29.10.2009 00:02

Villifé og villuráfandi jarmandi malbikssauðir.


 Það er talið að elsta kindin sem náðist í Tálknanum í gær hafi verið 4 vetra.

 Hinar hafi verið eins til þriggja vetra.

 Þetta segir meira en mörg orð um það, við  hvaða aðstæður þetta fé býr þarna í útiganginum.

 Það er nefnilega þannig að íslenska sauðkindin er húsdýr og hefur frá upphafi Íslandsbyggðar verið ræktuð í tvennum tilgangi, Annarsvegar til kjötframleiðslu og hinsvegar til ullarframleiðslu.

 Og það er ullarframleiðslan sem er hluti af þeim skelfingum sem  bíður þeirra lamba sem komast upp þarna, því þetta fé er ekki, eðli málsins samkvæmt rúið árlega eins og það er ræktað til.

 Í einhverjum tilvikum losnar einstaka kind við ullarreyfið en hinar sem eru komnar með 2, 3 eða 4 ullarreyfi hvert yfir annað eru ekki í góðum málum hvorki sumar né vetur. 

Enda virðast þær samkvæmt þessu ekki verða eldri.

 Eins og fyrri daginn verður umræðan alveg ótrúleg. Einn af mestu þungavigtarmönnunum  í umhverfisumræðunni toppaði þetta rugl samt alveg gjörsamlega þegar hann tók sem dæmi að engum dytti í hug að útrýma skógarbjörnunum þó þeir væru orðnir horaðir á vorin.

 Á meðan skógarbjörninn liggur í hýði sínu yfir veturinn er sauðkind á útigangi náttúrulega að berjast við að halda lífinu, í þessu tilviki á ísuðum klettasyllum norður við dumbshaf við skelfilegar aðstæður ef vetur er harður.

 Þessir " velunnarar" íslensks útigangsfjár ættu vita hvernig er að koma að kind uppi á fjöllum á miðjum vetri, klökugri   svo hún stendur varla í lappirnar, vafrandi um á rótnöguðum bletti sem stendur uppúr snjónum.

 Og nú verður eflaust fljótlega til undirskriftalisti í feisbúkk þar sem hvatt er til að sett verði lög, sem banni smölun á útigangsfé svo það geti dáið drottni sínum eftir tveggja til þriggja ára kvalræði.emoticon 
 

27.10.2009 23:59

Haustverkin og óstarfhæf björgunarsveit.

 Það gengur mikið á þessa vikuna því nú er keppst við að ljúka haustverkum áður en veturinn hellist yfir.

  Ég var að plægja um helgina þá akra sem ekki verður borinn á búfjáráburður,  sem er að sjálfsögðu plægður niður. Sama á við um túnin sem plægð verða og tekin í byggrækt í 2-3 ár, áður en sáð er í þau grasfræi á ný.


  Svona var útsýnið á sunnudaginn  ( plæging uppá 9,5) og til að bæta fyrir  eða fullkomna helgidagaspjöllin var hlustað á dómkirkjuprestinn í útvarpsmessunni.  Góð ræðan hjá honum Séra Hjálmari.

 Í dag var síðan byrjað á að hræra upp í haughúsinu en það verður væntanlega keyrt út úr því á fimmtudag og föstudag.
 Tað/hálmhaugarnir verða svo hugsanlega afgreiddir í framhaldinu, nú eða geymdir í eitt ár enn, eftir því hvað menn verða brattir við að koma þeim á akrana. Í stöðugt hækkandi áburðarverði er gróðinn svo mikill að eiga þá, að kannski borgar sig að geyma þá aðeins lengur

 Björgunarsveitin á svæðinu var síðan næstum óstarfhæf í dag, því þeir virkustu þar voru sprautaðir við svínaflensufárinu í gær. Þeir urðu síðan mismunandi fárveikir af sprautunni og ég sem hafði enga samúð með yngri bóndanum, fullvissaði hann um, að  trúlega hefði hann verið búinn að smitast og fengi flensuna nú af tvöföldum þunga.

 Já, nóg að gera í sveitinn og ekkert minnst á þetta óunna sem er búið að vera á 6 ára áætluninni í , ja nokkurn tíma.emoticon 

24.10.2009 22:59

Dreifbýlið, grunnskólinn og skítblankt sveitarfélag.

Það var létt yfir nýkjörnum sveitarstjórnarmönnum sem voru að hefja nýtt kjörtímabil fyrir tæpum 4 árum í bullandi         " góðærinu ", uppfullir af væntingum til góðra hluta sem koma átti í verk.

 Nú eru breyttir tímar og menn vakna misharkalega til raunveruleikans.

Hjá Borgarbyggð er nefndin sem sett var saman til að benda á leiðir til hagræðingar í  fræðslumálunumm að skila af sér.

 Hvað grunnskólann varðar bendir hún á nokkrar leiðir til að ná fram sparnaði.
 Allt frá  óbreyttum fjölda starfsstöðva en flötum niðurskurði til málaflokksins, til þess að fækka starfsstöðvum í tvær.

Þá yrði kennt í Borgarnesi og annaðhvort á Kleppjárnsreykjum eða Varmalandi.

 Síðan eru í bent á sem millileið fækkun einstakra starfstöðva , einnar eða fleiri.
Grunnskólinn er viðkvæmur málaflokkur og ein brýnasta þjónusta sem sérhvert sveitarfélag veitir.
Það byggða ból  eða byggðahverfi sem ekki er í  ásættanlegu umhverfi hvað grunnskólaþjónustu snertir er dæmt til glötunar á einhverjum tíma.

 Þó núverandi skólar/ skólahverfi hafi byggst upp við allt aðrar aðstæður en eru í dag er samt skynsamlegt að stíga gætilega til jarðar í að gjörbylta þeim.

 Skólarnir eru hver fyrir sig ákveðin þungamiðja í viðkomandi skólahverfi.
  Þar hefur ákveðinn fjöldi fasta vinnu við allt sem viðkemur rekstrinum og í dreifbýlinu eru þetta staðir sem skipta verulegu máli fyrir byggðina og í sumum tilvikum algjör kjölfesta þeirra.

 Verði viðkomandi skóli lagður niður er ekki nóg með að umtalsverður hluti íbúa viðkomandi byggðar missi vinnuna, heldur mun einhver hluti barna í viðkomandi skólahverfi standa frammi fyrir verulegri lengingu á skólaakstri sem í sumum tilvikum mun verða  á mörkum þess sem ásættanlegur er, eða vera kominn útfyrir þau.

 Og rétt eins og Íslendingar eru nýbúnir að átta sig á því að landbúnaðarframleiðslan skiptir umtalsverðu máli í kreppunni og gjaldeyrisskortinu, eru Borgnesingar væntanlega óðum að átta sig á því hvernig staðan væri,  ef dreifbýlið væri  ekki jafn burðugt og það er þó í dag.

 Fyrir mig sem aðila að Laugargerðisskóla var einkar athyglisvert að sjá hvernig nefndin setti upp skýringatöflu um launakostnað vegna kennara og stjórnenda við einstaka skóla.

  Í stað þess að láta koma fram kostnað Borgarbyggðar við þennan lið í Laugargerði var þar sett öll rekstrarupphæðin. Þannig að í stað launakostnaðar Borgarbyggðar sem er kr. 16.800.000 vegna Laugargerðis var heildarkostnaðartalan 41.000.000 kr. notuð í staðinn



 Já það eru erfiðir tímar og ekki verður gert lítið úr þröngri stöðu í Borgarbyggð.

Spurningin er sú þegar reiknimeistararnir setjast niður,  hvernig þeir vega saman mannauðinn og þann veraldlega.emoticon


Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 219
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 803354
Samtals gestir: 65136
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 22:19:28
clockhere