19.11.2009 23:35

Allt að róast í sveitinni - bráðum.

 Já, tíðarfarið er búið að vera virkilega fínt undanfarið og þó lognið hafi verið á ákaflega góðri siglingu undanfarna daga lygndi í gær. Það kom sér vel,  því loksins var plægingu lokið þetta haustið og plógurinn því þrifinn og smurður . Hann fær síðan vetrarvist í upphitaðri vélageymslu enda snilldarverkfæri sem á bara það besta skilið.


 Pöttingerinn er meiriháttar skemmtilegur í plægingunni en þar sem mýrarakrarnir  verða stundum mjúkir yfirferðar var valin extra léttbyggður og meðfærilegur  vendiplógur. Vökvaskekkingunni og öllu óþarfa prjáli sleppt þó vökvaútslættinum væri haldið.

 Haughúsdælan var tekin upp í leiðinni, og þrifin .  Nú ákváðum við að setja örflóru í haughúsið og verðum gaman að sjá hvort það hefur einhver áhrif þegar kemur að því að hræra upp í apríl.

 Plæginguna endaði ég á um 5 ha. túni sem væntanlega verður í byggrækt næstu tvö árin .

 Nú er loksins verið að ýta út ruðningum á spildum sem verið er að taka undir bygg til að byrja með en munu enda sem tún. Það verk hefur átt að vinnast síðustu tvö haust.



 Ef tekst að ljúka því í haust munu bætast við akrana um níu ha. Það gæti þýtt verulega aukningu í byggrækt næsta árs.

 Ef áætlanirnar ganga upp með afsetninguna á umframhálminum í vetur, munu hálmurinn og gæsaveiðin skjóta styrkari stoðum undir þessa ræktun og auka verulega líkurnar á bærilegri afkomu.

 Já, þó mesta hauststressið sé búið hefur dregist of lengi að kippa ullinni af lömbum og veturgömlum.
 Hópurinn er ekki stór en þegar kemur að rúningnum verða bændurnir aumir í baki og öxlum og nefndu það bara.
 
Enda frestur á illu bestur eins og allir sannir bændur vita. 

  En allir frestir taka enda og nú styttist í að reifin fjúki af fénu og allt verði tekið á hús, enda  fengitíð og sæðingar að bresta á.

 En ekki fyrr en eftir helgi því nú er endalaus gleði framundan.emoticon

Flettingar í dag: 347
Gestir í dag: 74
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 424084
Samtals gestir: 38639
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 14:32:19
clockhere