01.12.2009 23:37

Kúabloggið fyrir ræktunarnördana.

 Rétt eins og í víninu eru kvíguárgangarnir misjafnir.

 Stundum hefur júgursuga leynst í hópnum og er búin að rústa nokkrum júgrum eða eitthvað annað hefur farið úrskeiðis og allt er í klessu.

 Núna er óvanalega góður árgangur að bætast við í Dalsmynnisfjósinu og ekki veitir af að hressa uppá liðsandann.

 Það eru bornar 9 kvígur í haust og einungis sú síðasta reyndist vera með vott af júgurbólgu og var tekin á kúr. Hinar líta nokkuð vel út miðað við ja,- já ekki orð um það meira.

 Þrátt fyrir markvissa ræktun síðustu þúsund árin finnst mér alltaf nokkurt lotterí í gangi með júgur og mjaltalag ( minnist ekkert á allt hitt) sem skiptir hellingsmáli.



 Hér er Rúrý 101 undan Font 98027 og Rúnu 0027. Mesti mjaltahraði er 1.4 l/m. og meðalmjöltun 1 l/m. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um það og hún er komin í 22 l/ dag.


   Hér er hún Brodda 112 sem er mesti sóðinn af þeim. F. Oddgeir og M. Branda 9295.
Mjaltahraðinn er mestur 2.6 l/m og meðalhr. 1.6 l/m. hún mjólkar 20.2 l/dag. Hún lekur sig aðeins.


Álfadís 108 er undan Jaxl og Huldu 0007. Mjaltahraðinn er max 2.6 og 1.8 að meðaltali.
Hún mjólkar 28.1 l.


Vanja 106 er nú ekki með gott júgur. F. Hræsingur. M. Vanda 9151. Mjaltahraðinn er max1.8 og meðalhraðinn 1.2 l/min. nythæð 25.5l.


Svartasól 105 er með afturvísandi spena. F.Hengill. M.0026 Sunna. Mjaltahraðinn max 1.4 og meðal 0.9 l/m. Hún mjólkar  20 l/dag og á eftir að bæta aðeins við sig..



 Lissý 102 er undan Stássa og  Línu 0016. Mjaltahraðinn er max  1.8 l/min meðalhr. 1.2. Nyt 21 l.


Tvípunktur 104 er undan Jaxl og Kvísl 251. Hún er nýborin með vott af júgurbólgu og engar hraðamælingar framkvæmdar en þetta lítur allt ágætlega út hjá henni.


 Linda 117 undan Hræsing og Hosu 161. Hosa er að skila yfir 40 L/dag  en dóttirin er í 24.4 með max mjaltahraða 2.2 l/min og meðalhr.1.1 l.



Fríður 111 undan Stíl og Smáfríði 29. Hún er að ná sér eftir heiftarlegan niðurgang og er komin í 19 l.Dag og mjaltahraðinn er max 2.4 l/min meðalhr 1.6 l.

 Þetta eru hin " stöðluðu"  íslensku júgur með slakan mjaltahraða en skapið í öllum þessum kvígum er ágætt eða alla vega ásættanlegt sem er nokkur nýlunda hér með svona hóp.

 Og sem betur fer, eru íslenskir skattborgarar enn tilbúnir að bæta mér upp afkastaleysi þessara dásamlegu landnámskúa í framleiðslunni,  hversu lengi sem það stendur.emoticon

 

29.11.2009 09:45

Fyrsti vetrarbylurinn.

 Það hlaut að enda með því að gerði smábylgusu og reyndar er fyrsti bylur vetrarins hér, um einum og hálfum mán. seinna á ferðinni en oft áður.

 Það var mjög fínt að fá hann ekki fyrr en allt er komið á hús sem inni á að vera, og enginn útigangur norpandi um hér í boði umhverfisráðherra.


 Svona leit þetta út gegnum eldhúsgluggann út í ljósastaurinn í morgunsárið.

Þetta er að vísu töluvert mikið ýkt ástand því enn sem komið er virðist þetta ætla að verða hálfgerður aumingjabylur hvorki mjög hvasst né mikil snjókoma sem er auðvitað ágætt líka.

 Sá tími sem mér þótti afspyrnuhressandi að komast út í blindbyl er löngu liðinn og kemur að öllum líkindum aldrei aftur.

 Þar sem veðurhæðin er ekki með eðlilegu móti núna hefur aðeins dregið í skafla, en við eðlilegar aðstæður fýkur snjórinn oftast á haf út án lendingar í landi.

 Í góðmennskukasti gærdagsins hafði ég boðist til að gefa morgungjöfina í hestamiðstöðinni.

Það var náttúrulega þegið áður en mér gafst ráðrúm til að bakka útúr því, svo eftir smákaffipásu var brunað niðureftir og gefið.

 Ég skildi snör viðbrögð hestamiðstöðvarliðsins við gjafaboðinu þegar kom í ljós að það þurfti að byrja á að sækja rúllu út.

 Það var bara gaman að þessu og trúlega væri ég vel nothæfur  hrossahirðir með hæfilegri tilsögn.

 Svona til að fari smá hrollur um hrossaliðið er rétt að smella hér inn mynd af hrossagerðinu síðan í feb. 2008.



 Og .þessi fær líka að fljóta með til að sýna að snjórinn á líka sínar skemmtilegu hliðar.

Já það er bara allt í góðum gír í sveitinni.emoticon

 

27.11.2009 08:57

Stressviku að ljúka.

 Nú er veturinn að hellast yfir, orðið drullukalt og slæm spá fyrir helgina.

 Það lá fyrir að allt þyrfti að gerast þessa vikuna svo bændurnir gætið horft slakir inní veturinn.

 Og þetta gekk allt upp.

 Það tókst að renna með tætara yfir það sem brýnast var í ökrunum þó þar hefði mátt gera betur.


 Í  svona þurrkatíð er akuryrkjan skemmtileg og enginn lætur sig dreyma um svona græju.
 Það gæti kannski gerst í vor.

 Tími fannst í að afgreiða eða gera klára fyrir afgreiðslu, byggsekkina sem rollukallar víðsvegar um vestan og norðanvert landið tókst að særa út, þó við nennum nú varla lengur að afhenda byggið valsað og sekkjað.

 Ég hef alltaf lúmskt gaman af hobbýbændunum sem eru oft að fjárfesta í hálfum sekk handa sínum fáu kindum og eru síhringjandi frá miðju sumri, fyrst til að tryggja sér byggið og síðan að pína mig til að afhenda það í tíma fyrir fengitíð.

Ég held að sumir þeirra hafi verið orðnir nokkuð pirraðir í restina.
.
 Og Þorkell á Mel  lauk jaðýtuvinnunni í gærkveldi, svo nú liggur fyrir að kalka og hugsanlega koma hálmskít í 9 ha. af nýbrotnu landi sem tekið verður undir byggrækt næstu árin.


              Ef guð lofar og tíðarfarið verður skaplegt, lítur þetta kannski svona út næsta haust.

 Fullorðna féð var svo loksins tekið inn í gær og byrjað að klippa það. Því verki mun svo að öllum líkindum ljúka í dag.




Skógræktarbóndinn í Dalsmynni býður mér svo með sér í jólahlaðborð vestlenskra skógarbænda í kvöld, þó ég sé nú ekki mjög handtakagóður að hjálpa henni í skógræktinni.

Það verður ágætis slútt á þessarri púlviku.emoticon



Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere