 411
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803536
Samtals gestir: 65137
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:40:43
clockhere