05.03.2010 22:15

Vorboðarnir, sáðbyggið, áburðurinn og prúttið.

Nú er kominn sá tími að mann er farið að hungra og þyrsta eftir vorinu og sumrinu.

 Og hverjum vorboða er tekið fagnandi og stundum gert mikið úr litlu.

Lægðin sem er að bögga okkur núna gæti t.d. verið fyrsta vorlægðin o.sv.frv.

 Einn af þessum pottþéttu vorboðum er hann Elías hjá Líflandi sem hringdi í mig í dag, svona til að minna á frækaupin fyrir vorið.

 Við félagarnir í byggræktinni erum trúlega góðir viðskiptavinir enda oft að versla okkur um 20 tonn af sáðbyggi sem er tekið í einum sameiginlegum  pakka.

Því miður er sænska gengið að stríða okkur og hækka fræið um 12-15 % frá fyrra ári sem er a.m.k. 12- 15  % of mikil hækkun því nú hefðum við viljað sjá lækkandi tölur bæði í fræi og áburði. 


 Já, já , það styttist óðfluga í sáninguna þó ekki sé búið að ákveða endanlega hektarfjöldann sem sáð verður í.

 Stærsti gallinn sem ég hef fundið við hann Elías er, að það er ekki fyrir fj. sjálfan að hagga honum í prúttinu, enda komst  Einar lítið  með hann þegar við ætluðum að þjarma að honum í upphafi viðskipta.

  Svo eru áburðarverðin komin fram í dagsljósið og gengur mönnum alveg þokkalega að halda aftur af gleði sinni yfir þeim tölum.

 Hafi upplýsingarnar um lækkandi áburðarverð erlendis átt við rök að styðjast er ljóst að sú lækkun hefur horfið í hafi. Enda alltaf vitað að margt getur gerst á langri leið.
 
 Ef ég væri aðeins yngri og sprækari myndi ég safna saman nokkur hundruð tonna pöntun og gera áburðarsölunum lífið leitt, því ýmislegt bendir til þess, að þar sé innistæða til einhverrar lækkunar.

 Ég verð allavega mun verri við þá í komandi prútti, en hann Elías í Líflandi þó hans tími muni koma áður en lýkur.

  Nú er bara að loka áburðaráætluninni, ákveða hektarafjöldann í bygginu og svitna aðeins við að skoða kostnaðartölurnar við þetta ævintýri.

Já, mikið held ég nú að það sé skemmtilegt sumar framundan.emoticon  

Flettingar í dag: 16
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 788
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 419761
Samtals gestir: 38202
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 03:51:08
clockhere