19.10.2009 22:59

Kúablogg októbermánaðar.

 Nú fer í hönd aðalburðarhrinan í Dalsmynnisfjósinu.

 Hún Rúrý Fontsdóttir sem opnaði á þessa lotu í síðustu viku var að eiga fyrsta kálfinn sinn. Þetta var afturfótafæðing og kálfurinn andvana fæddur. Sem betur fer eru dauðfæddir kálfar undantekningar hér.

 Randalín frá Álftavatni kom svo með kvígu ( Kappadóttur ) í þetta sinn, til mikillar ánægju fyrir aðalfjósafólkið.


 Júgrið á Randalín er svona týpískt íslenskt, en úr því eru samt að flæða um 9000 l. á mjaltaskeiði.

 Vanja Vöndu/Hræsingsdóttir bar í nótt stóru skjöldóttu nauti sem er hennar fyrsti kálfur og það var ennfremur fyrsti kálfurinn sem hún Tina hin sænska tekur á móti, og svo rekur hver aðra þar til 15 til viðbótar eiga að vera bornar fyrir áttunda nóv. Það eru 6 fyrsta kálfs kvígur í þeim hóp.




 Nú eru til nægar birgðir af hálmi til að láta kálfum og kindum líða vel í vetur. Það er að segja ef Söðulsholtsbóndinn  verður ekki búinn að breyta honum í gull og gersemar fyrr en varir. Hann hefur mjög einbeittan brotavilja í þeim efnum.

 Ófengnar og fengnar kvígur sem enn eru úti, verða teknar inn um leið og þær hafa lokið við síðustu rúlluna sem gæti orðið á morgun.

 Annars er bara allt á góðu róli í fjósinu og árlegt júgurbólgufár sem brast yfirleitt  á um það leiti sem kýrnar voru teknar inn kom ekki við þetta haustið.

 Einangrun og klæðning utan á veggina hefur síðan ótvírætt góð áhrif á andrúmsloftið sem var nú reyndar ágætt fyrir.



 Alla jafna er þetta svo ákaflega stresslaus vinnustaður og bændurnir löngu búnir að gefast uppá því að kenna kúnum að sýna af sér röskleika við að koma sér í og úr mjaltabásnum.

 Enda hárrétt hjá þeim að flas er ekki til fagnaðar.emoticon 

  



 
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 423842
Samtals gestir: 38576
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 05:05:41
clockhere