24.11.2009 23:38

Fauskáskelda, steinar, Vikur eða Nykurtjörn?

 Ég var mættur  á slaginu 10 í morgun í Landlínum að setja landamerki Dalsmynnis inná kort  og ákveða hvar þörf væri á hnitsetningum til öryggis.

 Það reyndist nú bara vera á einum stað þar sem sjónlínur mætast í stein í austanverðu Dalsmynnisfellinu sem talin var þörf á hnitsetningu, hitt væri allt nokkuð ljóst.

 Þó manni hafi verið bent á landamerkin í bernsku hafði nú aldrei verið legið yfir landamerkjabréfum og örnefnum tengdum þeim og ekki laust við að manni þætti orðalagið stundum skrýtið  á sumum bréfanna sem legið var yfir í dag.


 Landamerkjabréf fjallajarðanna hér í sveitinni lokuðust alltaf með línum í einhverja fjallstoppa  og síðan " eftir fjallseggjum " eins og sagði gjarnan í bréfunum.

 
Eftir að hafa lokið minni hlið á merkjum  Dalsmynnis heimsótti ég gamlan sveitunga, því ég hafði tekið að mér að koma inn landamerkjum á aðalskipulagstillögurnar, fyrir 4 eyðijarðir í austurhluta sveitarinnar. Ég hafði áður verið fullvissaður um að slík landamerki á aðalskipulagi hefðu ekkert lagalegt gildi gagnvart seinni tíma kynslóðum.

 Eftir að hafa farið yfir landamerkjabréfin ákvað ég að fá fyrrverandi Höfðabónda, Sigga Odds í lið með mér frekar en fara um svæðið og dýrka upp gömul örnefni sem ég vissi ekki nákvæmlega hvar voru.

 Enda varð okkur ekki skotaskuld úr því að strika nokkrar línur á kort þrautreyndir í því frá gamalli tíð,  ýmist að búa til vandamál eða leysa þau.

 Og ég held að línurnar hafi flestar verið býsna nærri lagi hjá okkur.



 Hér í lægðinni í hrauninu rennur Fannáin sem skiptir landi milli Y. Rauðamels og Gerðubergs.
Samkvæmt landamerkjabréfinu kemur hún úr Vikurtjörn. Það er held ég óumdeilt að hún kemur úr Nykurtjörn.

Lang - lang stærst þessara jarða er Ytri - Rauðimelur sem er ein af landstærstu jörðum  á Vesturlandi og blóðugt að hún skuli hafa verið lögð í eyði.
  Á landamerkjabréfi fyrir vesturhlið Rauðmels var syðsta örnefnið Fauskáskelda, norðar var svo vitnað í Skálmarkeldu sem lá frá  Miklholti og uppundir  "þjóðveg" .

 Við Siggi vorum nú  harðir á því að Skálmarkeldan og Miklholtið lægi ofar , norðar þjóðvegar og skildum ekkert í þessu, fyrr en lesin var dagsetningin á landamerkjabréfinu sem var frá 1885. Samkvæmt því hefur þjóðleiðin meðfram Gerðuberginu á þeim tíma verið kallaður þjóðvegur.

Og flóinn sem núverandi þjóðvegur liggur um var náttúrulega ósnortið votlendi á þeim tíma.,

 Já það er öruggast fyrir landeigendur að drífa í því að hnitsetja
landamerki áður en örnefnin týnast.emoticon

Flettingar í dag: 196
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 288
Gestir í gær: 26
Samtals flettingar: 423933
Samtals gestir: 38606
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 12:11:30
clockhere